Yfirlýsing Þroskahjálpar vegna fregna af niðurskurði hjá réttindagæslu fatlaðs fólks

Við hjá Þroskahjálp höfum fengið fregnir af því að til standi að skera verulega niður hjá réttindagæslu fatlaðs fólks, en réttindagæslan heyrir nú undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.

Halldór Gunnarsson, fyrrum yfirmaður réttindagæslu fatlaðs fólks, hefur tjáð sig um málið og bendir réttilega á að nú þegar eigi réttindagæslan í erfiðleikum með að sinna öllum þeim málum sem til hennar rata vegna vanfjármögnunar.

Það er alveg ljóst að réttindagæsla fyrir fatlað fólk er, eins og reynslan hefur sýnt og mörg dæmi sanna, gríðarlega mikilvæg til að þessi berskjaldaði hópur fólks fái notið réttinda og tækifæra sem hann á rétt á samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og fái til þess nauðsynlegan og viðeigandi stuðning.

Fatlað fólk, sér í lagi fólk með þroskahömlun og skyldar raskanir, þarf að hafa öfluga málsvara innan réttindagæslunnar. Málin sem þangað rata eru oft flókin og því mikilvægt að réttindagæslan hafi burði til að sinna þeim, enda eru þau bráðnauðsynleg m.t.t. verndar og framfylgdar mannréttinda fatlaðs fólks.

Við hjá Þroskahjálp lýsum yfir þungum áhyggjum af þessari stöðu og höfum nú þegar óskað eftir fundi með félags- og vinnumarkaðsráðherra, ásamt Öryrkjabandalagi Íslands.

Við munum fylgja þessu fast eftir og krefjast ekki aðeins svara heldur úrlausna, enda er hér um gífurlega mikilvægt mannréttindamál að ræða!