Vegna umræðu um ableisma á sviði Þjóðleikhússins

Skjáskot af vef RÚV
Skjáskot af vef RÚV

Í gær birtist gagnrýni Nínu Hjálmarsdóttur í Víðsjá um sýninguna „Sem á himni“, sem frumsýnd var Þjóðleikhúsinu um síðustu helgi.

Þar fjallar Nína m.a. um hvernig fatlaður karakter, Doddi, birtist í sýningunni með niðurlægjandi hætti, að hennar mati og er leikinn af ófötluðum leikara, Almari Blæ Sigurjónssyni.

Nína segir: „Þrátt fyrir það tala hinar persónurnar við hann eins og hann sé barn. Hápunktur niðurlægingar Dodda er þegar hann pissar á sig fremst á sviðinu og Lena þarf að hjálpa honum að skipta um föt, atriði sem gerir ekkert fyrir framgang sögunnar og hefði verið auðvelt að sleppa. Auk þess er augljóst að hann er ástfanginn af Lenu en sú ást fær ekkert vægi í verkinu heldur er gert lítið úr henni eins og hann sé ekki fullorðinn maður sem sé fær um að hafa tilfinningar. Tilgangur hans í verkinu virðist annars vegar vera sá að veita svokallaðan gamanlétti eða comic relief, og hins vegar láta áhorfandanum þykja vænt um Lenu með því að sýna honum hversu góð hún er við Dodda [...]“

Þá fjallar Nína um það sem kallast á ensku „cripface“ sem er hugtak yfir það þegar ófatlaðir leikarar eru settir í hlutverk þar sem þeir leika fatlað fólk. Þessi umræða hefur verið mjög hávær erlendis, enda eru tækifæri fatlaðs fólks til þess að sækja sér menntun á sviði leiklistar nánast ekki til staðar og þar af leiðandi eru tækifæri fatlaðs fólks til að taka þátt í atvinnuleikhúsi ekki heldur. Listsköpun og listhæfileikar fatlaðs fólks eru stimpluð sem áhugamál og dægradvöl, en ekki talið að fatlaðir leikarar geti verið jafn góðir eða betri en ófatlaðir leikarar.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að þessi umræða sé farin af stað á Íslandi og þakka Nínu Hjálmarsdóttur fyrir að taka málið upp í gagnrýni sinni.

Íslensk stjórnvöld og samfélagið allt hefur miklar skyldur, samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, til þess að vinna gegn staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, þar á meðal þeim sem tengjast kyni og aldri, á öllum sviðum lífsins. Þá segir í samningnum að aðildarríki skuldbindi sig til að viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og fái tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna og vitsmunalega getu, ekki einvörðungu í eigin þágu, heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið.

Stjórnvöld hafa algjörlega sofið á verðinum hvað þetta varðar.