Skorað á Seltjarnarnesbæ að draga til baka hækkanir

Mynd: Ron Kroetz, 2015
Mynd: Ron Kroetz, 2015

Í dag flutti Kjarninn þær fréttir að Seltjarnarnesbær hafi samþykkt að hækka leigu í félagslegum íbúðum sínum um 45%. Þessar fréttir eru sláandi, einkum í ljósi þess að Seltjarnarnesbær nýtir ekki útsvarsstofn sinn að fullu og eru meðaltekjur íbúa sveitarfélagsins einna hæstar í landinu. Það er ólíðandi að hækka útgjöld þeirra sem minnst hafa á milli handanna áður en tekjustofnar sveitarfélaga eru fullnýttir og er sveitarfélagið með þessari ákvörðun að hlífa þeim sem efnameiri eru á kostnað fólks sem nýta þarf félagslegan stuðning. Vert er að taka fram að í Seltjarnarnesbæ eru aðeins 4 félagslegar íbúðir á hverja 1.000 íbúa, eða 17 alls, á meðan í nágrannasveitarfélaginu Reykjavík eru þær 20 á hverja 1.000 íbúa.

 

Landssamtökin Þroskahjálp skora á Seltjarnarnesbæ að draga til baka þessar óhóflegu hækkanir á leigu félagslegra íbúða og leita leiða til þess að mæta hallarekstri bæjarins án þess að það bitni á þeim sem höllum fæti standa.