Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um lýðheilsustefnu til ársins 2030, 645. mál

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.

Samtökin lýsa yfir ánægju sinni með hve skýrt er kveðið á um jafnfrétti, jafnt aðgengi að upplýsingum, ólíkar þarfir, samstarf og samráð milli þjónustuveitenda í þingsályktunartillögu um lýðheilsustefnu til ársins 2030 og jafnframt með að vikið er að mikilvægi þess að laga upplýsingar og verkefni sem stefnunni fylgja að þörfum fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu.

Í umsögn sinni um drög að stefnunni í samráðsgátt bentu Landssamtökin Þroskahjálp á að sterkar vísbendingar eru um að heilsa fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu sé almennt lakari en annarra og jafnframt var bent á að aðgengi þessa hóps að upplýsingum, úrræðum og heilsutengdu forvarnarstarfi sé ábótavant. Á þetta jafnt við um átaksverkefni til heilsueflingar, aðgengi að viðeigandi stuðningi og fræðslu um heilsueflingu og sértæk úrræði til að efla heilsu og vellíðan. Þessi stefnumótun sem hér er til umsagnar er því afar mikilvæg fyrir fólk með þröskahömlun og/eða einhverfu og mikilvægt að gæta sérstaklega að aðstæðum og þörfum þess fólks og tryggja að það þurfi ekki að þola mismunun á þessu sviði á grundvelli fötlunar sinnar.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa yfir ánægju með að tillit hefur verið tekið til þessarar ábendingar að einhverju leyti, til dæmis með því að bæta inn ákvæði um að veita nauðsynlegan stuðning fyrir þá sem ekki hafa forsendur til að tileinka sér heilsulæsi eða færni til að bera ábyrgð á eigin heilsu. Þá er í greinargerð með tillögunni fjallað um umsögn Þroskahjálpar og tekið undir mikilvægi þess að huga sérstaklega að því, við útfærslu og innleiðingu stefnunnar og þeirra verkefna sem af henni munu leiða, að þess sé gætt að upplýsingar skili sér til fólks með þroskahömlun og/eða einhverfu á aðgengilegu formi, til dæmis með því að hafa upplýsingar á auðlesnu máli og tryggja að fötlun sé ekki útilokandi þáttur þegar kemur að því að nýta sér úrræði, t.d. vegna skorts á viðeigandi stuðningi eða aðgengi.

Árið 2016 fullgiltu íslensk stjórnvöld samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og skuldbundu sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans.

Í 4. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina “Almennar skuldbindingar”, segir m.a.:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar.  … Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til … að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð. (Feitletr. Þroskahj.).

5. gr.  samningsins hefur yfirskriftina “Jafnrétti og bann við mismunun” og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar.

     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.

     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.

     4.      Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa.

Hvað átt er við með viðeigandi aðlögun er skýrt í 2. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en þar segir:

“Viðeigandi aðlögun“merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og mannfrelsi.”

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi faltaðs fólks er skýrt kveðið á um skyldu stjórnvalda til samráð við fatlað fólk og hagsmunasamtök. Þar segir í 4. gr.:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsir yfir vilja og áhuga á því að eiga samstarf við stjórnvöld um innleiðingu og útfræslu lýðheilsustefnu og þeirra verkefna sem af henni leiða til að tryggja betur lýðheilsu fólks með  þroskahömlun og/eða einhverfu.

Undir merkjum Landssamtakanna Þroskahjálp starfar ungmennaráð, skipað ungu fólki á aldrinum 16 – 24 ára, sem einnig er mikilvægur samráðsvettvangur þegar að innleiðingu stefnunnar kemur.

Virðingarfyllst.

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri í málefnum barna, ungmenna og fólks af erlendum uppruna.

: Nálgast má þingsályktunartillögu sem umsögnin á við hér.