Umsögn um aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum til 4 ára

Til velferðarnefndar. 2. desember 2015 Efni: Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára (þingskjal 405 – 338.mál). Landssamtökin Þroskahjálp þakka velferðarnefnd Alþingis fyrir að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum varðandi ofangreinda þingsályktunartillögu á framfæri við nefndina. Samtökin fagna því að stjórnvöld skuli setja fram stefnu og aðgerðaáætlun í þessum afar mikilvæga málaflokki, þar sem mjög mörg og brýn viðfangsefni bíða úrlausnar, en samtökin vilja nota þetta tækifæri til að koma eftirfarandi athugasemdum og ábendingum sérstaklega á framfæri við velferðarnefnd.

Til velferðarnefndar.     2. desember 2015

 Efni: Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um stefnu  og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára (þingskjal 405 – 338.mál).

 Landssamtökin Þroskahjálp þakka velferðarnefnd Alþingis fyrir að fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum varðandi ofangreinda þingsályktunartillögu á framfæri við nefndina. Samtökin fagna því að stjórnvöld skuli setja fram stefnu og aðgerðaáætlun í þessum afar mikilvæga málaflokki, þar sem mjög mörg og brýn viðfangsefni bíða úrlausnar, en samtökin vilja nota þetta tækifæri til að koma eftirfarandi athugasemdum og ábendingum sérstaklega á framfæri við velferðarnefnd.

 Að mati Landssamtakanna Þroskahjálpar er sú stefna sem fram er sett í þingsályktunartillögunni of almenn og lítt útfærð og sama má segja um þær aðgerðir sem grípa á til í því skyni að hrinda stefnunni í framkvæmd samkvæmt tillögunni. Samtökin telja að þetta sé veikleiki á stefnunni  og aðgerðaáætluninni og því sé mjög æskilegt að skýra stefnuna og útfæra aðgerðir betur en gert er í tillögunni.

Þá vilja samtökin sérstaklega koma eftirfarandi á framfæri við nefndina varðandi geðheilbrigðismál sem snúa sérstaklega að fötluðu fólki.

Í 25. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fólks er kveðið á um rétt fatlaðs fólks til heilsugæslu og skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki hana til jafns við aðra. Eins og velferðarnefnd er kunnugt undirrituðu íslensk stjórnvöld þennan mikilvæga mannréttindasamning árið 2007 og vinna nú að fullgildingu hans með því að tryggja að lög og reglur og öll stjórnsýsluframkvæmd og þjónusta uppfylli þær kröfur sem af samningnum leiða.

Í 25. gr. samningsins segir m.a.:

Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki sem unnt er án mismununar vegna fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu.

Að mati Landssamtakanna Þroskahjálpar er afar mikilvægt að íslensk stjórnvöld hafi samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og ákvæði hans um réttindi þess til að hafa aðgang að viðeigandi heilbrigðisþjónustu til jafns við aðra, mjög í huga þegar þau móta stefnu í geðheilbrigðismálum og gera áætlun um aðgerðir til að hún megi ganga fram. Hér þarf að sjálfsögðu að líta til þarfa og réttinda geðfatlaðs fólks en einnig þarfa og réttinda annars fatlaðs fólks. Samtökin Þroskahjálp telja mjög mikið skorta á að sú stefna og aðgerðaáætlun sem fram er sett í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umfjöllunar uppfylli þau skilyrði og kröfur og vill í því sambandi benda á og árétta eftirfarandi.

Í stefnuna og aðgerðaáætlunina vantar algjörlega ákvæði er varða geðheilbrigðisþjónustu við fatlað fólk, annað en geðfatlað. Þetta er mjög mikill og alvarlegur annmarki á stefnunni og aðgerðaáætluninni sem nauðsynlegt er að bætt verði úr. Ljóst er og viðurkennt að fatlanir og skerðingar af ýmsu tagi krefjast þess að þeir einstaklingar sem í hlut eiga fái sérhæfða geðheilbrigðisþjónustu sem er sniðin sérstaklega að þörfum þeirra og aðstæðum. Það á við fólk með ýmiss konar skerðingar og raskanir og m.a. fólk með þroskahamlanir og einhverfurófsraskanir. Þar er um að ræða hópa fatlaðs fólks sem hafa meiri og sértækari þarfir að þessu leyti en aðrir almennt hafa. Þetta er vel þekkt og viðurkennt og hefur geðsvið Landspítalans t.a.m. talið sig hafa sérstakar skyldur gagnvart þessum hópum. Geðheilbrigðisþjónusta sem þeim er nú veitt er hins vegar mjög takmörkuð og ríkir nokkur óvissa um framtíð hennar. Því er afar mikilvægt að í stefnunni og aðgerðaáætluninni verði mælt fyrir um hvernig stjórnvöld ætla að tryggja þessum hópum fullnægjandi og trausta geðheilbrigðisþjónustu til framtíðar sem sniðin er að þörfum og aðstæðum þessara hópa.

Þá er mjög brýnt og stjórnvöldum skylt samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem tekinn var í íslensk lög árið 2013, að huga sérstaklega að geðheilbrigðisþjónustu við fötluð börn. Þau hafa geð- og hegðunarraskanir ekki síður en önnur börn og hafa gjarnan þörf fyrir samþætta öfluga þjónustu bæði sem forvörn og sem stuðning í daglegu lífi. Afar mikilvægt er að í stefnu stjórnvalda í geðheilbrigðismálum og aðgerðaáætlun til að ná henni fram verði mælt fyrir um þetta og settar fram raunhæfar og markvissar aðgerðir til að tryggja réttindi þessara barna og góða geðheilbrigðisþjónustu við þau.

 

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Landssamtakanna Þroskahjálpar.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Landssamtakanna Þroskahjálpar.