Viðbótar-umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um barnavernd
9. janúar 2026
Landssamtökin Þroskahjálp eru heildarsamtök fatlaðs fólks sem vinna sérstaklega að réttinda- og hagsmunamálum allra fatlaðra barna og aðstandenda þeirra og fólks með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Landssamtökin Þroskahjálp vísa til fyrri umsagnar sinnar í samráðsgátt um frumvarpsdrögin, dags. 26. nóvember sl. og árétta það álit sitt að samráð mennta- og barnamálaráðuneytisins við undirbúning og gerð frumvarpsdraganna hafi ekki verið í samræmi við þær samráðsskyldur, sem á ráðuneytinu hvíla, í ljósi þess hversu mörg og mikilsverð réttindi og veigamikla hagsmuni fatlaðra barna og aðstandenda þeirra um er fjallað í frumvarpsdrögunum. Í því sambandi vísa samtökin sérstaklega til ákvæða samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og tekinn var í íslensk lög í nóvember sl., sbr. lög nr. 80/2025.
Í samningum eru samráðsskyldur stjórnvalda sérstaklega áréttaðar í 3. mgr. 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir m.a.:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Í 3. mgr. 33. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Framkvæmd og eftirlit innanlands er einnig lögð mikil áhersla á samráðskyldur stjórnvalda. Þar segir:
Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem koma fram fyrir þess hönd, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.
Í sjöundu almennu athugasemdunum (e. General Comment), sem nefnd samkvæmt samningnum sendi frá sér í september 2018 fjallar hún um samráðsákvæði samningsins (sjá hlekk að neðan).
https://docs.un.org/en/CRPD/C/GC/7
Með vísan til framangreinds áskilja Landssamtökin Þroskahjálp sér rétt til að koma frekari athugsemdum, ábendingum og tillögum varðandi frumvarpið á framfæri við ráðuneytið á síðari stigum sem og við þingnefnd og Alþingi.
Samtökin hvetja mennta- og barnamálaráðuneytið eindregið til að fara gaumgæfilega yfir þær málefnalegu athugsemdir, ábendingar og tillögur, sem fram koma í umsögnum Landsamtakanna Geðhjálpar, ÖBÍ réttindasamtaka, Umhyggju – félags langveikra barna og Barnaheilla – Save the Children um frumvarpsdrögin í samráðsgátt.
Virðingarfyllst.
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Guðmundur Ármann Pétursson, formaður Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.