Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um þekkingarsetur til undirbúningsnáms fyrir börn af erlendum uppruna, 12. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um þekkingarsetur til undirbúningsnáms fyrir börn af erlendum uppruna, 12. mál

 

Þroskahjálp leggur ríka áherslu á að öll börn, þar á meðal fötluð börn, njóti þess stuðnings og þeirra réttinda sem þeim ber samkvæmt lögum og alþjóðlegum skuldbindingum íslenskra ríkisins. Þar er algjört grundvallaratriði að tryggja að þjónusta og stuðningsúrræði taki mið af einstaklingsbundnum þörfum hvers barns og að fötlun þess sé metin og henni mætt á viðeigandi hátt.

Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF), sem Ísland hefur fullgilt og lögfest, ber stjórnvöldum að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja fötluðum börnum réttindi og tækifæri til þátttöku í samfélaginu til jafns við önnur börn. Í 7. gr. samningsins segir meðal annars að aðildarríki skuli tryggja fötluðum börnum jöfn mannréttindi og að hagsmunir barnsins skuli ávallt vera í fyrirrúmi við alla ákvarðanatöku.

Þroskahjálp vill ítreka að þegar unnið er að samningu reglugerð, laga eða öðrum ákvörðunum sem varða fötluð börn, verði sérstakt tillit tekið til fötlunar þeirra í öllu ferli málsins – hvort sem um er að ræða menntun, félagslega þjónustu, heilsugæslu, aðgengi eða stuðningsþjónustu. Þetta er ekki aðeins spurning um jafnræði, heldur að tryggja að fötluð börn hafi raunverulega tækifæri til þátttöku í samfélaginu á eigin forsendum.

Réttur til stuðnings, einstaklingsmiðaðrar aðstoðar og viðeigandi aðlögunar (e .reasonable accommodation) er lykilatriði í framkvæmd SRFF. Ef slíkur stuðningur er ekki veittur, verða til hindranir sem geta leitt til mismununar á grundvelli fötlunar. Því er brýnt að tryggt sé að þjónustukerfi samfélagsins – frá leikskóla til framhaldsskóla, frá félagsþjónustu til heilbrigðiskerfis – sé samhæft og grundvallað á mannréttindasjónarmiðum.

Undanfarin ár hefur Þroskahjálp hugað sérstaklega að stöðu og þörfum fatlaðs fólks af erlendum uppruna, ekki síst barna. Reynslan sýnir að þegar fólk býr við tvöfalda, eða margfalda, jaðarsetningu reynist stuðningskerfum erfitt að mæta öllum þörfum sem leiða af jaðarsetningunni. Þannig hefur fatlað fólk af erlendum uppruna gjarnan notið þjónustu og stuðnings á grundvelli uppruna en farið á mis við nauðsynlega þjónustu sem það þarf á að halda vegan fötlunar.

Þroskahjálp hvetur stjórnvöld eindregið til að:

  • Tryggja að þekking og skilningur á réttindum og þörfum fatlaðra barna verði í hvívetna hafður til hliðsjónar við uppbyggingu þekkingarseturs til undirbúningsnáms fyrir börn af erlendum uppruna.
  • Meta áhrif framkvæmdarinnar á fötluð börn sérstaklega.
  • Byggja alla stefnumótun sem varðar fötluð börn á samráði við fötluð börn og aðstandendur þeirra sem og hagsmunasamtök fatlaðs fólks, í anda 4. gr. SRFF.
  • Tryggja að framkvæmdin styðji raunverulega þátttöku og jöfn tækifæri allra barna, óháð fötlun eða aðstæðum.

    Þroskahjálp er reiðubúin til frekara samtals og samráðs um málið sé þess óskað.

 

Virðingarfyllst,

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri

Katarzyna Kubiś, verkefnisstjóri í málefnum barna og fólks af erlendum uppruna.

 

Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.