Til umhugsunar - Hlutverk hagsmunasamtaka

Umfjöllun um málefni fatlaðs fólks sem sett er fram af undirrituðum og á hans ábyrgð. Hagsmunasamtök eru af margvíslegum toga. Stundum eru þau þó öll sett undir einn hatt og jafnvel stillt upp sem eins konar ógn við lýðræði, almannahagsmuni og einstaklingsfrelsi.

Hlutverk hagsmunasamtaka.

Umfjöllun um málefni fatlaðs fólks sem sett er fram af undirrituðum og á hans ábyrgð.

 Hagsmunasamtök eru af margvíslegum toga. Stundum eru þau þó öll sett undir einn hatt og jafnvel stillt upp sem eins konar ógn við lýðræði, almannahagsmuni og einstaklingsfrelsi.

Ekkert er fjærri sanni.

Sumum hagsmunasamtökum er ætlað það hlutverk fyrst og fremst  að gæta efnahagslegra  hagsmuna aðildarfélaga eða félagsmanna. Samtök aðila vinnumarkaðarins eru dæmi um það. Önnur samtök vinna að framgangi hugmynda sem einstaklingarnir sem innan þeirra starfa trúa að séu í þágu hagsmuna almennings eða réttlátara samfélags án þess að þeir sjálfir hafi af því einhvern ávinning umfram aðra. Náttúrverndarsamtök eru dæmi um það.

Þriðja tegund hagsmunasamtaka, ef svo má að orði komast, hefur tvíþætt hlutverk. Þau vinna að bættum hag félagsmanna eða tiltekinna hópa fólks og hafa einnig þá stefnu og markmið að hafa áhrif í samfélaginu til að efla veg og virðingu félaga sinna, félagsmanna þeirra og/eða þeirra hópa sem þau sérstaklega líta til í hagsmuna- og réttindagæslu sinni.  

Landssamtökin Þroskahjálp eru hagsmunasamtök þeirrar gerðar. Í lögum Þroskahjálpar stendur:

Tilgangur samtakanna er að berjast fyrir réttindum og vinna að málefnum fólks með þroskahömlun sem og annarra fatlaðra, barna og fullorðinna og tryggja þeim fulla jafnréttisstöðu á við aðra þjóðfélagsþegna.

Því ber samtökunum að koma fram sem leiðandi aðili gagnvart stjórnvöldum, ríki og sveitarfélögum og á hverju því sviði málefna fatlaðra þar sem þau telja að úrbóta sé þörf.

Samtökin leitast við að hafa mótandi áhrif á allar aðgerðir sem stjórnvöld hafa forystu um, með það mark að leiðarljósi, að fólk með þroskahömlun og aðrir fatlaðir njóti í hvívetna sama réttar og sömu aðstöðu og fólk almennt 

Aðilar að samtökunum geta þau félög orðið, sem vinna að tilgangi samtakanna.

Landssamtökunum Þroskahjálp er  því samkvæmt lögum og stefnu samtakanna ætlað  að  hafa áhrif á allar aðgerðir stjórnvalda og koma þar fram sem leiðandi afl.

Stundum hefur því verið haldið fram eða það látið í veðri vaka, m.a. af opinberum aðilum, að Þroskahjálp gæti ekki hagsmuna fatlaðra einstaklinga sem gjarnan vilja þiggja þjónustu af einhverri gerð eða með einhverjum hætti sem þeim stendur til boða en samtökin eru mótfallin og telja ekki vera ásættanlega.  Jafnvel er þá sagt að samtökin séu til trafala og langbest sé fyrir stjórnvöld að tala við fatlað fólk svo og forráðamenn þess t.d. þegar er verið að ákveða þjónustutilboð og fleira þess háttar.

Stundum er þetta sett fram með þeim formerkjum að þetta séu nútímaleg og lýðræðisleg viðhorf og stjórnsýsla.  Þegar grannt er skoðað er þó þegar svona er talað og látið oftastnær verið að reyna að spara peninga eða bregðast við einhverskonar vandræðum sem stjórnvöld hafa komist í með mál þar sem þau hafa ekki unnið þau nægilega vel eða dregið þau meira en eðlilegt getur talist.

Skoðum þetta nánar.  

Að sjálfsögðu á fatlað fólk eins og annað fólk að ákveða hvaða kost það velur af fleiri en einum kosti, enda séu kostirnir sem bjóðast því allir boðlegir. Ef hins vegar aðeins einn kostur býðst því og valið stendur um hann eða ekki neitt vandast málið.

Þá má einnig spyrja? Er um samskipti tveggja jafnstæðra aðila að ræða? Annars vegar er stjórnvald og hins vegar einstaklingar sem þurfa á aðstoð þessa stjórnvalds að halda og miklir hagsmunir eru í húfi fyrir einstaklingana. Fáum getur blandast hugur um að með þessum tveimur aðilum ríkir ekkert jafnræði.    

Ákvarðanir sem eru teknar í einstaklingsmálum hafa líka tilhneigingu til að verða viðmið þegar ákvarðanir eru teknar varðandi réttindi annarra einstaklinga og þá þjónustu sem stjórnvöld bjóða þeim.

Ákvarðanir stjórnvalda hafa fordæmisgildi. Stundum með réttu og stundum vegna misskilnings stjórnvalda eða illa ígrundaðra ákvarðana þeirra. Og dæmin sýna að mjög erfitt getur verið að fá stjórnvöld til að hætta að líta til fyrri ákvarðana sinna sem fordæma þó að þær hafi verið illa undirbúnar, rangar eða ósanngjarnar eða hafi ekkert fordæmisgildi í öðrum málum vegna þess að málavextir eða aðstæður þar eru alls ekki sambærilegar.

Því er það nauðsynlegt að hagsmunasamtök hafi skoðanir á málum og setji þær fram þó að þær skoðanir geti jafnvel í einhverjum tilvikum tafið ákvarðanatöku og framgang einstakra mála og séu ekki öllum þóknanlegar.

Það er engin tilviljun að eitt af því sem einkennir velferðasamfélög er sterk staða hagsmunasamtaka sem starfa í almannaþágu.  Þessum samtökum hefur tekist að innleiða viðmið sem viðurkennt er að eigi fullkomlega rétt á sér. Gott dæmi sem má nefna þar eru viðurkennd lágmarkslaun. Eflaust er það svo að einhverjir vildu gjarnan vinna fyrir lægri laun en heimilað er að greiða og geti fært fyrir því rök að bann við slíku geti orðið til þess að þeir hafi enga atvinnu. Samt er sátt um það í samfélaginu að leyfa ekki slík undirboð.

Stjórnvöld ættu að taka ábendingum sem fram eru settar  af hagsmunasamtökum af   opnum hug og af tilhlýðilegri virðingu  og foraðst að gera sendiboða þeirra tortryggilega

Hugsum um það.

Friðrik Sigurðsson