Yfirlýsing vegna deilu sjúkraþjálfara og SÍ

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem komin er upp milli sjúkraþjálfara og Sjúkratrygginga Íslands.

Ljóst er að þeir sem verst finna fyrir afleiðingum deilunnar eru fatlað fólk og börn. Fatlað fólk og fjölskyldur þess hefur oft ekki mikið á milli handanna og á þar að auki oft mjög erfitt með að leggja út háar fjárhæðir. Óljóst virðist vera hvernig endurgreiðslum er og verður háttað hjá Sjúkratryggingum Íslands og frásagnir eru um að fólki hafi verið synjað um endurgreiðslu. Þá hafa borist fregnir af því að sjúkraþjálfarar hafi fellt niður tíma vegna þess að þeir segjast ekki treysta því að skjólstæðingar sínir fái endurgreitt.

Margir einstaklingar þurfa á mikilli og stöðugri þjálfun að halda og þurfa að sækja sína þjónustu til einkarekinna stofa, sér í lagi úti á landi. Það er fullkomlega óásættanlegt að fatlað fólk klemmist sífellt á milli í deilum sem það á ekki aðild að.

Landssamtökin Þroskahjálp skora því hér með á deiluaðila að koma sér án tafar saman um það sem gera þarf til að tryggt verði að fatlað fólk og fötluð börn geti fengið þá sjúkraþjálfun sem þau eiga rétt á og þurfa nauðsynlega á að halda án þess að þurfa að óttast að fjárhagur þeirra eða aðstandenda fari á hliðina.