ALÞJÓÐLEGI MANNRÉTTINDADAGURINN 10. DESEMBER.

Alþjóðlegi mannréttindadagurinn er haldinn 10. desember ár hvert. Þann dag árið 1948 var mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna samþykkt á allsherjarþingi þeirra.

Mannréttindayfirlýsing er grundvöllur fjölþjóðlegra mannréttindasamninga, þ.m.t. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Öll mannréttindi standa og falla með einni einfaldri hugmynd. Allt fólk á jafnan rétt til lífs og og tækifæra í lífinu, burtséð frá kynferði þess, kynþætti, fötlun, litarhætti, kynhneigð, þjóðerni, ætterni eða stöðu að öðru leyti.

Þessi hugmynd er ekki klöppuð í stein og óumbreytanleg um aldur og ævi. Hún er bara mannanna verk og raunar er mjög stutt síðan þjóðir heims féllust á að hún ætti að vera grundvöllur í samskiptum þeirra og áréttuð í lögum í öllum ríkjum. Það gerðist fyrir u.þ.b. sjötíu árum síðan þegar Evrópa og stór hluti heimsbyggðarinnar hafði verið lagður í rúst í hrikalegu stríði við ríki sem stjórnuðust af hugmyndum um að tilteknir kynþættir væru öðrum æðri og sumir þeirra væru réttdræpir, s.s. gyðingar og Róma-fólk og öðru fólki þyrfti að útrýma, s.s. fólki með þroskahömlun, geðfötluðum, öðru fötluðu fólki og samkynhneigðum.

En þessi hugmynd um jafnan rétt og mannréttindi er í raun mjög brothætt eins og önnur mannanna verk. Það er því alls engin trygging fyrir því að hún verði alltaf grundvöllur samfélaga, ríkja og alþjóðlegra samskipta. Og það er ýmislegt sem ógnar nú þessari hugmynd og hefur gert það frá því að hún var fyrst orðuð í alþjóðlegum mannréttindasamningum. Harðstjórar og lýðskrumarar hafa verið óþreytandi í tilraunum sínum til að grafa undan henni og þeir munu halda því áfram. En sú ógn sem að mannréttindum stafar frá háværum pólitíkusum er oftast augljós og sem betur fer eru margir sem halda vöku sinni og eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að verja hugmyndina um jafnan rétt fólks fyrir harðstjórum og lýðskrumurum og almenningur lætur sig það varða.

Eleanor Roosevelt gegndi mjög mikilvægu hlutverki við gerð mannréttindayfirlýsingar sameinuðu þjóðanna. Hún vissi mjög vel að öll mannréttindi byggjast á að við virðum þau sjálf og höfum kjark og þor til að standa vörð um þau. Eleanor orðaði þau sannnindi svo:

  „Hvar eru rætur alþjóðlegra mannréttinda? Á litlum stöðum, nærri heimilum okkar. – Svo litlum að þeir sjást ekki á neinum kortum af heiminum. Samt eru þeir veröldin sem hver og ein manneskja lifir og hrærist í; samfélagið þar sem hún á heima; skólinn sem hún gengur í; verksmiðjan, bóndabýlið eða skrifstofan þar sem hún vinnur. Þetta eru staðirnir þar sem sérhver maður, kona og barn sækist eftir réttlæti, jöfnum tækifærum og virðingu, án mismununar. Ef þessi réttindi eru ekki virt þar verða þau ekki virt annars staðar. Ef við stöndum ekki saman vörð um þessi réttindi okkar allra þar sem við eigum heima munu þau ekki gagnast til að gera heiminn allan að betri stað fyrir okkur öll.“

Höfum þetta hugfast í dag og alla daga.

 

Mannréttindayfirlýsingu SÞ á auðlesnu máli á heimasíðu Þroskahjálpar má nálast hér