Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (mansal), 550. mál.

Landssamtökin fagna þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér. Rannsóknir sýna að fatlað fólk, ekki síst fólk með þröskahömlun og skyldar raskanir, er margfalt líklegra til þess að verða fyrir hvers kyns ofbeldi og misbeitingu. Þetta kemur m.a. fram í nýlegri skýrslu Ríkislögreglustjóra um ofbeldi gagnvart fötluðu fólki.

Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða ákvæði hans og framfylgja þeim á öllum sviðum sem samningurinn nær til. 16. grein samningsins ber yfirskriftina “Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum” og þar segir:

1. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, m.a. með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna.

2. Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er, meðal annars með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, ásamt þeim sem annast það, viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, m.a. með því að veita upplýsingar og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að félagsþjónusta taki mið af kyni, aldri og fötlun.

3. Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi virkt eftirlit með allri aðstöðu og áætlunum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki.

4. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að líkamlegum, vitsmunalegum og sálrænum bata, endurhæfingu og félagslegri endursamlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í einhverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram félagsþjónustu. Slíkur bati og endursamlögun skal fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, göfgi og sjálfræði einstaklinganna, þar sem tillit er tekið til sérþarfa þeirra miðað við kyn og aldur.

 5. Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, þ.m.t. löggjöf og stefna sem tekur mið af þörfum kvenna og barna, til þess að unnt sé að staðreyna misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar, sem beinast gegn fötluðu fólki, og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við.

Í 13. grein samningsins er fjallað um aðgengi að réttarvörslukerfinu. Þar segir:

1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.

2. Í því skyni að greiða fyrir því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þá sem starfa á sviði réttarvörslu, meðal annars lögreglumenn og starfsmenn fangelsa.

Í ljósi ofangreinds vilja Landssamtökin Þroskahjálp koma eftir farandi á framfæri:

Tryggja þarf að fatlað fólk, ekki síst fólk með þroskahömlun og skyldar raskanir, sem kann að verða fórnarlömb einhverra þeirra refsiverðu athafna sem lagabreytingin tekur til, fái viðeigandi stuðning og meðhöndlun sem tekur mið af fötlun þess, á öllum stigum málsins.

Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir að á fund með allsherjar- og menntamálanefnd til að gera betur grein fyrir því sem fram kemur í þessari umsögn og tengdum málum.

 

Virðingarfyllst.

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna.

Nágast má frumvarpið sem umsögnin á við hér

 



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun, fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.