Virða ber manngildi, grunnþarfir og rétt allra manna

Þau mannréttindasjónarmið, réttindi og skyldur sem liggja til grundvallar íslenskri samfélagsskipan taka einnig til þeirra sem takast á við fötlun og fjölskyldna þeirra.

Full þátttaka í samfélaginu eru mannréttindi sem eiga jafnt um alla, óháð færni og aldri. Þessi mannréttindi ná til allra þátta lífsins.

Til að takast á við þær hindranir sem fötlun tengjast skal viðkomandi og fjölskylda hans njóta stuðnings samfélagsins í samræmi við þarfir hvers og eins.

Öflug réttindagæsla skal tryggð þeim sem þess þurfa vegna fötlunar sinnar.

Mannréttindi taka til allra manna og mismunun er mál sem varðar samfélagið allt. Landssamtökin Þroskahjálp vilja vinna að samfélagi réttlætis þar sem ekki þrífst mismunun hvort heldur er á grundvelli fötlunar, kynferðis, kynhneigðar, trúar, stjórnmálaskoðana uppruna, kynþáttar, efnahags, sjúkdóma eða annarrar stöðu. Starf Landssamtakanna Þroskahjálpar er mannréttindabarátta. Stefna samtakanna tekur í grundvallaratriðum mið af alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem Íslendingar hafa undirritað. Stjórnvöldum ber að virða þau lög sem Alþingi hefur sett til að jafna tækifæri fólks til eðlilegs lífs og fara að alþjóðlegum skuldbindingum sem þau hafa undirgengist í þeim efnum. Þau skulu tryggja öllum þegnum sínum, fötluðum sem ófötluðum, þau réttindi og samþykkt hafa verið í mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar. Til að tryggja viðurkennd réttindi eiga þeir sem þess þurfa að geta reitt sig á öfluga réttindagæslu.

ítarefni: