Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála, þingskjal 15 – 15. mál.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum samningsins, eins og mælt er sérstaklega fyrir um í 4. gr. hans, sem hefur yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“. Þar segir m.a.:  

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 
    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til: 
          a)      að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika, 
          b)      að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...         

Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks nær til allra sviða samfélagsins og hefur það meginmarkmið að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og jöfn tækifæri á við aðra á öllum sviðum og að verja það fyrir mismunun af öllu tagi. Sérstaklega er kveðið á um þessar skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki jafnrétti í 5. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Jafnrétti og bann við mismunun“ og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar. 
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa. 

 

Í 27. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem hefur yfirskriftina „Vinna og starf“ er kveðið á um ýmsar skyldur ríkja hvað varðar jafnrétti og tækifæri fatlaðs fólks á vinnumarkaði og vernd þess fyrir alls kyns mismunun þar. Í greininni segir m.a.:

 

Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, einnig fyrir þá sem verða fatlaðir meðan þeir gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, til að mynda með lagasetningu, til þess meðal annars: 
       a)      að leggja bann við mismunun vegna fötlunar að því er varðar öll mál sem tengjast störfum af hvaða tagi sem er, meðal annars nýliðunar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað, 
       b)      að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, einnig jafnra tækifæra og launajafnréttis, öryggis og hollustu á vinnustað og til verndar gegn áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála, ...

       e)      að skapa atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk og stuðla að starfsframa þess á vinnu­markaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna starf, fá það, halda því og fara aftur inn á vinnumarkað, 
       f)      að fjölga tækifærum til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa sam­vinnufélög og stofna eigin fyrirtæki, 
       g)      að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans, 
       h)      að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með því að marka stefnu við hæfi og gera viðeigandi ráðstafanir sem kunna að felast í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum, 
       i)          að tryggja að fatlað fólk á vinnustað fái notið viðeigandi aðlögunar, 
       j)          að stuðla að því að fatlað fólk geti aflað sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði, ...

 

Fjallað er um ýmis þau réttindi fatlaðs fólks sem mælt fyrir um í 27. gr. samnings SÞ í lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði. Samkvæmt núgildandi lögum og því lagafrumvarpi sem hér er til umsagnar á Jafnréttsstofa að hafa eftirlit með framkvæmd laganna nú og einnig ef frumvarp þetta verður að lögum.

 

Í 33. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina „Framkvæmd og eftirlit innanlands“, er kveðið á um skyldur ríkja hvað varðar eftirlit með að fatlað fóllk njóti þeirra mannréttinda sem mælt er fyrir um í samningnum. Í 2. mgr. 33. gr. er sú skylda lögð á ríki sem fullgilt hafa samninginn að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun, sem tekur mið af Parísar-meginreglunum (e. Paris Principles), til að hafa eftirlit með að fatlað fólk njóti allra þeirra mannréttinda sem mælt er fyrir um í samningnum. Vernd fyrir mismunun á öllum sviðum samfélagsins er grundvallarþáttur í samningnum.  Stofnun sem uppfyllir skyldur ríkisins samkvæmt 2. mgr. 33. gr. samningsins hefur ekki enn verið sett á fót þó að nú séu næstum fjögur ár síðan ríkið skuldbatt sig til þess með fullgildingu samningsins árið 2016.[2] Íslenska ríkið hefur þó viðurkennt þessa skyldu eins og m.a. má sjá í áformum um frumvarp um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun sem dómsmálráðuneytið birti til kynningar í samráðsgátt stjórnarráðsins 5. mars 2019.  Þar segir:

 

Á undanförnum árum hefur verið stefnt að því að koma á laggirnar sjálfstæðri innlendri mannréttindastofnun (e. National Human Rights Institution) sem uppfyllir svokölluð Parísarviðmið, viðmiðunarreglur Sameinuðu þjóðanna um mannréttindastofnanir. Fjöldi áskorana hefur borist frá innlendum og erlendum aðilum um að koma á fót slíkri stofnun. Sem dæmi má nefna að íslenska ríkið fékk fjölmörg tilmæli þess efnis í tengslum við allsherjarúttekt Sameinuðu þjóðanna á stöðu mannréttinda á Íslandi árið 2016 (UPR) og var samþykkt að fylgja þeim eftir.  Þá leggur samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti árið 2016, þá skyldu á íslenska ríkið að slík stofnun sé til staðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 33. gr. samningsins. (Feitletr. Þroskahj.).

Þar segir einnig:

Loks má greina ákveðna áherslu á mannréttindi í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, þar sem m.a. er lögð áhersla á mannréttindi í utanríkisstefnu Íslands, mannréttindi hinsegin fólks, mannréttindi barna skv. barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í síðastnefnda samningnum er gerð krafa um tilvist sjálfstæðrar innlendrar mannréttindastofnunar og er slík stofnunin því nauðsynlegur liður í innleiðingu samningsins. (Feitletr. Þroskahj.).

 

Þrátt fyrir þessa skýru þjóðréttarlegu skyldu til að setja á fót sjálfstæða stofnun, sem uppfyllir svonefndar Parísar-meginreglur, til að hafa eftirlit með mannréttindum fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið tók á sig árið 2016, og hefur viðurkennt, sbr. það sem að framan segir og þrátt fyrir framangreinda yfirlýsingu í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um innleiðingu samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, virðast íslensk stjórnvöld vera fallin frá áformum um að setja slíka stofnun á fót. Í drögum að skýrslu um framkvæmd samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks segir nefnilega í kafla á bls. 62 sem hefur yfirskriftina „Sjálfstætt innlent eftirlit“:

 

Á Íslandi er ekki til staðar sjálfstæð mannréttindastofnun sem uppfyllir Parísarviðmiðin svokölluðu um mannréttindastofnanir. Undanfarin ár hefur dómsmálaráðuneytið unnið að því að koma á fót slíkri stofnun. Vorið 2018 hófst vinna við gerð frumvarps um sjálfstæða innlenda mannréttindastofnun og voru áform um það birt á samráðsgátt Stjórnarráðsins í mars 2019. Aftur á móti er ekki gert ráð fyrir stofnuninni í fjármálaáætlun fyrir 2020–2025 og verður því ekki hægt að koma henni á fót að svo stöddu.

Jafnréttisstofa uppfyllir ekki kröfur 2. mgr. 33. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks né Parísar-meginreglnanna. Það fyrirkomulag sem er samkvæmt núgildandi lögum og gert er ráð fyrir samkvæmt frumvarpinu uppfyllir því ekki kröfur samnings SÞ hvað varðar eftirlit með að fatlað fólk njóti jafnréttis á vinnumarkaði og sé varið fyrir mismunun þar.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið hvetja Landssamtökin Þroskahjálp allsherjar- og menntamálanefnd eindregið til að óska eftir skýringum frá hlutaðeigandi ráðherrum á því hverju sætir að íslensk stjórnvöld hyggist vanrækja áfram þessa skýru skyldu sína til að setja á fót sjálfstæða mannréttindastofnun til að hafa eftirlit með að fatlað fólk njóti þeirra mannréttinda sem samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks tekur til, þ.m.t. hvað varðar vernd fyrir mismunun á vinnumarkaði og stuðning á því sviði. Í Því sambandi skal minnt á að í  stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir: „Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.“

 

Landssamtökin þroskahjálp minna ríkið að lokum á samráðsskyldur þess gagnvart fötluðu fólki og samtökum sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess og lýsa miklum áhuga og vilja til að taka þátt í slíku samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld og vísa í því sambandi til  3. mg. 4. gr. og 3. mgr. 33. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.[3]

Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með  allsherjar- og menntamálanefnd að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum.


Virðingarfyllst.

 

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

 Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér:



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um sex þúsund félagsmenn.

[2] Í ljósi þess og þar sem nú eru næstum fjögur ár síðan ríkið skuldbatt sig til að framfylgja ákvæðum samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks telja Landssamtökin Þroskahjálp óhjákvæmilegt og bráðnauðsynlegt að ríkið geri ítarlega grein fyrir því í hver er staðan nú hvað varðar stofnun mannréttindastofnunar sem hefur eftirlit með mannréttindum fatlaðs fólks og hverjar eru fyrirætlanir ríkisins um að gera það sem gera það til að uppfylla þessa skyldu sína samkvæmt 33. gr. samnings SÞ.

[3] 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ hljóðar svo: „Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“ Og  í 3. mgr. 33. gr. samningsins segir: „Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem fara með mál þess, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.“