Lögfesting SRFF

 Alþingi


Alþingi samþykkti frumvarp um lögfestingu
samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks,
þann 12. nóvember 2025.

Þroskahjálp fagnar þessum sögulega áfanga af heilum hug,
enda hafa samtökin barist fyrir lögfestingunni í mörg ár.


 

Landssamtökin Þroskahjálp þakka heilshugar þeim mörgu, sem af eldmóði, þrautseigju og hugrekki hafa lengi barist fyrir því að samningurinn yrði lögfestur.

Þar á fatlað fólk, sem hefur þurft og þarf enn að berjast fyrir mannréttindum sínum í íslensku samfélagi, mestan heiður.

En fleiri hafa lagt þar lóð á vogarskálarnar. Þar má nefna Ágúst Ólaf Ágústsson, fyrrverandi alþingismann, sem lagði fram þingsályktunartillögu á Alþingi árið 2019 um að samningurinn skyldi lögfestur og fylgdi henni mjög ötullega eftir þannig að hún var samþykkt. Og einnig má þar nefna ráðherrana Guðmund Inga Guðbrandsson og Ingu Sæland og formann velferðarnefndar, Kolbrúnu Áslaugu Baldursdóttur, sem lagt hafa mikið á sig til að knýja á um lögfestingu samningsins.

 


 

Hvað er samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks?

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er alþjóðlegur mannréttindasamningur sem áréttar að fatlað fólk að njóta sömu mannréttinda og allir aðrir og hafa raunveruleg tækifæri til þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra. Samningurinn leggur áherslu á virðingu, sjálfstæði og jafnrétti.

Í samningnum er ekki að finna nein sérréttindi fyrir fatlað fólk heldur aðeins undirstrikað að fatlað fólk á að njóta sömu réttinda og allir aðrir. Flóknara er það nú ekki.

Íslensk stjórnvöld fullgiltu samninginn árið 2016 og hafa nú samþykkt að lögfesta hann.

 


 

Hvað breytist við lögfestinguna?
Og hvers vegna skiptir lögfestingin máli?

Lög um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks munu verða mjög mikilvægt tæki í baráttunni fyrir því að fatlað fólk fái raunveruleg tækifæri, án aðgreiningar, til fullrar þátttöku í íslensku samfélagi og til jafns við aðra sem á Íslandi búa.

 

Þær breytingar sem lögfestingunni fylgja eru meðal annars:

  • Aukið lagalegt vægi mannréttinda fatlaðs fólks og allra þeirra atriði sem samningurinn kveður á um.
  • Viðurkenning á því að fötlun verður til í samspili skerðinga og hindrana í umhverfi sem gerir ekki ráð fyrir fjölbreyttum þörfum. Það þarf því að breyta samfélaginu í stað þess að ætlast til þess að fatlað fólk lagi sig að aðstæðum.
  • Skylda til að tryggja aðgengi á öllum sviðum samfélagsins.
  • Skýrari kvöð til samráðs við fatlað fólk og hagsmunasamtök sem koma fram fyrir þess hönd.
  • Betri vernd gegn mismunun á grundvelli fötlunar.

 


 

Næsta skref í baráttunni:
valfrjálsi viðaukinn

En þrátt fyrir lögfestingu samningsins er baráttu Þroskahjálpar ekki lokið.

Ísland hefur enn ekki samþykkt svokallaðan valfrjálsan viðauka, sem veitir einstaklingum rétt til að kæra brot á samningnum til sérstakrar nefndar Sameinuðu þjóðanna þegar innlend úrræði hafa verið fullreynd.

Viðaukinn er því lykilverkfæri til að tryggja enn betur að fatlað fólk njóti í reynd fullra mannréttinda.

Ísland undirritaði viðaukann árið 2007 en hann hefur enn ekki verið fullgiltur af Íslands hálfu.
Þroskahjálp mun halda baráttunni fyrir því áfram.

 


 

Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
er stórt skref í átt að jöfnum tækifærum og betri lífsgæðum
í samfélagi sem hefur sett sér skýr markmið um að uppræta mismunun
á grundvelli fötlunar.

En enn er verk að vinna.

Kynntu þér leiðir til að styrkja starf Þroskahjálpar
og standa vörð um réttindi fatlaðs fólks.


Taka þátt í baráttunni