Allir, sem þess þurfa, eiga rétt á stuðningi sem tekur mið af þörfum þeirra svo þeir geti notið jafnra tækifæra á við aðra í samfélaginu

Til að njóta jafnréttis og virðingar verður fólk sem þess þarf vegna fötlunar sinnar að eiga vísan stuðning samfélagsins. Einnig fjölskyldur fatlaðra barna.

Virðing fyrir einstaklingnum skal vera leiðarljós í slíku starfi og grundvallast á samvinnu.

Stuðning vegna fötlunar skal veita samkvæmt almennum landslögum og félagsþjónustu sveitarfélaga gert kleift að sinna félagslegum þörfum þeirra sem búa við fötlun eins og annarra.

Öll börn eiga rétt á að alast upp hjá fjölskyldum.

Aðgengi að samfélaginu skal öllum tryggt.

Fjölskyldur fatlaðra eiga að fá þann stuðning sem nauðsynlegur er til að geta lifað eðlilegu lífi. Stuðningurinn skal ætíð vera sveigjanlegur og uppfylla margvíslegar þarfir þeirra. Taka skal fullt tillit til sjónarmiða fjölskyldu við val á stuðningsúrræðum. Virðing fyrir einstaklingnum skal vera leiðarljós í þeim stuðningi sem veittur er vegna fötlunar og grundvallast á samvinnu. Slíkt er nauðsynlegt skilyrði svo einstaklingurinn megi efla sjálfstæði sitt og hæfni til að taka eigin ákvarðanir.

Það er krafa Landssamtakanna Þroskahjálpar að lífskjör fatlaðra og fjölskyldna þeirra verði jafnan í samræmi við almenn lífskjör í þjóðfélaginu og að fatlaðir njóti almennrar fræðslu-, félags- og heilbrigðisþjónustu. Félagsþjónusta sem veitt er vegna þarfa fjölskyldna fatlaðra barna og fólks með þroskahömlun skal vera á höndum félagsþjónustu sveitarfélaga, þar sem aðrir borgarar sækja sambærilega þjónustu.

Stuðningur við foreldra fatlaðra barna skal tryggja þeim jöfn tækifæri á við aðra á vinnumarkaði sem og á öðrum sviðum samfélagsins. Leggja þarf áherslu á að stuðningurinn sé samfelldur og heildstæður svo báðir foreldrar hafi sömu möguleika á fullri atvinnuþátttöku. Þannig njóti fötluð börn t.d. lengdrar viðveru í skólum svo lengi sem þörf er á, óháð aldri. Sérstaklega skal hugað að stuðningi við systkini fatlaðra barna.

Standa skal vörð um að umönnunarbætur verði aldrei tekjutengdar og foreldrar þurfi aldrei að greiða fyrir þjónustu sem er tilkomin vegna fötlunar barna þeirra. Foreldrar skulu eiga aðgang að leiðsögn og stuðningi frá ráðgjafa sem hefur aðeins skyldum að gegna gagnvart viðkomandi fjölskyldu, hefur þekkingu á fjölþættum þörfum fólks við slíkar aðstæður, réttindum þeirra og stuðningsúrræðum samfélagsins.

Öll börn eiga rétt á að alast upp hjá fjölskyldum. Þetta grundvallarviðhorf styður rétt barna til að eiga gott heimili og að þeim séu tryggð eðlileg uppvaxtarskilyrði.

Börnum sem af einhverjum orsökum geta ekki búið í foreldrahúsum, skal tryggt heimili sem er fjölskylduvænt. Í slíku tilfelli skal tryggt að gott samband milli foreldra og barns fái að haldast.

Aðgengi að öllum þáttum samfélagsins skal tryggt og brýnt að stjórnvöld, hönnuðir bygginga, fjölmiðlar, félagasamtök samgöngufyrirtæki, fyrirtæki í verslun og þjónustu o.fl. taki ávallt mið af því.

Ítarefni: