Lög Landssamtakanna Þroskahjálpar

1.grein.

Nafn samtakanna er Landssamtökin Þroskahjálp. Lögheimili þeirra er í Reykjavík

2. grein.

Tilgangur samtakanna er að berjast fyrir réttindum og vinna að málefnum fólks með þroskahömlun sem og annarra fatlaðra, barna og fullorðinna og tryggja þeim fulla jafnréttisstöðu á við aðra þjóðfélagsþegna.

Því ber samtökunum að koma fram sem leiðandi aðili gagnvart stjórnvöldum, ríki og sveitarfélögum og á hverju því sviði málefna fatlaðra þar sem þau telja að úrbóta sé þörf.

Samtökin leitast við að hafa mótandi áhrif á allar aðgerðir sem stjórnvöld hafa forystu um, með það mark að leiðarljósi, að fólk með þroskahömlun og aðrir fatlaðir njóti í hvívetna sama réttar og sömu aðstöðu og fólk almennt.

3. grein.

Aðilar að samtökunum geta þau félög orðið, sem vinna að tilgangi samtakanna. Inntökubeiðni skal send stjórn samtakanna sem tekur ákvörðun um hana fram að næsta landsþingi. Ákvörðun stjórnar skal lögð fyrir landsþing til staðfestingar eða synjunar. Inntökubeiðni félags skulu fylgja afrit af lögum þess ásamt upplýsingum um stjórn og fjölda félagsmanna. Einstaklingar geta orðið styrktaraðilar að samtökunum sem veitir þeim rétt til að taka þátt í starfi samtakanna. Styrktaraðilar eiga ekki rétt til setu á aðalfundi. Styrktaraðilar fá sendar fréttir af starfi samtakanna m.a. Tímaritið Þroskahjálp.

4.grein.

Landsþing, æðsta vald samtakanna, sem jafnframt er aðalfundur þeirra, skal háð annað hvort ár að hausti til. Skal til þess boðað með eins mánaðar fyrirvara. Greina skal tillögu að dagskrá í fundarboði. Dagskráin skal samþykkt í upphafi þings. Atkvæðisrétt á þingi hafa kjörnir fulltrúar aðildarfélaganna og stjórnarmenn samtakanna. Starfsmenn samtakanna og formenn nefnda hafa þar seturétt með málfrelsi og tillögurétti. Þing er löglegt ef löglega er til þess boðað.

Á landsþingi fer fulltrúafjöldi hvers aðildarfélags eftir félagatölu, þannig að fyrir allt að 200 félagsmenn komi 2 fulltrúar og síðan 1 fulltrúi fyrir hverja 200 félagsmenn eða brot úr 200.

Á þinginu getur eitt félag ekki ráðið meiru en 1/5 hluta atkvæða.

5.grein.

Á landsþingi skulu mál tekin fyrir sem hér segir:

1. Formaður stýrir kjöri fundarstjóra og fundarritara
2. Dagskrá borin upp til samþykktar.
3. Skipað í kjörbréfanefnd
4. Inntökubeiðnir
5. Skýrsla stjórnar og umræður um hana
6. Umræður um málefni og markmið samtakanna
7. Samþykkt kjörbréfa
8. Skipað í starfsnefndir
9. Lagðir fram reikningar samtakanna fyrir síðustu tvö ár.
10. Lagabreytingar
11. Ákveðin árleg tillög aðildarfélaganna næstu tvö árin
12. Nefndir skila áliti
13. Kosning stjórnar
14. Kosning fimma manna uppstillingarnefndar fyrir næsta landsþing
15. Önnur mál
16. Þingslit
 
6.grein.

Landsþing samtakanna kýs í stjórn þeirra níu menn og fjóra til vara. Kosning er bundin og skal hagað þannig: a. Kosning formanns til tveggja ára b. Kosning fjögurra manna í stjórn til fjögurra ára c. Kosning fjögurra manna í varastjórn til tveggja ára d. Kosning tveggja skoðunarmanna ársreiknings og tveggja til vara til tveggja ára
Enginn getur setið í stjórn og eða varastjórn í meira en 8 ár samtals án lotuskila. Undantekning er að formaður getur setið sem slíkur í allt að 8 ár óháð fyrri stjórnarsetu.
Stjórnin kýs úr hópi aðalstjórnarmanna varaformann samtakanna og þrjá menn aðra er skipa framkvæmdaráð ásamt formanni. Formaður skal stjórna þessum kosningum.
Framkvæmdaráðið annast allan rekstur samtakanna í samræmi við lög þeirra og ákvarðanir stjórnar. Halda skal einn eða tvo framkvæmdaráðsfundi í mánuði. Stjórnarfundi skal halda annan hvern mánuð. Skylt er formanni að kalla stjórn saman ef þriðjungur aðalstjórnamann æskir þess skriflega, enda tilgreini þeir hvaða dagskrárefni þeir æskja að tekið sé fyrir. Stjórn eða landsþing geta skipað nefndir til að annast vissa málaflokka.

7.grein

Haldinn skal minnst einn fulltrúafundur aðildarfélaganna um málefni samtakanna árið milli landsþinga og skal hann haldinn til skiptist í landsfjórðungunum. Hvert félag skal tilnefna tvo fulltrúa á fundinn. Stjórn samtakanna boðar til fundarins með minnst mánaðar fyrirvara.

8. grein

Tillögur til lagabreytinga skulu vera skriflegar og hafa borist skrifstofu samtakanna eigi síðar en 15. ágúst þess árs sem landsþing er háð. Framkomnar tillögur skal senda aðildarfélögunum með aðalfundarboði svo að væntanlegir fulltrúar á þinginu eigi þess kost að kynna sér þær áður en til þings kemur. Lögum þessum verður ekki breytt nema á landsþingi og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða.

9. grein.

Reikningsár samtakanna skal vera almanaksárið 1. janúar til 31. desember. Reikningar skulu endurskoðaðir eða kannaðir af löggiltum endurskoðanda samkvæmt ákvörðun stjórnar ásamt kjörnum skoðunarmönnum.

10. grein.

Aðildarfélögin skulu fyrir 1. júní ár hvert senda framkvæmdaráði skýrslu um störf og fjárhag ásamt breytingum á félagatölu. Árgjöld skulu greidd fyrir 31. desember hvers árs.

11. grein.

Verði samtökunum slitið skal fara með tillögur í þá átt sem lagabreytingar. Til fundarins skal boða bréflega og fer tala fulltrúa á fundinum eftir sömu reglum og á landsþingi. Fundur sá sem samþykkir að slíta samtökunum ákveður einnig hvernig ráðstafa skuli eignum þeirra og um greiðslu skulda. Eignum samtakanna má þó aðeins ráðstafa í samræmi við markmið þeirra.