Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins er komin inn á samráðsgáttina.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins er komin inn á samráðsgáttina.
Hvetjum öll til að kynna sér málið. 

Í kynningu um breytingarnar á nýjum lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga kemur fram:

 • Frumvarpinu er ætlað að bæta áfram afkomu örorkulífeyrisþega og þá sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa og minnst hafa.
 • Breytingarnar fela í sér nýja hugsun þar sem ætlað er að taka betur utan um fólk en áður og búa til umgjörð þar sem fólki er gert kleift að blómstra.
 • Einnig er tekið sérstaklega fram að horft sé á þau sem minnst hafa og að kjör þeirra sem einungis fá greiðslur frá almannatryggingum eða eru með litlar aðrar tekur batna mest með nýja kerfinu. 

Eftir að hafa skoðað frumvarpið vöknuðu ýmsar spurningar og sendi Þroskahjálp erindi til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins þann 26. febrúar þar sem við óskuðum eftir upplýsingum og útreikningum um það hverjar heildargreiðslur væru í núverandi kerfi og svo einnig í nýju kerfi. 

Miðað við þær upplýsingar sem við fengum er alveg ljóst að ekki hefur verið hugað að  viðkvæmasta hópi fatlaðs fólks sem hefur ekki nein tækifæri til að auka við tekjur sínar og eins og frumvarpið er núna þá mun þessi hópur sem færi á örorkulífeyri, sem býr einn og hefur fengið fyrsta örorkumat við  18 ára aldur, hækka um 4.020 kr.(heildargreiðsla). 

Mun meiri áhersla er lögð á þann hóp sem hefur möguleika á að vera þátttakandi á vinnumarkaði.

Landssamtökin Þroskahjálp gera alvarlegar athugasemdir við þennan lið frumvarpsins og geta ekki lýst yfir stuðningi við að frumvarpið verði að lögum óbreytt.

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfisins

7. mars 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Í kynningu um breytingarnar á nýju lögum vegna endurskoðunar örorkulífeyriskerfis almannatrygginga kemur fram að frumvarpinu sé ætlað að bæta áfram afkomu örorkulífeyrisþega og þá sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa og minnst hafa.
Breytingarnar fela í sér nýja hugsun þar sem ætlað er að taka betur utan um fólk en áður og búa til umgjörð þar sem fólki er gert kleift að blómstra.

 • Nýja kerfið á að bæta þjónustu og auka samvinnu
 • Bæta kjör með betra og einfaldara greiðslukerfi
 • Mikilvægir hvatar til atvinnuþátttöku.

Einnig er tekið sérstaklega fram að horft sé á þau sem minnst hafa og að kjör þeirra sem einungis fá greiðslur frá almannatryggingum eða eru með litlar aðrar tekur batna mest með nýja kerfinu.

Eftir að hafa skoðað frumvarpið vöknuðu ýmsar spurningar og sendum við erindi til félags– og vinnumarkaðsráðuneytisins þann 26. febrúar þar sem við óskuðum eftir upplýsingum og útreikningum um það hver heildargreiðslur væru í núverandi kerfi og svo einnig í nýju kerfi.

Miðað við þær upplýsingar sem við fengum er alveg ljóst að ekki hefur verið hugað að viðkvæmasta hópi fatlaðs fólks sem hefur ekki nein tækifæri til að auka við tekjur sínar og eins og frumvarpið er núna þá mun þessi hópur sem færi á örorkulífeyri, sem býr einn og hefur fengið fyrsta örorkumat við 18 ára aldur, hækka um 4.020 kr. (heildargreiðsla).

Mun meiri áhersla er lögð á þann hóp sem hefur möguleika á að vera þátttakandi á vinnumarkaði (sjá nánari upplýsingar neðar í skjalinu).

Landssamtökin Þroskahjálp gera alvarlegar athugasemdir við þennan lið frumvarpsins og geta ekki lýst yfir stuðningi við að frumvarpið verði að lögum óbreytt.

 

Í þessu sambandi skiptir augljóslega einnig miklu máli að í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir að örorkulífeyrir hækki í samræmi við þróun verðlags og/eða kjara á almennum vinnumarkaði. Með vísan til þess sem að framan er rakið ítreka og árétta Landssamtökin Þroskahjálp eftirfarandi ályktun og kröfu sem landsþing samtakanna samþykkti í október sl.:

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar krefst þess að örorkulífeyrir verði tafarlaust hækkaður þannig að hann verði jafnhár og lágmarkslaun.

Þá nýtur fatlað fólk sem háð er örorkulífeyri um alla framfærslu sína ævilangt ekki neins samningsréttar varðandi kjör sín, eins og er á almennum vinnumarkaði og hefur því ekki neina möguleika til að bæta þau með þeim hætti, heldur er hvað það varðar algjörlega háð ríkisvaldinu, sem ákvarðar kjör þess einhliða. Það er því augljóst og mjög mikið réttlætismál að kjör fatlaðs fólks fylgi launaþróun í landinu til að koma í veg fyrir að fatlað fólk dragist enn meira aftur úr öðrum hópum í samfélaginu hvað varðar lífskjör. Samtökin leggja því mikla áherslu á að í þau lög sem hér eru til umfjöllunar verði sett ákvæði sem tryggi það með mjög öruggum og afdráttarlausum hætti.

Samtökin árétta það sem að framan segir og vilja á þessu stigi einnig koma eftirfarandi á framfæri varðandi frumvarpið en áskilja sér að sjálfsögðu allan rétt til að koma fleiri atriðum á framfæri varðandi það á síðari stigum.

Landssamtökin Þroskahjálp telja að margt sé til bóta í frumvarpinu frá því sem er samkvæmt gildandi lögum og reglum og telja rétt að endurskoða örorkulífeyriskerfið í heild sinni.

Samtökin fagna því að kerfið verði einfaldað og gert notendavænna fyrir fatlað fólk og flækjustig minnkað, m.a. og ekki síst fyrirkomulag varðand endurhæfingarlífeyri sem hentar mjög illa fötluðu fólki sem þarf nú endurhæfingaráætlun vegna fötlunar sinnar og ítrekað að skila til TR slíkri áætlun, þó að mjög óljóst sé til hvers endurhæfingin á að ná.

Samtökin hafa ávallt lagt mikla áherslu á að starfsæfing og beinn stuðningur við fatlað fólk á vinnustöðum sé árangursríkasta leiðin til að auka möguleika fatlaðs fólks til atvinnuþátttöku. Samhliða því verður að tryggja viðeigandi aðlögun á vinnustöðum, eins og mælt er fyrir um í 5. og 27. grein samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í því sambandi þarf sérstaklega að hafa í huga og taka viðeigandi tillit til að margt fatlað fólk, t.a.m. margt fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, hefur skerta starfsgetu m.t.t. afkasta í vinnu en ekki endilega hvað varðar vinnustundir þó að það geti að sjálfsögðu einnig átt við.

Tilgangur og meginmarkmið samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er að tryggja fötluðu fólki raunhæf tækifæri til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, til jafns við aðra og án aðgreiningar. Í ljósi fullgildingar íslenska ríkisins á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, landsáætlunar um innleiðingu samningsins og fyrirheita ríkisstjórnarinnar um lögfestingu hans er augljóst að fjölmörg ákvæði samningsins og þau réttindi fatlaðs fólks og skyldur ríkja sem þar eru áréttuð hafa mjög mikla þýðingu við þá endurskoðun örorkulífeyriskerfisins sem hér er til umfjöllunar. Í því sambandi er hér vísað sérstaklega til eftirfarandi greina en skýrt skal tekið fram að í nánast öllum greinum samningsins eru ákvæði sem hafa mikla þýðingu í þessu sambandi.

 

4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:

 1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.

  Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

  a)   að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,

  b)   að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ..
  . (Feitletr. Þroskahj.)

 

5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og hljóðar svo:

 1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.

 2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.

 3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.

 4. Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa.
   
 
19. gr. samningsins Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.
 
Aðildarríki samnings þessa viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi að fullu njóta þessa réttar og fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:
 
a)  að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima í tilteknu búsetuformi,

b)  að fatlað fólk hafi aðgang að ýmiss konar þjónustu, svo sem heimaþjónustu, búsetuþjónustu og annarri samfélagslegri stuðningsþjónustu, þar á meðal persónulegri aðstoð, sem nauðsynleg er til stuðnings lífi án aðgreiningar í samfélaginu og til að koma í veg fyrir einangrun og aðgreiningu frá samfélaginu,

c)  að samfélagsþjónusta og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og mæti þörfum þess.
 
 
27. gr. samningsins hefur yfirskriftina Vinna og starf. Þar segir:
 
 1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá tækifæri til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða samþykki á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, einnig fyrir þau sem verða fötluð meðan þau gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. með lagasetningu, til þess meðal annars:

  a)   að leggja bann við mismunun á grundvelli fötlunar að því er varðar öll málefni sem tengjast atvinnu af hvaða tagi sem er, meðal annars nýliðunar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað,


  b)   að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annars fólks, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, þar á meðal jafnra tækifæra og sama endurgjalds fyrir jafnverðmæt störf, öryggis og hollustu á vinnustað, þar á meðal verndar gegn áreitni, og úrbóta vegna misréttis sem það telur sig hafa orðið fyrir,


  c)  að tryggja að fatlað fólk geti nýtt réttindi sín sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra,


  d)  að gera fötluðu fólki kleift að hafa árangursríkan aðgang að almennri tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfs- og símenntun,


  e)  að efla atvinnutækifæri og þróun starfsframa fyrir fatlað fólk á vinnumarkaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna, öðlast og halda starfi og snúa aftur á vinnumarkað,


  f)  að fjölga tækifærum til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa samvinnufélög og stofna eigin fyrirtæki,


  g) að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans,


  h)  að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með viðeigandi stefnu og ráðstöfunum sem geta falist í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum,


  i)   að tryggja að fatlað fólk fái viðeigandi aðlögun á vinnustað,


  j)  að efla möguleika fatlaðs fólks til að afla sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði,


  k)  að efla starfstengda og faglega endurhæfingu fatlaðs fólks, að það geti haldið störfum sínum og áætlanir um að það geti snúið aftur til starfa.
 2. Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé ekki haldið í þrældómi eða ánauð og að því sé veitt vernd, til jafns við aðra, gegn þvingunar- eða nauðungarvinnu.

 

Við framfylgd ákvæða 27. gr. samningsins er bráðnauðsynlegt að hlutaðeigandi stjórnvöld taki mjög mikið mið af almennum athugasemdum nefndar samkvæmt samningnum varðandi ákvæði greinarinnar (General comment No. 8 (2022) on the right of persons with disabilities to work and employment). Almennu athugsemdirnar má nálgast á heimasíðu nefndarinnar á hlekk að neðan.

https://www.ohchr.org/en/treaty-bodies/crpd


29. gr. samningsins hefur yfirskriftina Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd og er svohljóðandi:

 1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar.
   
 2. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar á grundvelli fötlunar og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika, þar á meðal ráðstafanir:

  a)   til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang að hreinu vatni á við aðra og að tryggja aðgang að viðeigandi þjónustu, búnaði og annarri aðstoð á viðráðanlegu verði vegna þarfa sem tengjast fötlun,

  b)   til þess að tryggja fötluðu fólki, einkum fötluðum konum og stúlkum og fötluðu eldra fólki, aðgang að áætlunum á sviði félagslegrar verndar og áætlunum um að draga úr fátækt,

  c)   til þess að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, sem lifa í fátækt, aðgang að aðstoð frá hinu opinbera til þess að standa straum af útgjöldum vegna fötlunar, þar á meðal útgjöldum vegna viðeigandi þjálfunar, ráðgjafar, fjárhagslegrar aðstoðar og hvíldarumönnunar,

  d)   til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera, e) til þess að tryggja fötluðu fólki jafnan aðgang á við aðra að eftirlaunum og eftirlaunakerfum.
  (Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)
   

 

Eins og fyrr sagði er tilgangur og meginmarkmið samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks að tryggja fötluðu fólki raunhæf tækifæri til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, til jafns við aðra og án aðgreiningar. Einstaklingar sem ekki eiga möguleika á að afla sér tekna á vinnumarkaði vegna fötlunar eða heilsubrests standa sérstaklega höllum fæti hvað varðar kjör og framfærslu og tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu. Óþarft er að taka fram að þeir hafa ekki heldur þá möguleika sem almennt vinnuafl oft hefur til að bæta kjör sín til lengri eða skemmri tíma með því að skipta um starf eða fá betur launað starf á sama vinnustað eða með því að vinna yfirvinnu eða hlutastörf.
 
Augljóst er að full og virk þátttaka í samfélaginu án mismununar og aðgreiningar er undir því komin að fatlað fólk hafi ráð á að taka þátt í ýmsu félagsstarfi, menningarlífi og afþreyingu með sama hætti og ófatlað fólk. Ljóst er að slíkri samfélagslegri þátttöku og virkni fylgir óhjákvæmilega umtalsverður kostnaður og þá er vitað og viðurkennt að slík þátttaka er af ýmsum ástæðum mjög oft mun kostnaðarsamari fyrir fatlaðan einstakling en hún er fyrir ófatlað fólk. Til alls þessa þurfa stjórnvöld mjög að líta við setningu laga sem varða kjör og tækifæri fatlaðs fólks ef þau vilja í verki en ekki bara í orði standa við skuldbindingar sínar um að tryggja því eins og öðrum borgurum í landinu mannréttindi og tækifæri án mismununar og skapa hér samfélag án aðgreiningar. Til að svo geti orðið í íslensku samfélagi er bráðnauðsynlegt að bæta myndarlega lífskjör fatlaðs fólks í samræmi við almenn launakjör í þjóðfélaginu.
 
Í þessu sambandi má m.a. benda á könnun sem Varða — Rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, framkvæmdi í samstarfi við Öryrkjabandalag Íslands og birt var í desember sl. (sjá hlekk að neðan).
 
 
Mjög margt fatlað fólk hefur ekki aðrar tekjur en berar örorkulífeyrisgreiðslu og hefur mjög oft afar lítil eða engin tækifæri til að auka við tekjur sínar, vegna fötlunar sinnar og/eða ósveigjanlegs vinnumarkaðar og fárra atvinnutækifæra. Stór hluti þeirra hefur þurft og mun fyrirsjánlega búa við þær aðstæður allt sitt líf og mun því hafa litla möguleika til að afla sér viðbótartekna og njóta því lítilla eða engra lífeyrissjóðsréttinda. Þessi hópur er því og verður fyrirsjánlega háður örorkulífeyri um alla framfærslu sína ævilangt. Með lágum lífeyrisgreiðslum er það fólk því dæmt til fátæktar alla sína ævi og þeirrar félagslegu jaðarsetningar sem mjög oft leiðir af fátækt. Fyrir þennan hóp er aldursuppbót því gríðarlega mikilvæg. Samkvæmt útreikningum samtakanna mun aldursuppbót lækka úr kr. 63.020 í kr. 30.000 verði frumvarpið óbreytt að lögum.
 
Heimilisuppbót er ætlað að bæta kjör þeirra sem búa einir og þurfa því að bera einir margvíslegan og mjög verulegan kostnað sem fylgir því að reka heimili. Samkvæmt útreikningum samtakanna munu heimilisuppbót lækka um 11 þús. kr. (úr 68.2013 í 57.000) verði frumvarpið óbreytt að lögum.
 
Aldursuppbót og heimilisuppbót styðjast því við mjög veigamikil sanngirnis- og jafnræðisrök, sem samtökin telja nauðsynlegt að gefa mikið vægi í því regluverki sem hér er til umsagnar. Landssamtökin Þroskahjálp telja því mjög mikilvægt að fyrirætlanir um lækkun þeirra verði endurskoðaðar. Í því sambandi vísa samtökin til útreikninga sinna hér að neðan.

 

Einstaklingur með 0 kr. í tekjur á vinnumarkaði á mán. og býr einn — fötlun frá 18 ára aldri.
Inn í þessari heildartölu er aldursuppbót og heimilisuppbót.

Núverandi kerfi 462.980 kr.

Kerfi skv. frumvarpi 467.000 kr.

 

Samkvæmt frumvarpinu er hlutaörorkulífeyrir ætlaður þeim sem hafa 25–50% getu til virkni á vinnumarkaði. Líklegt má telja að fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, sem ætla má að muni falla undir þann flokk og fær tækifæri og færni til að vera á vinnumarkaði (25–50% starf) hafi í heildarlaun 100–200 þús. kr. á mánuði. Samkvæmt útreikningum samtakanna munu heildatekjur þess fólks lækka verði frumvarpið óbreytt að lögum ef viðkomandi fer í hlutaörorkulífeyri. – Sjá tölur hér að neðan.

Einstaklingur með 200.000 kr. í heildartekjur á vinnumarkaði á mán. og býr einn – fötlun frá 18 ára aldri.
Inn í þessari heildartölu er aldursuppbót og heimilisuppbót.

Núverandi kerfi 596.060 kr.

Kerfi skv. frumvarpi um hlutaörorkulífeyri 572.000 kr.

Kerfi skv. frumvarpi um nýjan örorkulífeyri 622.000 kr.

 

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að lagt er til að Tryggingastofnun geti vikið frá skilyrði um að niðurstaða samþætts sérfræðimats liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin um greiðslu örorkulífeyris sé slíkt mat bersýnilega óþarft að mati stofnunarinnar. Sá hópur sem hér er einkum horft til eru fötluð eða langveik ungmenni sem Tryggingastofnun hefur greitt umönnunargreiðslu vegna. Í þeim tilvikum væru uppfyllt skilyrði b-liðar 24. gr. um að niðurstaða liggi fyrir við 18 ára aldur.

Eins og frumvarpið er lagt fram og kynnt í tengslum við atvinnuþátttöku og sérstaklega er tekið fram að nýr örorkulífeyrir sé ætlaður þeim sem eru með 0–25% getu til virkni á vinnumarkaði og að hlutaörorkulífeyrir sé ætlaður þeim sem eru með 26–50% virkni á vinnumarkaði. Það er mjög óljóst hvort einstaklingar sem tilheyra þessum hópi fari beint á örorkulífeyri eða hlutaörorkulífeyri og verður því að skýra það betur.

Í frumvarpinu kemur fram að TR gefi út örorkuskírteini fyrir þá sem falla undir örorkulífeyri. Samtökin leggja áherslu á að það sama hljóti að eiga við um fatlað fólk sem verður á hlutaörorkulífeyri verði frumvarpið að lögum.

 

Samtökin leggja mikla áherslu á að sérstaklega verði greint hvaða áhrif örorkulífeyrir hefur með tilliti til réttinda til fjárhagslegs stuðnings og/eða bóta sem fatlað fólk á í öðrum kerfum. Slíkur stuðningur og bætur getur skipt mjög miklu máli fyrir fjárhagslega afkomu þess. Í því sambandi má t.a.m. nefna almennar og sérstakar húsnæðisbætur, niðurgreiðslur á lyfjakostnaði, heilbrigðisþjónustu og sanngirnisbætur. Samtökin leggja mikla áherslu á að slíkur stuðningur og bætur hafi ekki áhrif til lækkunar greiðslna úr örorkulífeyriskerfinu og að örorkulífeyrir skerði ekki rétt til slíks stuðnings eða bóta.

Samtökin leggja til að í 3. gr. frumvarpsins verði orðinu fötlun bætt inn í eftirfarandi málsgrein:
„Réttur til örorkulífeyris er bundinn því skilyrði að geta umsækjanda til virkni á vinnumarkaði samkvæmt samþættu sérfræðimati sé metin 25% eða minni til langframa vegna fötlunar, langvarandi eða alvarlegs heilsubrests.“

Mikilvægt er að þjónusta TR í gegnum þjónustugáttina verði aðgengileg fyrir öll. Í því sambandi þarf sérstaklega að taka fullt tillit til þess að stór hluti fatlaðs fólks hefur ekki rafræn skilríki og getur þar af leiðandi ekki nýtt sér sér stafræna þjónustu þar sem gerð er krafa um að fólk auðkenni sig með rafrænum skilríkjum. Samtökin telja mikilvægt að verði frumvarpið að lögum verði í því ákvæði um að lögin öll eða tiltekin ákvæði þeirra skuli tekin til endurskoðunar innan tiltekins tíma m.t.t. þeirrar reynslu sem af þeim verður þá komin, í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks.

Þá vilja samtökin koma á framfæri ábendingu um að þar sem um mjög miklar breytingar á örorkulífeyriskerfinu er að ræða, verði frumvarpið að lögum og í ljósi þess hversu veigamiklir hagsmunir margs fátæks og berskjaldaðs fólks eru í húfi að það kunni að vera skynsamlegt og ábyrgt að ný lög verði einungis látin ná til afmarkaðs hóps fólks sem samþykkir það, til reynslu í fyrirfram ákveðið tímabil.

Samtökin lýsa eindregnum áhuga og vilja til samráðs og samstarfs við ráðuneytið um þau mikilvægu mál sem hér eru til umsagnar og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samningsins sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar