Hvernig Covid hafði andleg áhrif á mig

Aðsend grein eftir Ólaf Snævar um áhrif COVID-19 faraldursins á líðan hans.

 

Góðan dag. Ólafur Snævar heiti ég. Mig langar að segja ykkur frá því hvernig Covid hafði áhrif á mína andlegu líðan. 

Ég hélt að fyrsta bylgja yrði fljót að ganga yfir

Ég man að mamma náði í mig í vinnunna daginn sem að fyrsta smitið greindist (28. febrúar 2020) og ég frétti það þá í gegnum hana að veiran væri komin til Íslands. Ég hefði átt að fara í tónskólann minn, en hann féll niður. Einnig vissi ég ekki meir um framhaldið. Maður gerði sér vonir um það að bölvuð veiran væri væntanleg til landsins, því maður var búinn að fylgjast með fréttum um að veiran væri farin að breiðast út um Evrópu. Viðbrögð mín yfir þessum válegu tíðindum voru einhverskonar blanda af óöryggi og óvissu. Ég hélt að veiran yrði hér á sveimi um tvo til þrjá mánuði sirka, en það virtist ekki vera raunin.

Vinnustaðnum mínum lokað um tíma

Í miðjum mars, á seinasta ári, minnir mig, var ákveðið að loka vinnustaðnum mínum um óákveðinn tíma. Svo í enda maí-byrjun júní var hann opnaður aftur. Lokunin hafði gríðarleg áhrif á okkur starfsfólkið og þjónustuþeganna okkar. Ég er að vinna sem frístundarleiðbeinandi með umsjón fyrir fólk með fötlun á aldrinum 16-20 ára.

Um mánuði seinna, eða í apríl var brugðið á það ráð að færa vinnuna yfir á netheima. Þá hittumst við starfsmennirnir og þjónustuþegarnir á messenger myndspjalli. Við plönuðum hvað við vildum gera sem var dálítið mál að finna út úr. En við vorum svo úrræðagóð og við gátum allt sem við ætluðum okkur, eins og að baka saman í gegnum myndspjallið sem var gaman.

Það var dálítið tómlegt þegar við starfsfólkið áttum að ná í páskaeggin okkar í vinnunna. Enginn var einhvern veiginn á sama tíma að ná í sitt egg og þetta var voða tómleg páskaeggjaafhending. Voða skrítin tilfinning þegar við máttum ekki mæta í vinnuna, nema bara til að ná í páskaeggin okkar.

Þrjú smit í vinnunni

Ég var í sumarfríi með fjölskyldunni í ágúst og ætlaði að koma aftur í vinnunna í september. Þegar líða tók á fríið þá heyrði ég að þrjú smit höfðu greinst í vinnunni. Foreldrar mínir ráðlögðu mér að taka frí í allan september og jafnvel allan október og sjá svo til í nóvember. Síðan voru fréttirnar í ástandinu svo slæmar að ég var frá vinnu í nóvember líka. En ég mætti í vinnunna í desember. Þá var ástandið sem betur fer orðið betra.

Skrýtnir tímar

Þegar ástandið var hvað verst í samfélaginu var ég mest heima hjá mömmu og pabba. En þegar allt var öruggt og ég treysti mér til fór ég heim til mín. Mér leið vel heima hjá mömmu og pabba. Kannski misvel. En sumar fréttir tengdar Covid drógu mig pínulítið niður andlega séð og það var ástæðan að mér hafi liðið misvel. Ég fór með mömmu og pabba í göngutúra og bíltúra sem gerði mér gott. Ég náði þá að dreifa huganum og hugsa ekki bara um Covid.

Ekki hægt að gera mikið

Ég er mikil félagsvera og virkur í mínum áhugamálum.

Ég þurfti að bakka frá öllu því sem ég var vanur að gera áður. Ég var hættur að mætta á listviðburði, kaffihús, bíó, og fleira. Ég fór í staðinn að horfa á eitthvað skemmtilegt í sjónvarpinu, hlustaði á tónlist og hlaðvörp og las. Ég vonaði svo heitt að þessi einangrun frá samfélaginu öllu myndi ekki vera í mjög langan tíma. En á sama tíma var dálítið notalegt að vera bara heima eða hjá mömmu og pabba, þótt að mér hafi liðið eins og að ég ætti að mæta í vinnunna.

Heimur tækninnar

Allar mínar tómstundir og vinnan voru í gegnum myndspjall á Facebook og á Zoom sem var algjör nýjung fyrir mér. Einnig komst ég í mína líkamsrækt sem var líka á Zoom. Ég hef verið að sækja danstíma (Jallabina og Zumba). Ég fór líka að skoða ýmis myndbönd á Youtube þar á meðal fann ég Zumbatíma sem ég hef nýtt mér.

Óþreyjufullur

Þegar líða tók á faraldurinn fann ég til óþreyju. Mig langaði svo innilega að fara í rútínuna mína aftur, hitta vini mína og lifa lífinu. Ég var óþreyjufullur og beið spenntur frá degi til dags hvað myndi gerast í samfélaginu. Ég var meira að segja að spyrja spurninga eins og hvenær ég færi í vinnunna og í líkamsræktina í World Class.

Tilfinningar fóru á flug

Eftir dágóðan tíma af Covid-rugli hef ég farið í ákveðinn tilfinningarússíbana. Tilfinningarnar fóru á flug. Mér leið á köflum eins og að ég væri að missa vitið. En ég hef alltaf verið þolinmóður en ástandið reyndi mikið á allt saman. Ég fann fyrir gremju, leiða, óöryggi, óvissu, kvíða, spennu, vonleysi, ógn, hræðslu, gleði og ég fór að vorkenna mér á þeim tímum sem reyndi mest á. En fjölskylda mín og aðrir vinir hafa hjálpað mér þegar ég átti erfitt. Það reyndi mikið á andlegu líðan mína þegar foreldrar mínir voru sendir í sóttkví og ég mátti ekki hitta þá í tvær vikur.

Ég átti á tíma erfitt með svefn og þá var ég að hugsa meðal annars um Covid og þá spilaði líðanin mín einhvern þátt.

Fannst eins og ég væri að búa eitthvað til

Lífið er stundum upp og niður eins og við vitum. Þótt ég hefði getað farið í vinnunna en treysti mér ekki vegna ástandsins þá leið mér eins og ég væri að búa eitthvað vesen til. Eins er með vinnunna, með að mæta ekki. Ég hef tileinkað mér þann hugsunarhátt að bíða spenntur þegar ég má gera allt sem ég vil.

Enn eitt samkomubannið

Páskarnir 2021 voru á næsta leyti og mikið í húfi. Flestir voru búnir að skipuleggja páskanna en þá kom eitt enn samkomubannið. En maður var svolítið búinn að læra að gera gott úr hlutunum. Í stað þess að hittast ekki öll fjölskyldan og borða saman um páskanna, þá var ég hjá mömmu og pabba engu að síður og borðaði með þeim páskamatinn og hafði það notalegt.

Lærdómur og lokaorð

Það sem ég hef lært af þessum heimsfaraldri er að horfa meira fram á við, vera víðsýnni og hugsa meira í lausnum. Andlega líðan mín hefur smá saman batnað en hún hefur verið ákveðinn rússíbani fram og til baka og er það enn jafnvel. Þó sé ég ljósið í enda ganganna, til dæmis í formi bólusetningar og ég er á leiðinni í fyrstu bólusetninguna á næstu dögum þegar þessi grein er skrifuð. Hvati minn fyrir að skrifa þessa grein varð til þess að kollegi minn hvatti mig eindregið til þess að tjá mig um þessi málefni með rituðum orðum.

Við erum vonandi að sjá í land með því að fylgja reglugerðunum sem að stjórnvöld hafa sett okkur. Munum bara, einn dag í einu. Við munum anda léttar! Takk fyrir mig