Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga (alþjóðleg vernd, brottvísunartilskipunin, dvalar- og atvinnuleyfi), 717 mál.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja sérstaklega koma eftirfarandi á framfæri við  allsherjar- og menntamálanefnd varðandi frumvarpið.

Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða ákvæði hans og framfylgja þeim á öllum sviðum sem samningurinn nær til. Í samningnum er m.a. kveðið á um skyldur ríkja til að vernda fatlað fólk fyrir afleiðingum stríðsátaka og náttúruhamfara og til að veita fötluðu fólki sérstaka vernd og stuðning og taka viðeigandi tillit til aðstæðna fatlaðra einstaklinga og þarfa sem leiða af fötluninni. Óþarft er að taka fram að fötluð börn njóta einnig sérstakrar verndar samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem íslenska ríkið hefur fullgilt og auk þess tekið í lög.

Landsþingi Landssamtakanna þroskahjálpar ályktaði árið 2015 um skyldur íslenskra stjórnvalda m.t.t. fatlaðs fólks sem leitar hælis hér á landi:

Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar hvetur stjórnvöld til að huga sérstaklega að alþjóðlegum skyldum til að taka tillit til þarfa fatlaðs fólks fyrir stuðning og vernd við mótun og framkvæmd stefnu í málefnum flóttafólks. Þá hvetur landsþingið stjórnvöld til að beita sér fyrir því í alþjóðlegu samstarfi varðandi vanda flóttafólks að sérstaklega verði hugað að þeirri miklu þörf fyrir vernd og stuðning sem fatlað fólk á stríðshrjáðum svæðum hefur.

Með vísan til framanefndra skuldbindinga hvetja Landssamtökin Þroskahjálp Alþingi og ríkisstjórninga til að huga sérstaklega að alþjóðlegum skyldum þeirra til að taka fullt tillit til þarfa fatlaðs fólks og alveg sérstaklega fatlaðra barna fyrir stuðning og vernd við setningu laga og reglna og mótun og framkvæmd stefnu í málefnum hælisleitenda og flóttafólks hér á landi.

Samtökin telja mjög mikilvægt að í lögum og reglum sem við eiga og í allri framkvæmd á þessu sviði sé sérstaklega litið til þess ef ástæða er til að ætla að umsækjandi um hæli eða dvalarleyfi af mannúðarástæðum eða barn sem hann hefur forræði yfir muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna fötlunar eða tilefni sé til að ætla að umsækjandi eða barn sem með honum er muni ekki fá þar fullnægjandi þjónustu eða stuðning til að fá, án mismununar, notið tækifæra og mannréttinda þar, s.s. á sviði heilsugæslu, menntunar og/eða atvinnu.

Í þessu sambandi leggja samtökin áherslu á að lög og reglur, stjórnsýsla og öll framkvæmd við meðferð umsókna fólks um hæli sem flóttmenn og/eða um dvalarleyfi af mannúðarástæðum sé þannig að tryggt sé að hlutaðeigandi stjórnvöld rannsaki mál og aðstæður umsækjenda svo vel að tryggt sé að þau taki fullt tillit til fötlunar umsækjenda og eða barna sem þeim fylgja þegar fötlun er til að dreifa. Í því sambandi leggja samtökin sérstaka áherslu á að fötlun er oft alls ekki sýnileg, s.s þegar um þroskahömlun og/eða einhverfu er að ræða. Sama á við um ýmis geðræn veikindi.

Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá fund með allsherjar- og menntamálanefnd til að gera nefndinni betur grein fyrir sjónarmiðum sínum og áherslum.

Virðingarfyllst,

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna og fatlaðs fólks af erlendum uppruna

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.

 

 



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum.