Til Umhugsunar - Af fjölmiðlum, fólki og fyrirfólki

Umfjöllun um málefni fatlaðs fólks sem sett er fram af undirrituðum og á hans ábyrgð. Í tilefni af 40 ára afmæli Landssamtakanna Þroskahjálpar var ákveðið að styrkja Átak, félag fólks með þroskahömlun, til að standa fyrir stoltgöngu fólks með þroskahömlun og annars fatlaðs fólks sem myndi tengjast Fundi fólksins við Norræna húsið 3. september sl.

Til Umhugsunar 

Af fjölmiðlum, fólki og fyrirfólki

Umfjöllun um málefni fatlaðs fólks sem sett er fram af undirrituðum og á hans ábyrgð.

Í tilefni af 40 ára afmæli Landssamtakanna Þroskahjálpar var ákveðið að styrkja Átak, félag fólks með þroskahömlun, til að standa fyrir stoltgöngu fólks með þroskahömlun og annars fatlaðs fólks sem myndi tengjast Fundi fólksins við Norræna húsið 3. september sl.

Styrkurinn var fólginn í því að Þroskahjálp myndi greiða kostnað við auglýsingar og fleira sem færi umfram það fjármagn sem Átak hafði sjálft aflað sér til að standa fyrir göngunni.  Kynning, skipulag og framkvæmd væri hins vegar  alfarið á ábyrgð Átaks.

Þetta er í fyrsta skipti sem efnt er til göngu af þessu tagi til að vekja athygli á fötluðu fólki og rétti þess til virkrar þátttöku í samfélaginu til jafns við aðra. Það er samdóma álit allra sem tóku þátt í stoltgöngunni eða fylgdust með henni að hún hafi heppnast mjög vel. Hún var fjölmenn og stemmningin þar var einstök. 

Þegar göngufólkið, alls um 1200 manns mætti á Fund fólksins  í Vatnsmýrinni mátti reikna með að stoltgangan og sú mikla þátttaka sem var í henni yrðu helstu tíðindi sem fjölmiðlar hefðu að segja af þeirri samkomu.  

Sú var alls ekki raunin.

Aðlafréttin í fjölmiðlum varðandi Fund fólksins var nokkurs konar „ekki frétt“. Uppljóstrun á skoðun fréttamanns á holdarfari forsætisráðherra sem vegna mistaka fór í loftið.

Fjölmiðlar á Íslandi er því markinu brenndir að kastljós þeirra er sjaldan á því hvað  venjuleg fólk er að aðhafast. Þó að þeir séu á Fundi fólksins eru fréttirnar ekki af fólkinu heldur af „fyrirfólkinu“. Þetta var því stórfrétt og til voru kallaðir alls konar álitsgjafar á þessum ummælum og hver væri sanngjörn meðferð á fréttamanninum í kjölfarið hvort nægjanlegt væri að tjarga hann og fiðra eða hvort grípa þyrfti til róttækari aðgerða. Allt voru þetta afar merkilegar umræður, svo ekki sé meira sagt. Það að fólk með þroskahömlun og aðstandendur þess marseraði hundruðum saman undir slagorðunum „Sterk, stolt og sýnileg“  hvarf alveg í skuggann af þessu stórtíðindum.

Af þessu tilefni kom upp í hugann sú stimplandi orðanotkun sem fólk með þroskahömlun hefur setið undir í gegnum tíðina.  Ef við höldum okkur bara við opinbera orðanotkun rekumst við á orð eins og fáviti, hálfviti, vangefin, óvinnufær og fleira í þeim dúr. Og stundum hefur útlitseinkennum  einstaklinga verið líkt við eitt og annað, s.s. asíska  kynstofna eins og orðið „mongólíti“ gerir svo eitthvað sé nefnt úr fjölbreyttri flóru þar.

Mér er minnistæður einn góður vinur minn sem hafði gengið með alla þessa titla í gegnum árin og fékk á fullorðinsárum sínum starf í stórmarkaði. Þegar hann hafði nýhafið störf þar  tilkynnti hann mér að nú væri hann verslunarmaður. Það var honum mikilvægt. Önnur minning kemur upp í hugann af alþjóðlegri ráðstefnu þar sem til umræðu var hvernig fólk með þroskahömlun vildi láta ávarpa sig. Þá rétti ungur maður upp höndina og sagði „Call me mister“. Flóknara var það nú ekki.

Stoltgangan 3. september var m.a. yfirlýsing að nú væri það að baki að fólk með þroskahömlun  og forráðmenn þess léti stimplun halda sér burtu frá  fullri samfélagsþátttöku. Fólk krefðist virðingar á eigin forsendum.  Í mínum huga eru það merkileg tíðindi  ekki bara fyrir fatlað fólk heldur fyrir samfélagið allt.

Og mér finnst að fjölmiðlar eigi að sýna því áhuga og virðingu.

Hugsum um það.       

Friðrik Sigurðsson

Höfundur hefur unnið að málefnum fólks með þroskahömlun í 43 ár.