Yfirlýsing frá Þroskahjálp vegna máls Hussein Hussein

Landssamtökin Þroskahjálp hafa sent erindi til forsætisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og dómsmálaráðherra vegna máls Hussein Hussein, fatlaðs umsækjenda um alþjóðlega vernd sem synjað hefur verið um efnismeðferð Íslandi í tvígang.

Fyrir ári síðan sætti Hussein vanvirðandi meðferð við nauðungarflutning til Grikklands, þar sem hann hefur hvorki húsnæði, framfærslu né þjónustu. Nú á enn og aftur að senda hann út í sömu óvissuna. Telja samtökin svo mikla vankanta á málsmeðferðinni að augljóst sé að niðurstaða í málinu byggist ekki á fullnægjandi forsendum.

Eftir vanvirðandi meðferð við brottflutning Hussein fyrir ári síðan, sem umboðsmaður Alþingis taldi ástæðu til að gera alvarlegar athugasemdir við, funduðu samtökin með þeim ráðherrum sem áður eru nefndir og í kjölfarið höfðu forsætisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra milligöngu um samráð hagsmunasamtaka fatlaðs fólks við útlendingayfirvöld, með þátttöku félags- og vinnumarkaðsráðuneytis. Niðurstaðan þess samráðs varð sú að útlendingayfirvöld skyldu kalla til réttindagæslumenn fyrir fatlað fólk, til viðbótar við löglærða talsmenn, til að gæta hagsmuna og réttinda fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samráðið stóð yfir í marga mánuði og það veldur Þroskahjálp óneitanlega gríðarlegum vonbrigðum að miðað við úrskurði í málum fatlaðs fólks sem við höfum haft til skoðunar undanfarnar vikur, þar á meðal úrskurð í máli Husseins, er augljóst, að mati samtakanna, að umrætt verklag hefur alls ekki verið notað.

Meðal annars voru eftirfarandi gallar á málsmeðferðinni:

  • Ekki var gert mat á fötlun eða stuðningsþörf hans, þrátt fyrir ábendingar þar um, frá bæði réttindagæslumanni fyrir fatlað fólk og Þroskahjálp. Slíkt mat hlýtur að vera forsenda þess að hægt sé að taka réttra ákvörðun í málinu.
  • Þess var ekki gætt að Hussein nyti viðeigandi aðlögunar í málsmeðferðinni, svo sem skylt er að gera samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
  • Verklag sem samkomulag náðist um í samráði hagsmunasamtaka fatlaðs fólks, útlendingayfirvalda og félags- og vinnumarkaðsráðuneytis var ekki notað í máli Hussein.

Þessi gagnrýni Þroskahjálpar snýst ekki um niðurstöðu málsins, sem samtökin telja þó vera ranga og ómannúðlega, heldur um málsmeðferð og því að ófullnægandi upplýsingar lágu úrskurðinum til grundvallar.

Það er brot gegn rannsóknarreglunni sem er algjör grundvallarregla í öllum réttarríkjum.

Landssamtökin Þroskahjálp skora á forsætisráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og dómsmálaráðherra að beita sér fyrir því að endanleg niðurstaðan í máli Husseins og öllum sambærilegum málum samræmist þeim mannúðarsjónarmiðum sem eiga að ráða afgreiðslu mála fólks sem tilheyrir berskjölduðustu og jaðarsettustu hópum, sem hægt er að hugsa sér.

Við hjá Þroskahjálp höldum enn í vonina um að að það verði gert.


Viðtal við Árna Múla Jónasson, framkvæmdastjóra Þroskahjálpar, um þetta mál, var flutt í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag.

Frétt um málið á RÚV.is