Persónuverndarstefna Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Persónuverndarstefna Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Persónuverndarstefnu þessari er ætlað að upplýsa hvaða persónuupplýsingum Landssamtökin Þroskahjálp safna og með hvaða hætti félagið meðhöndlar persónuupplýsingar.

Vegna fjölbreyttrar starfsemi Þroskahjálpar berast samtökunum gögn sem hafa að geyma persónuupplýsingar og stundum viðkvæmar persónuupplýsingar. Ef þú hefur látið eða ætlar að láta Þroskahjálp hafa slíkar upplýsingar hvetjum við þig til að kynna þér þessa persónuverndarstefnu samtakanna vel. Ef þú óskar eftir að við förum með upplýsingar þínar með öðrum hætti en fram kemur í þessari stefnu skaltu hafa samband við Þroskahjálp í síma 588 9390 eða á netfangið throskahjalp@throskahjalp.is.

Þú átt rétt á að vita hvaða upplýsingum er safnað um þig, hvers vegna það er gert, hvernig unnið er með þær upplýsingar, hvort þeim sé eytt eða þær varðveittar og þá hve lengi.

Þroskahjálp meðhöndlar persónuupplýsingar í samræmi við lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga og persónuverndarstefnu þessa.

Notkun og meðferð persónuupplýsinga hjá Þroskahjálp.

Öryggismál: Upplýsinga- og gagnaöryggi

  • Þroskahjálp leggur áherslu á það í allri starfsemi sinni, gagnvart starfsfólki sínu og þeim sem annast verkefni fyrir Þroskahjálpað að leynd upplýsinga um þig sé virt í raun. Þroskahjálp hefur það að markmiði að safna ekki meiri persónuupplýsingum en nauðsynlegt er vegna starfseminnar og verkefna sem samtökin sinna.
  • Þroskahjálp mun ekki afhenda þriðja aðila persónuupplýsingar um þig nema þú hafir óskað eftir því eða samþykkt eða það sé heimilt samkvæmt lögum og reglum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

 

Ráðgjöf.

  • Ef þú óskar eftir ráðgjöf símleiðis hjá Þroskahjálp ertu ekki beðin(n) um neinar persónuupplýsingar. Þú ákveður hvaða upplýsingum þú deilir með starfsmanninum og hann mun meðhöndla þær í samræmi við lög og reglur á sviði persónuverndar, óskir þínar og persónuverndarstefnu þessa.

 

Fjáraflanir o.þ.h.

  • Þroskahjálp mun vegna fjáraflana og skyldra verkefna einungis safna upplýsingum sem samtökunum er heimilt að gera samkvæmt lögum og reglum sem við eiga og ekki safna meiri upplýsingum en nauðsynlegt er vegna þeirra verkefna. Ef samtökin semja við aðra aðila um að vinna verkefni á þessu sviði fyrir samtökin munu þau sem ábyrgðaraðili gera viðeigandi vinnslusamninga við þá aðila samkvæmt lögum og reglum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem við eiga. Allar slíkar upplýsingar sem til verða munu verða meðhöndlaðar og varðveittar í samræmi við viðeigandi lög og reglur.
  • Landssamtökin Þroskahjálp nýta sér þjónustu þriðja aðila til þess að bæta þjónustu sína og skilvirkni í markaðssetningu, eins og heimilt er samkvæmt gildandi lögum og reglum á sviði persónuverndar.
    • MailChimp: Með Mailchimp sendum við fréttabréf um starfsemi okkar til þeirra sem hafa samþykkt að fá tölvupóst frá okkur. Hægt er að skrá sig af póstlista Landssamtakanna Þroskahjálpar hvenær sem er með því að smella á krækjuna neðst í tölvupósti sem sendur er út á póstlistann eða með því að senda okkur beiðni í tölvupósti á netfangið throskahjalp@throskahjalp.is.
    • Google Analytics og Facebook Pixel: Notkun á vefsíðu okkar er með þessari þjónustu nýtt til þess að mæla virkni auglýsinga og birta sérsniðnar auglýsingar.

 

Íbúðir Þroskahjálpar, leigusamningar um þær og viðhald.

  • Þroskahjálp fær persónulegar upplýsingar  um einstaklinga sem leigja íbúðir sem Þroskahjálp á.
  • Samtökin gæta þess að safna ekki meiri slíkum upplýsingum en nauðsynlegt er og meðhöndla þær og varðveita í samræmi við lög og reglur um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Slíkar upplýsingar eru ekki gefnar öðrum en þeim sem í hlut eiga nema samkvæmt umboði frá viðkomandi einstaklingum eða það sé heimilt samkvæmt lögum.
  • Sama á við um allar persónulegar upplýsingar sem Þroskahjálp kann að fá í tengslum við viðhald á íbúðum samtakanna sem og við undirbúning íbúðabygginga eða kaupa á íbúðum.

 

Ertu félagi í aðildarfélagi Þroskahjálpar?

  • Ef þú ert félagi í einhverju af aðildarfélögum Þroskahjálpar geymum við ekki upplýsingar um þig. Ef þú  ferð í framboð til setu í nefndum, stjórnum eða ráðum innan Þroskahjálpar og nærð kjöri, skráum við eftirfarandi upplýsingar um þig: Nafn, símanúmer, netfang, heimilisfang og heiti félags. Þetta eru nauðsynlegar upplýsingar til að skrifstofa Þroskahjálpar geti haft samband við þig og/eða sent þér gögn vegna funda, verkefna o.þ.h. Upplýsingar um nafn þitt og félag eru birtar á heimasíðu Þroskahjálpar þar sem fjallað er um aðildarfélög, nefndir, hópa, ráð, stjórnir o.þ.h. og eftir atvikum í skýrslum, tímariti og útgefnu efni samtakanna. 

 

Upplýsingar varðandi starfsfólk Þroskahjálpar.

  • Þroskahjálp safnar aðeins þeim upplýsingum um starfsfólk samtakanna sem nauðsynlegt er vegna launagreiðslna o.þ.h. og verkefna á sviði starfsmannamála. Þær upplýsingar eru meðhöndlaðar og varðveittar í samræmi við ákvæði laga og reglna á sviði persónuverndar og vinnslu persónuupplýsinga og eru ekki veittar öðrum nema fyrir liggi samþykki starfsmanns eða það sé skylt samkvæmt lögum. Sérstakrar varkárni er gætt þegar um er að ræða viðkvæmar persónuupplýsingar.

 

Minningarsjóður Jóhanns Guðmundssonar.

  • Ef þú sækir um styrk frá minningarsjóði Jóhanns Guðmundssonar, sem er varðveittur  hjá Þroskahjálp en er undir sérstakri stjórn, er óskað eftir  upplýsingum sem nauðsynlegar eru til að stjórn sjóðsins geti tekið afstöðu til umsóknarinnar. Starfsmaður sjóðsins sem þjónustar þig og formaður stjórnar sjóðsins hefur aðgang að gögnunum. Stjórnarmenn í sjóðnum fá að sjá styrkumsóknirnar á fundi. Þessi gögn fara aldrei úr húsi. Samþykki stjórn sjóðsins umsókn þína mun starfsmaður sjóðsins í framhaldinu óska eftir frekari gögnum, s.s. upplýsingum um númer bankareikninga og kennitölu. Gögn sem sjóðnum berast vegna umsókna um styrki og vegna afgreiðslu þeirra verða meðhöndlaðar og varðveittar í samræmi við lög og reglur um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

 

Samþykkt af stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar 17. nóvember 2018.

Breyting samþykkt af stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar 7. október 2020.