Fósturskimun skal beitt í þjónustu lífsins

Framfarir í læknavísindum eiga að stuðla að bættri heilsu, aukinni velferð og hamingju allra þegna.

Fósturskimun fyrir þungaðar konur í leit að frávikum varðar manngildið í okkar þjóðfélagi.

Fósturskimun skal beitt í þjónustu lífsins en ekki í þeim tilgangi að eyða fóstrum vegna frávika. Landssamtökin Þroskahjálp telja það ekki verkefni heilbrigðisyfirvalda að leita að lágri greind í móðurkviði. Það viðhorf að samfélagið eigi að vera á varðbergi gegn því að börn með fötlun fæðist, bendir til fordóma gagnvart þeim. Finnist fatlað barn á fósturskeiði er hætt við að ráðgjöf um framhald meðgöngunnar taki mið af þeirri lífssýn.

Samtökin telja afar óeðlilegt að heilbrigðisstarfsmenn einir ákvarði um hvernig þessum málum er skipað. Það er samfélagsins og þjóðkjörinna fulltrúa að móta stefnu í slíkum málum. Brýnt er að höfð verði samvinna við hagsmunasamtök fólks með fötlun eins og tilmæli alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) gerir ráð fyrir.

ítarefni:

  • Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks
    Formálsorð:
    liður X
    Grein:
    10.