Til umhugsunar, Með réttlætið að leiðarljósi

Nýlega sat ég fræðslufundi í ráðhúsi Reykjavíkur Fyrirlesar þar voru tveir Bandaríkjamenn sem vinna hvor með sínum hætti að búsetumálum fólks með þroskahömlun þar í landi. Þetta voru reyndir menn sem höfðu gengið í skóla Wolfensberger og tileinkað sér kenningar hans um miklivægi félagslegs gildisaukandi hlutverks fólks með þroskahömlun.

Til umhugsunar 

Umfjöllun um málefni fatlaðs fólks sem sett er fram af undirrituðum og á hans ábyrgð.

Með réttlætið að leiðarljósi  

Nýlega sat ég fræðslufundi í ráðhúsi Reykjavíkur  Fyrirlesar  þar voru tveir Bandaríkjamenn sem vinna hvor með sínum hætti að búsetumálum fólks með þroskahömlun þar í landi. Þetta voru reyndir menn sem höfðu gengið í skóla  Wolfensberger  og tileinkað sér kenningar hans um miklivægi félagslegs gildisaukandi hlutverks fólks með þroskahömlun.

Annar þessara fyrirlesara var  Christopher Liuzzo sem starfar í New York ríki  við að leysa úr búsetumálum fólks með þroskahömlun.  Hann lýsti því að þegar unnið væri að svo mikilvægum  málum, eins og  að finna  fólki heimili til framtíðar, þyrfti að nálgast öll mál með opnum huga, opnu hjarta og með opnar lausnir í farteskinu. Umfram allt þyrfti þó  að tryggja réttlæti í hverju máli.  Hann sagði síðan sögu um hugmynd foreldra tveggja fatlaðra ungra manna um að breyta eigin húsnæði þannig að synirnir gætu fengið þjónustu þangað og útlistaði kostina við slíkt úrræði fyrir alla aðila.  Þetta væri  sem sé ástundað í hans sveit og undu þar allir glaðir við sitt.

Í henni Reykjavík er nú eitthvað annað uppá teningnum. Þar er fólk  jafn meðvitað og góði dátinn Svejk að það verður að vera einhver agi í hernum. Þess vegna stendur Reykjavíkurborg nú í dómsmáli fyrir hæstarétti við  unga konu og foreldra hennar. Það sem þessi unga kona og foreldrar hennar óskuðu eftir, var að dóttirin fengi að búa í sinni eigin íbúð sem foreldrarnir höfðu útbúið í húsi sínu og fengi þangað þá aðstoð sem hún þyrfti. Það sama og Christopher hafði notað sem dæmi um vel heppnað úrræði.

Það verður að segja hvern hlut eins og hann er. Mál þessarar ungu konu er Reykjavíkurborg til skammar.  Henni hefur verið ætlað að eiga heimili á tveimur stöðum hálfan mánuð í skammtímavist og hálfan mánuð í eigin íbúð í húsnæði foreldra   þó að fyrir liggi að vegna fötlunar sinnar þolir hún slíkt rót afar illa. Í héraðsdómi var það staðfest að slíkt fyrirkomulag hefur m.a. áhrif á heilsfar hennar. Í máli hennar er ekki deilt um fjármagn því foreldar hennar hafa marg lýst því yfir að þau séu tilbúin að ganga til samninga við Reykjavíkurborg á grundvelli þess kostnaðar sem Reykjavíkurborg hefur nú þegar, annarsvegar með beingreiðslusamning við foreldra og hinsvegar kostnað af skammtímavistun viðkomandi.  Auk þess hafa foreldrar hennar ekki óskað eftir að neinum greiðslum vegna stofnkostnaðar sem segir sig sjálft að er umtalsverður sparnaður fyrir Reykajvíkurborg.

En hvert er þá ágreiningsefnið ?  Reykjavíkurborg hafnar því   að greiða alla upphæðina eftir beingreiðslusamningi  með þeim rökum  að slíkt  rúmist ekki innan þeirra reglna sem borgin hefur sett um hámarkstímafjölda  í beingreiðslusamningum. Þetta eru merkileg rök.   Fyrir það fyrsta þá hljóta  slíkar reglur  um lögbundna þjónust að byggjast á efnislegu mati á þörfum einstaklinga  en ekki fyrirfram gefnu hámarki. Um það er ekki deilt að þarfir viðkomandi eftir þjónustu eru meiri en hámarkstímafjöldi skv. reglum borgarinnar. Slíkar reglur eiga að sjálfsögðu að taka mið af fólki,  en ekki að fólk eigi að taka mið af reglunum. 

Séu reglurnar til trafala má benda á að þær eru hvorki höggnar í stein né gerðar af Móses, með fullri virðingu fyrir stjórnendum Reykjavíkurborgar.  Að vísu hafa borgaryfirvöld sett ákvæði inní reglurnar að þeim sé ekki heimilt að breyta tímamagni við gerð samninga sem hlýtur að flokkast undir strangan aga og mikið meinlæti. Reglurnar hafa sem sé verið læstar inni og lyklinum hent í Tjörnina. Þeim er ekki hægt að hnika þó að það kunni að vera bæði  skynsamlegt og hagkvæmt.

Hér með er skorað á Reykjavíkurborg að tileinka sé þá fræðslu sem boðið var uppá í þeirra eigin musteri og klára þetta mál með lágmarks sæmd. Til þess þarf bara opinn hug, opið hjarta og opnar lausnir með þeim hætti einum sigrar réttlætið í þessu máli.

Hugsum um það.

Friðrik Sigurðsson