Uppfærsla - betri þjónustu fyrir fatlað fólk (hluti 1 af 2)
21.10.2025
„Þetta byrjar vel!“ sagði Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, sem gladdist yfir töfunum á að málþingið Uppfærsla — betri þjónustu fyrir fatlað fólk, gæti hafist því tafirnar komu til af því gestirnir voru mun fleiri en búist var við.
Það var húsfyllir á Hótel Grand Reykjavík.
Anna Lára vék máli sínu að mannréttindum:
Að þjónusta við fatlað fólk sé fyrst og fremst mannréttindamál en ekki velferðarþjónusta.
„Mannréttindi eru algild og eiga við um alla, óháð öðru en því að vera manneskja,“ sagði Anna Lára og benti á að Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk skilgreini hugtakið fötlun þannig að hún verði til í samspili skerðinga og hindrana í umhverfi sem geri ekki ráð fyrir fjölbreyttum þörfum.
„Það eru manngerðar hindranir í samfélagi, sem hefur aldrei gert ráð fyrir fjölbreyttum þörfum, sem koma í veg fyrir að fatlað fólk njóti sömu réttinda og aðrir án nauðsynlegs stuðnings.“
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar, í pontu.
Hún árétti að undanfarin misseri hafi orðið alvarlegt bakslag bakslag í mannréttindamálum hvað varðaði réttindi fatlaðs fólks og annara jaðarsettra hópa. Krafa Þroskahjálpar sé hins vegar alveg skýr, mannréttindi eru ekki valfrjáls.
„Baráttan fyrir mannréttindum fatlaðs fólks er um leið baráttan fyrir mannréttindum okkar allra.“
Anna Lára vonaðist til að þetta málþing yrði upphafið af lengra samtali sem myndi leiða til raunverulegra breytinga, því þegar þjónustan verður betri fyrir fatlað fólk verður samfélagið betra fyrir okkur öll.
Fundarstjórarnir Ævar Þór Benediktsson og Fabiana Morais.
Ævar Þór Benediktsson og Fabiana Morais tóku við fundarstjórninni og buðu Herdísi Gunnarsdóttur, forstjóra Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála (GEV), velkomna í pontu.
Herdís Gunnarsdóttir, forstjóri Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála, flytur sitt erindi.
Herdís kynnti stofnunina sem sinnir fjölþættum verkefnum, m.a. að standa vörð um réttindi og þarfir fatlaðs fólks. Stærsta verkefnið er að hafa eftirlit með gæðum þjónustu á grundvelli þeirra laga sem eiga við í hverju tilfelli.
Tilgangur allra verkefna er að hámarka virði þjónustunnar og efla gæðin. Að ábatinn skili sér bæði til stjórnvalda og samfélagsins, en síðast en ekki síst til þeirra sem þiggja þjónustu.
Í upphafi setti GEV sér markmið að þó þau væru eftirlitsstofnun væru þarfir og öryggi þjónustuþega velferðarþjónustu ávallt í brennidepli. „Auðvitað fylgjum við lögum, sáttmálum og samningum en þetta er hjartað og það fyrsta sem við hugsum alltaf um“ sagði Herdís.
Stafrænar lausnir eru farnar að skipta mjög miklu máli og tekur stofnunin við m.a. ábendingum og kvörtunum á island.is. Allir, einstaklingar og stofnanir geta sent inn ábendingar og kvartanir en þjónustuveitendur hafa ríkar skyldur gagnvart GEV um að tilkynna sérstaklega alvarleg atvik.
Nú þegar er GEV að skoða mál sem tengjast búsetukjörnum og akstursþjónustunni.
Virði velferðarþjónustu
Þessi einfalda stærðfræðiformúla er höfð til hliðsjónar þegar GEV metur þjónustu. Herdís leggur áherslu á að það að draga úr kostnaði snúist ekki um að spara heldur það að fá nógu mikið fyrir peninginn og tímann. Að þjónustuþegar þurfi ekki að bíða of lengi eftir þjónustunni.
Gæðaviðmiðin, sem GEV vinna eftir þegar þau meta félagsþjónustu, er skipt niður í fimm yfirflokka:
Að lokum nefndi Herdís þau verkefni sem GEV er að vinna í tengslum við Landsáætlun um málefni fatlaðs fólks og skipti þeim í þrennt:
Í fyrsta lagi að skilgreina hversu mikið af fagfólki þarf til að sinna ákveðinni tegund af þjónustu.
Í öðru lagi heildstætt mat á stuðningsþörf fyrir fatlað fólk svo hægt sé að standa við það að veita réttmæta þjónustu.
Í þriðja lagi kortlagningu á aðgengi fatlaðs fólks að samræmdri heilbrigðis- og endurhæfingarþjónustu.
„Ég er bara ein manneskja. Það er ekki hægt að kljúfa mig í sundur eftir ráðuneytum. Ég hef bæði félagslegar þarfir og líka þörf fyrir heilbrigðisþjónustu,“ sagði Herdís og nefndi að á okkar litla landi ætti að vera hægt að samræma þessa þjónustu.
Þáttakendur í sófaspjalli.
Að loknu erindinu var sófaspjall þar sem Herdís tók líka þátt ásamt þeim Eiríki Smith, sérfræðingi hjá Réttindagæslu fyrir fatlað fólk, og Ölmu Ýr Ingólfsdóttur, formanni ÖBÍ réttindasamtaka.
Hekla Björk Hólmarsdóttir, aðjúnkt við HÍ, stjórnaði umræðunum og spurði fyrst Eirík hvort stjórnvöld séu að standa sig í hlutverkinu. Hvort fatlað fólk sé að njóta þeirrar þjónustu sem því er tryggð í lögum?
Eiríkur byrjaði á jákvæðum nótum og nefndi að það væri ánægjulegt að sjá gæðaviðmiðin hjá GEV. Þau væru í takt við hvað er að gerast alþjóðlega og í samræmi við mannréttinda-miðaða nálgun. Það væru vissulega 14–15 ár frá því að að þessi málaflokkur hefði færst frá ríki til sveitarfélaga en engu að síður ánægjulegt að sjá þennan metnað núna í að meta gæði þjónustunnar.
Það þurfi hins vegar líka að horfa á þann hóp sem er ekki að fá þjónustu.
Eiríkur benti á að fólk sem hefur kannski fengið samþykkta þjónustu sé ekki endilega að njóta hennar. Þegar það komi að fullorðnu fötluðu fólki skorti sárlega einhverja miðstöð á borð við Barna– og fjölskyldustofu, eða Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Stuðningskerfi fyrir fatlað fólk, aðstandendur og fagfólk.
Alma sagði breytingarnar vera meira og minna til hins betra en við séum engan veginn komin á þann stað sem við viljum vera. Hún tók undir með Heklu að það sé afskaplega leiðinleg umræða, hvernig fatlað fólk sé byrði á samfélaginu. Það vanti oft þessa brú, að kerfin séu ekki að tala saman, þegar fólk þurfi á t.a.m bæði félags- og heilbrigðisþjónustu. Að kerfin bendi þá of oft á hvort annað.
„Það er tímafrekt, niðurlægjandi og erfitt,“ fyrir fatlað fólk að standa í slíku.
Herdís bætti því við að GEV sendi tilmæli og tillögur um úrbætur til þeirra sem veita þjónustu. Henni finnst bæði flókið og skrítið hvernig stoð- og stuðningsþjónusta sé metin fyrir einstakling eftir tvenns konar lögum. Að viss margir tímar séu veittir út frá lögum um félagsþjónustu en síðan taki við lög um fatlað fólk. Það þurfi að vera samræmdara matskerfi sem meti þarfir einstaklingsins og að þjónustan sé jafn góð óháð búsetu.
Hekla Björk Hólmarsdóttir, aðjúnkt við HÍ, stjórnaði sófaspjallinu.
Þegar Hekla nefndi hversu mörg dæmi séu um að búið sé að samþykkja þjónustu fyrir fatlað fólk en hún sé síðan ekki veitt fyrr en löngu síðar, vegna til að mynda manneklu eða ráðningarbanns hjá sveitarfélögum, sagði Alma það bæði skammarlegt og óskiljanlegt. Þetta eigi t.d. við um störf eins og liðveislu og NPA samninga.
„Ráðningarbann um lögbundna þjónustu finnst mér með öllu óskiljanlegt. […] Mér finnst það í raun galið,“ bætti Alma við og fannst að ráðuneyti málaflokksins ætti að stíga fastar inn í þess háttar aðstæður.
Eiríkur sagði að það þyrfti að taka þessar ákvarðanir á faglegum forsendum en ekki pólitískum eða fjárhagslegum eins og hingað til.
Með virðingu fyrir fötluðu fólki að leiðarljósi og ekki síður fagfólki. Fatlað fólk og aðstandendur upplifi sig vissulega oft valdalaus en það eigi ekki síður við um fagfólk.
„Ég á mér draumsýn,“ sagði Herdís, að það sé „samræmingaraðili“ sem geti tekið þarfir eins einstaklings um til að mynda heilbrigðisþjónustu, félags– og og geðheilbrigðisþjónustu, endurhæfingar– og stuðningsþjónustu. Þarfir sem heyra bæði undir ríki og sveitarfélög. Samræmingaraðili sem sér þá um að samræma heildræna þjónustu fyrir þennan einstakling.
Hekla þakkaði þeim fyrir spjallið og bætti við að lokum:
„Við verðum að vinna saman, stjórnvöld, fagfólk og notendur. Að fatlað fólk fái raunverulega að tilheyra samfélaginu á sínum eigin forsendum. Fatlað fólk er ekki byrði, það er hluti af samfélaginu í styrkleika, reynslu og hæfni sem eflir okkur öll“.
Meira um málþingið Uppfærsla — betri þjónustu fyrir fatlað fólk birtist hér fljótlega.