Allir eiga rétt á að njóta menningar og frístunda

Allt fólk sem býr við fötlun á rétt á skipulögðu félags- og tómstundastarfi.

Tryggja skal þeim sem búa við fötlun ferðaþjónustu til að geta stundað frístundastarf.

Allt fólk sem býr við fötlun eigi kost á að taka sumarleyfi og önnur frí utan heimilis.


Allir hafa sömu þörf fyrir að sækja lífsfyllingu, slökun, örvun og skemmtun í hverskyns tómstunda- og menningarstarf.

Þessari þörf skal mætt með því að greiða þeim, sem vegna fötlunar sinnar þurfa, leið að allri almennri tómstunda- og menningarstarfsemi samfélagsins með þeim stuðningi sem hentar hverjum og einum. Fólk með fötlun skal eiga raunverulegt val í slíku starfi og fá til þess nauðsynlega liðveislu án tillits til aldurs og hvar það býr. Sveitarfélög skulu uppfylla skyldur sínar við þennan hóp eins og aðra íbúa sveitarfélagsins.

Húsnæði sem ætlað er til almenns félags-, menningar-, tómstunda og íþróttastarfs skal vera aðgengilegt fólki með fötlun og því sé gert kleift að taka þátt í því starfi sem þar fer fram. Tryggja skal þeim, sem þess þurfa, ferðaþjónustu til að geta stundað frístundastarf.

Á öllum skólastigum verði fötluðu fólki veitt kennsla og þjálfun í nýtingu tómstunda. Sérhæft tómstundastarf verði skipulagt fyrir þá sem ekki geta, eða treysta sér til að nýta sér almennt tómstundastarf og þeim tryggð aðstaða við hæfi.

Fólk sem býr við fötlun eigi kost á að taka sumarleyfi og önnur frí utan heimilis. Þeir sem ekki geta ferðast einir eigi kost á stuðningi og þeim tryggð til þess fjárveiting.

Fjölbreytt félags-, menningar-, tómstunda og íþróttastarf verði jafnan í boði fyrir fólk með fötlun í heimabyggð þess og skulu hlutaðeigandi yfirvöld annast kynningu á því.

Ítarefni: