Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940 (bann við afneitun helfararinnar), 453. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar.

 Fatlað fólk var einn þeirra hópa sem nasistar ofsóttu af skelfilegri grimmd og á árunum 1939 – 1945 myrtu þeir hundruð þúsunda fatlaðra barna og fullorðins fatlaðs fólks. Þau skipulögðu fjöldamorð voru byggð á hugmyndafræði nasista um kynþætti, þar sem litið var svo á að fatlað fólk ógnaði heilsu og hreinleika þýska kynstofnsins. Um þetta má m.a. lesa í bók Suzanne E. Evans, Hitler‘s Forgotten Victims: The Holocaust and the Disabled[2].

 Skipulagðir glæpir gegn mannkyni öllu sem nasistar frömdu mega aldrei gleymast og við verðum að minnast þeirra til að geta frekar varast hugmyndarfæði fordóma, mismununar og haturs sem leiðir til slíkra grimmdarverka.

Samtökin taka undir það sem segir í greinargerð með frumvarpinu. þar segir m.a.:  

Takmörkunin felur í sér bann við því að afneita opinberlega einna verstu glæpum sem framdir hafa verið gegn mannkyni. Glæpir sem bæði í sögulegu samhengi sem og landfræðilegu standa nærri Íslandi. Nauðsynlegt er að standa vörð um sögu þessara hörmunga sem áttu sér stað á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar og koma í veg fyrir að unnt verði að grafa undan henni, gera lítið úr, rangfæra eða falsa svo að slíkir atburðir endurtaki sig aldrei. 

Með vísan til þess sem að framan segir lýsa Landssamtökin Þroskahjálp stuðningi við að frumvarpið verði samþykkt.

Samtökin beina því til allsherjar- og menntamálanefndar að skoða orðalag frumvarpsins m.t.t. þess að tryggt sé að það nái til ofsókna og glæpa sem framdir voru gagnvart fötluðu fólki í helförinni.

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

Nágast má frumvarpið sem umsögnin á við hér



[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun, fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.

[2]https://www.amazon.co.uk/Hitlers-Forgotten-Victims-Holocaust-Disabled/dp/0752454021