Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um málstefnu íslensks táknmáls.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna að setja eigi stefnu um íslenskt táknmál og telja málið afar brýnt til að tryggja jafna stöðu þeirra sem tala íslenskt táknmál.

Mikilvægt er að tryggja aðgengi fólks að samfélaginu með túlkaþjónustu og að hún sé fullfjármögnuð, m.a. þegar kemur að öllum þáttum sem samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks kveður á um, s.s. þátttöku í opinberu lífi, menningarlífi, menntun og atvinnu.

Fréttir berast reglulega um erfiðleika heyrnarlausra við að fá túlka vegna fjárskorts. Þetta er óliðandi enda er það lykillinn að samfélagslegri þátttöku og að fólk geti nýtt sér önnur réttindi sín. Tryggja þarf aðgengi þeirra sem hafa íslenskt táknmál að móðurmáli að kennslu um móðurmál sitt til jafns við íslensku, t.a.m. málfræði og bókmenntir. Slíkt er aðeins í boði á háskólastigi.

Samtökin vilja ítreka hve mikilvægt það er að tryggja gott samráð við Döff samfélagið á Íslandi, sem hefur verið afar jaðarsett og mátt þola stuðnings- og afskiptaleysi.

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, verkefnastjóri upplýsinga- og kynningarmála hjá Þroskahjálp

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér