„Þau fluttu inn vinnuafl en fengu fólk“ — um Vorráðstefnu Ráðgjafar- og greiningarstöðvar og Þroskahjálpar
13.05.2025
Það var þétt setinn bekkurinn á Vorráðstefnunni 2025.
„Þau fluttu inn vinnuafl en fengu fólk“ er setning sem kom upp í hugann á Vorráðstefnu 2025 sem Ráðgjafar- og greiningarstöð og Þroskahjálp stóðu fyrir. Þessi setning á rætur að rekja til þýska félagsfræðingsins Ralf Dahrendorf sem var þá að fjalla um samfélagsbreytingar í sínu heimalandi.
Vorráðstefnan var haldinn í fertugasta sinn þann 8.-9. maí og var yfirskrift hennar Fötluð börn og fjölbreyttur menningar- og tungumálabakgrunnur. Þetta er stærsta ráðstefnan hingað til en þáttakendur voru í kringum 540 manns.
Við skulum stikla á stóru yfir dagskrána fyrri daginn.
Soffía Lárusdóttir forstjóri RGS flutti ávarp og Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra setti síðan ráðstefnuna.
Í ávarpi sínu sagði hann m.a. að það væri einbeittur vilji hans að efla Ráðgjafar- og greiningarstöð „og að hluti af þeirri framtíðarsýn er að koma henni fyrir í nýbyggingu sem væri sérhönnuð fyrir starfsemi hennar.“
Renata Emilsson Peskova, lektor tók síðan við sem fundarstjóri og bauð Katarzynu Kubiś, verkefnastjóra hjá Þroskahjálp á svið.
Erindi hennar bar yfirskriftina Tvöföld jaðarsetning — Að styðja fjölskyldur fatlaðra barna af erlendum uppruna.
Katarzyna Kubiś verkefnastjóri hjá Þroskahjálp.
Kasia, eins og hún er kölluð er þroskaþjálfi og móðir fatlaðs barns. Hún lýsti sinni reynslu af að standa hálf ráðþrota í nýju landi með fatlað barn og kunna hvorki málið né á kerfið.
„Þú skilur ekki orð af því sem sérfræðingar segja við þig.“ Hún beindi sjónum að því að þegar fötluð manneskja er líka innflytjandi en kerfið veitir bara þjónustu fyrir annað hvort. „Það er líkt og kerfið geti ekki unnið með báðar þessar breytur á sama tíma“.
Hún nefndi alls kyns áskoranir sem blasa við fjölskyldum fatlaðra barna af erlendum uppruna. Ekki bara tungumálið og hvað upplýsingar verða þá óaðgengilegar, heldur veikt bakland og menningarlegt viðhorf gagnvart fötlun. í sumum menningarheimum er fötlun álitin skömm eða feimnismál. Útlendingar búa oft við óöryggi i atvinnumálum. Leigumarkaðurinn er ekki bara dýr heldur óstöðugur og fjárhagsáhyggjur því algengar. Litið er á útlendinga sem vinnuafl. „Þú átt að vinna mikið og þú átt að vinna ódýrt,“ bætti Kasia við.
Hún hvatti fólk sem er í samskiptum við erlenda foreldra að senda skýr skilaboð á einföldu máli. Ekki flækja málið að óþörfu eða senda langar ritgerðir.
Kasia hefur unnið að umfangsmiklu verkefni undanfarin misseri sem fól í sér að safna upplýsingum um þjónustu við fötluð börn saman á einum stað. Þessi þjónusta er núna aðgengileg á Island.is á íslensku og ensku.
Það var reyndar átakanlegt að heyra nokkra fyrirlesara tala um hvað það væri erfiðara fyrir erlenda foreldra að fá frí úr vinnu til að fylgja fötluðu barni í hvers kyns þjónustu. Erlendir foreldrar, öfugt við íslenska þurfi oftar en ekki að skila vottorði frá lækni eða taka myndir sem staðfesta að þau hafi í raun og veru verið með barnið sitt í sjúkraþjálfun eða viðtali.
Emilía Guðmundsdóttir í pontu.
Emilía Guðmundsdóttir sálfræðingur og verkefnastjóri rannsókna á RGR sagði frá rannsókn sem hún og Helen Frigg gerðu um fjölgun tilvísana barna með erlendan bakgrunn. Rannsóknin virðist benda til þess að kerfið standi sig í að finna börn með erlendan bakgrunn sem þurfa aðstoð og koma þeim í greiningarferli. En hún velti jafnframt fyrir sér sanngirni samanburðar við eintyngd íslensk börn þegar verið er að meta þroska barna.
Donata H Bukowska (t.v.) ogRenata Emilsson Peskova fundarstjóri.
Donata H Bukowska, sérfræðingur í mennta- og barnamálaráðuneytinu kynnti MEMM verkefnið (Menntun, móttaka og menning). Hún benti á að í dag sé nær þriðjungur grunnskólabarna með erlendan bakgrunn.
„Það eitt og sér sýnir okkur að fjölmenning er ekki framtíðin heldur er hún nútíminn.“ Hún sagði frá nýlegri skýrslu OECD um innflytjendur og börn þeirra á Íslandi. Þar séu yfirvöld gagnrýnd fyrir skort á nauðsynlegri gagnaöflun. Í samanburði við önnur lönd séu grunnupplýsingar ekki tiltækar hér.
Því næst tóku þær Vilborg Pétursdóttir og Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir við með fyrirlestur sem þær kölluðu Reykjanesbær í krafti fjölbreytileikans: Reynsla velferðarsviðs af þjónustu við fjölskyldur af erlendum uppruna.
Það er mikið talað um flóttafólk í samhengi við Reykjanesbæ en þeim fannst mikilvægt að gera grein fyrir því að það sé aðeins lítill hluti af því erlenda fólki sem búi í Reykjanesbæ. Alls séu 8.374 íbúar með erlent ríkisfang í Reykjanesbæ og í íslensku samhengi sé það á pari við nokkuð stórt bæjarfélag. Það komi því öllum stofnunum samfélagsins við.
„Við verðum að gera þjónustuna og upplýsingarnar sem við erum að veita inngildandi og horfa á fjölbreyttar áskoranir sem fólk býr við. Leggja okkur enn frekar fram um að taka tillit til þess sem er í bakpoka samferðarfólks okkar og þeirra sem við erum að þjónusta,“ sagði Hilma Hólmfríður.
Ráðstefnugestir
Dr. Guðbjörg Ottósdóttir, dósent við félagsráðgjafadeild HÍ, sagði frá rannsókn á aðstæðum innflytjendafjölskyldna með fötluð börn. Langflestar fjölskyldur eru ánægðar með þjónustuna en margir nefna hvað upplýsingar eru óaðgengilegar og óljóst hvaða úrræði séu í boði.
Að foreldrum þætti oft skortur á frumkvæði innan þjónustukerfisins og lítil sem engin sérhæfing í málefnum fólks af erlendum uppruna.
Misjöfn gæði á túlkaþjónustu var nefnd sem þá orsakaði skort á dýpt í samtali við þjónustuaðila. Eins og fleiri fyrirlesarar nefndi Guðbjörg þessa félagslegu þætti, hvað aðstæður fjölskyldna gátu verið flóknar, þ.m.t. lágar tekjur og langir vinnudagar.
Salah Karim Mahmood (t.v.) og Ali Thaseen.
Eftir hádegishlé stigu þeir Ali Thaseen og Salah Karim Mahmood á svið. Þeir starfa báðir sem brúarsmiðir og hafa það að starfi að byggja brýr milli skólakerfisins og fjölskyldna barna með fjölbreyttan tungumála- og menningar bakgrunn.
Ali ítrekaði að þeir séu ekki túlkar heldur sérfræðingar í menningarmun og að miðla upplýsingum svo tryggja megi góð samskipti.
Það sé oft erfitt að finna túlk sem miðli bara því sem verið er að segja án þess að breyta merkingu. Það sé svo mikilvægt að túlkurinn skilji mállýsku fjölskyldunnar þegar um arabísku sé að ræða. Það séu þrjátíu mállýskur í Mið-Austurlöndum og mjög líklegt að það komi upp misskilningur þekki túlkurinn ekki mállýskuna. Þeir hvöttu því þá sem panta túlkaþjónustu til að tilgreina hvaðan fólkið komi sem túlka á fyrir.
Salah greindi frá því hvernig þeir hjálpa við að útskýra ólíkar hugmyndir um menntun og heimanám. Hvernig brúarsmiðir fræða foreldrana um íslenska menningu og samfélag, en kennara og starfsmenn skóla um menningu foreldrana. Allt kapp sé lagt á að einfalda samskipti þeirra á milli.
Næst var sýnt myndbandsviðtal við þau Oksönu og Max frá Úkraínu en þau eiga sex ára fatlaða dóttur sem fékk greiningu eftir flutningin hingað. Tilviljun réði því að mestu að þau lentu á Íslandi.
„Þegar stríðið skall á var maður ekkert að hugsa eitthvað mikið,“ segir Oksana.
Þau óska þess helst að dóttir þeirra komist að hjá úkraínskumælandi talmeinafræðingi og sálfræðingi.
Þeim finnst erfitt að bera saman þá aðstoð sem fötluð börn fá á Íslandi og í Úkraínu því greiningin hafi ekki verið til staðar þar. Oksana bendir samt á að það séu nokkrar stórar miðstöðvar í Úkraínu þar sem þjónustan sé mun víðtækari og aðgengilegri en hér. Þau eru engu að síður mjög þakklát fyrir þá aðstoð sem þau fá hér og nefndu sérstaklega akstursþjónustuna, sem auðveldar þeim mjög lífið.
Birna Imsland í pontu.
Birna Imsland kennari í samfélagstúlkun flutti erindi um túlkun í þjónustu við fötluð börn. Í kynningu nefndi fundarstjóri að Birna tali íslensku, dönsku, ensku, þýsku, rússnesku, kínversku, esperanto, íslenskt táknmál og sé að læra spænsku á Dualingo.
„Túlkur hefur alltaf það grunnhlutverk að skapa skilning,“ sagði Birna og bætti við að túlkur þjóni samtalinu í heild en ekki bara öðrum aðilanum.
Túlkurinn þurfi ekki bara að miðla texta heldur öllu því sem gefið er í skyn og ekki sagt. Það sé mjög mikilvægt að undirbúa túlka eins vel og hægt er fyrir fundi. Þeir séu hluti af þjónustuteymi og þegar samtal á sér milli fagaðila, t.a.m lækna og aðstandenda skipti vitaskuld öllu að túlkunin sé jafn fagmannleg.
Hún varpaði fram spurningunni: „Hvers vegna er bara ætlast til þess að þjónustuveitendur séu menntaðir en ekki túlkarnir þeirra?“
Guðrún (t.v.) og Sandra Björg á sviðinu á Hilton.
Þjónusta, áskoranir og tækifæri var yfirskrift erindis Guðrúnar Þorsteinsdóttur sviðstjóra og Söndru Bjargar Sigurjónsdóttur sálfræðings hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð.
Guðrún rýndi í tölfræði um fjölgun barna af erlendum uppruna í tilvísunum til stofnunarinnar. Hlutfallið var 28% árið 2020 en var orðið 40% árið 2024.
Sandra fór yfir greiningarferlið og áskoranirnar sem felast í þvi að meta börn með prófum sem séu stöðluð fyrir eintyngd íslensk börn. Matið feli alltaf í sér samanburð við jafnaldra og sá samanburður sé ekki alltaf sanngjarn þegar borin eru saman börn íslenskra foreldra og svo börn með fjölbreyttan tungumála- og menningar bakgrunn.
„Einfaldir hlutir, eins og að spyrja hvort barnið hafi náð tökum á hnífapörum er kannski ekki svo einfalt þegar það er ekki hluti af menningu heimilisins,“ bætti Sandra við. Menningarmunurinn skiptir miklu máli. Oftar en ekki hafi þær staðið frammi fyrir sjónarmiði á borði við „það er ekki til einhverfa eða þroskahömlun í mínu heimalandi, hvað eru þið að finna upp á þessu hér?“
Það geti fylgt því hræðsla að fara með barnið í greiningu í ríkisstofnun og nefndi Sandra konu sem óttaðist það að barnið yrði kannski tekið af henni. Það skipti miklu máli að gera fjölskyldum grein fyrir að greiningin verði barninu til gagns.
Eva Dögg Gylfadóttir (t.v.) sem var fundarstjóri eftir hádegi og Erla Guðrún.
Erla Guðrún Gísladóttir, kennari fjallaði um íslenskukennslu sem annað tungumál.
Hún lýsti því einnig hvernig kennarar koma að móttöku erlendra barna og fjölskyldna þeirra. Nálægðin við fjölskyldurnar geri það að verkum að skólarnir sinni alls konar annarri aðstoð. Það sé verið að bóka tannlækna og jafnvel finna leiguhúsnæði.
Hún ítrekaði það sem áður hefur komið fram um að mæta fólki af virðingu, sérstaklega þegar spurningin komi upp, hvort barn þurfi séraðstoð eða greiningu.
Hún kallaði líka eftir betri túlkaþjónustu. Það komi æ oftar fyrir að enda þurfi viðtöl því túlkar ráði ekki við verkefnið.
Hún sagði kennara oft óörugga. Þeir viti ekki hvort eða hvernig eigi að beita sér gagnvart nemendum sem þurfi frekari stuðning. Er um að ræða þroskafrávik eða áfallastreituröskun? Varð rof í skólagöngu eða glímir barnið við almenna námserfiðleika? Oft komi börn til landsins sem hafi þá verið aðskilin frá foreldrum árum saman. Börn sem hafi þá verið í vist hjá ömmu og afa eða ættingjum. Aðstæðurnar séu svo margbreytilegar og oft snúið að leggja mat á þær.
Erla kallaði eftir skýrari verkferlum inn í skólunum þegar það kviknar grunur um þroskafrávik. „Við þurfum að þekkja leiðina miklu betur frá móttöku barnanna til sjálfstæðrar þáttöku í skólastarfi,“ sagði Erla og kallaði að lokum eftir samfélagsátaki um að við séum öll duglegri að tala íslensku við fólk sem hingað flytur.
Kolbrún Kristínardóttir uppi á tjaldi í myndbandi frá Æfingastöðinni.
„Hjá okkur lítum við á barnið og fjölskylduna sem órjúfanlega heild,“ sagði Kolbrún Kristínardóttir iðjuþjálfi í myndbandi frá Æfingastöðinni. Gunnhildur Jakobsdóttir iðjuþjálfi sagði áskoranirnar helst tengjast kerfinu sem þær starfi í. Sjúkratryggingar Íslands greiði fyrir sjúkra- og iðjuþjálfun barna yngri en 18 ára, séu þau með íslenska kennitölu og segir hún greiðslurnar háðar ýmsum skilyrðum sem setji þeim oft skorður.
Það sé gert ráð fyrir að þjónustan beinist meira að læknisfræðilegum þörfum og það fari ekki alltaf saman við þá fjölskyldumiðuðu nálgun sem Æfingastöðin vilji vinna eftir. Þetta sé alltaf áskorun en sérstaklega í þjónustu við erlendar fjölskyldur.
Í tilfellum hælisleitenda sé þetta enn snúnara því Vinnumálastofnun veiti einungis leyfi fyrir þremur skiptum i í einu og þurfi þá að sækja um aftur og aftur.
Það fari mikil vinna í þetta utanumhald og þær lendi óhjákvæmilega of oft í hlutverki tengiliðs, því foreldrar leiti eftir aðstoð hjá því fólki sem það er í mestum samskiptum við. Kolbrún bætti við að fjölskyldurnar og starfsfólkið geri sitt besta til að vera sveiganleg inn í frekar kassalega kerfi.
Undantekningalaust mæta foreldrar skilningi vinnuveitenda sagði Gunnhildur en bætti við að „við þurfum aldrei að skrifa staðfestingu um að barnið hafi mætt í tíma til okkar nema fyrir foreldra af erlendum uppruna. Það er eins og þau mæti minni skilningi hjá vinnuveitenda en aðrir.“
Nice Guys á sviðinu á Hilton.
Eftir að Nice Guys trylltu lýðinn með dans- og tónlistaratriði var komið að síðasta erindi dagsins.
Atli F Magnússon á sviðinu á Hilton.
Atli F. Magnússon, klínískur atferlisfræðingur og stofnandi Arnarskóla, fjallaði um áfallamiðaða nálgun og hvað þurfi að hafa í huga í vinnu með börnum með hegðunarvanda.
„Í langflestum tilfellum eru þetta börn sem ekki ráða við aðstæður,“ sagði Atli um þau tilvik þegar átök verða milli nemenda og kennara.
Það séu engar rannsóknir sem benda til þess að ofbeldi hafi aukist í skólum. Umræður um að starfsfólk skóla sé fórnarlömb ofbeldis eru ekki á rökum reistar, bætti hann við.
„Ég hef litið á það sem forréttindastöðu að fá að vinna með börnum sem eiga í vanda,“ sagði Atli.
Arnarskóli hefur síðasliðin fjögur ár innleitt áfallamiðaða nálgun. Hann segir þetta krefjandi breytingu sem stangist töluvert á við hefðbundnar uppeldisaðferðir. Hvaða áföllum hafa börnin lent í og hvaða áhrif hafa þau á hegðun?
Hann lýsti því hvernig fréttir af ástvinamissi kalli t.a.m fram tilfinningaleg viðbrögð. Það þyki öllum eðlilegt að gráta við slíkar aðstæður. Það að gráta, bíta, slá og sparka sé tilfinningahegðun sem minnkar ekki með strangari reglum. Í sumum tilfellum geti slíkt frekar aukið tilfinningahegðun.
Það skipti máli að skapa barninu umhverfi þar sem það sé glatt og rólegt og forðast líkamleg inngrip í lengstu lög. Nemandi „kemst upp með“ ýmislegt í Arnarskóla. Líkamleg inngrip séu áföll fyrir barnið.
Starfsfólkið á ekki að standa saman gegn nemendum. Það sé sérstaklega mikilvægt fyrir börn sem hafa lent í áföllum að þau fái val. Sumir dagar geti reynst þeim börnum mjög erfiðir og Í Arnarskóla hafi börn alltaf val um að taka þátt eða ekki.
Það er mikilvægt að hafa í huga, sagði Atli að hegðun breytist ekki eftir einni línu. „Hegðun breytist eins og veðrið á vorin. Það kemur snjókoma einhvers staðar á Íslandi í maí en veðrið verður betra í júlí en það var í janúar. Það verða fleiri sólarstundir,“ þrátt fyrir alls kyns uppákomur í veðrinu á tímabilinu.
Við eigum eftir að fjalla meira um Vorráðstefnu 2025.