Umsögn Þroskahjálpar vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins er komin inn á samráðsgáttina.
Hvetjum öll til að kynna sér málið. 

Í kynningu um breytingarnar á nýjum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga kemur fram:

  • Frumvarpinu er ætlað að bæta áfram afkomu örorkulífeyrisþega og þá sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa og minnst hafa.
  • Breytingarnar fela í sér nýja hugsun þar sem ætlað er að taka betur utan um fólk en áður og búa til umgjörð þar sem fólki er gert kleift að blómstra.
  • Einnig er tekið sérstaklega fram að horft sé á þau sem minnst hafa og að kjör þeirra sem einungis fá greiðslur frá almannatryggingum eða eru með litlar aðrar tekur batna mest með nýja kerfinu. 

Eftir að hafa skoðað frumvarpið vöknuðu ýmsar spurningar og sendi Þroskahjálp erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins þann 26. febrúar þar sem við óskuðum eftir upplýsingum og útreikningum um það hverjar heildargreiðslur væru í núverandi kerfi og svo einnig í nýju kerfi. 

Miðað við þær upplýsingar sem við fengum er alveg ljóst að ekki hefur verið hugað að  viðkvæmasta hópi fatlaðs fólks sem hefur ekki nein tækifæri til að auka við tekjur sínar og eins og frumvarpið er núna þá mun þessi hópur sem færi á örorkulífeyri, sem býr einn og hefur fengið fyrsta örorkumat við  18 ára aldur, hækka um 4.020 kr.(heildargreiðsla). 

Mun meiri áhersla er lögð á þann hóp sem hefur möguleika á að vera þátttakandi á vinnumarkaði.

Landssamtökin Þroskahjálp gera alvarlegar athugasemdir við þennan lið frumvarpsins og geta ekki lýst yfir stuðningi við að frumvarpið verði að lögum óbreytt.

 

Sjá umsögn Þroskahjálpar hér