Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um skýrslu um alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gagnvart konum.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.

Í athugasemdum kvennaréttarnefndarinnar frá 2016 koma fram tilmæli um að strax verði hafist handa við gerð landsáætlunar gegn kynbundnu ofbeldi og heimilisofbeldi sem tekur sérstaklega til fatlaðra kvenna og innflytjendakvenna. Þá er einnig mælst til þess að bæði fjármunum og mannafla verði varið til þess að vinna að þessu verkefni og að sérstökum fjármunum verði varið til lögreglu til að hún geti betur unnið gegn ofbeldi sem þessir hópar verða fyrir. Í janúar síðastliðinn kom út skýrsla sem gerð var að beiðni ríkislögreglustjóra um ofbeldi gegn fötluðu fólki. Skýrslan bendir til þess að alvarlegar brotalamir séu í kerfum sem eiga að hlúa að og vernda fatlað fólk, t.a.m. hjá lögreglu, dómstólum og í stuðningskerfi brotaþola.

 Landssamtökin Þroskahjálp, sem og önnur hagsmunasamtök fatlaðs fólks og fatlað baráttufólk, hafa ítrekað bent á skort á gögnum, skort á utanumhaldi og stuðningi við fatlaða þolendur ofbeldis. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að ekki er skráð þegar brotaþoli er fatlaður við skráningu mála og því séu engar upplýsingar um fjölda mála á Íslandi. Sagt er frá niðurstöðum erlendra rannsókna, m.a. um viðkvæma stöðu fatlaðra kvenna og barna með þroskahömlun og fárra sakfellinga í málum þar sem þolendur eru fatlaðir. Algengt er að fatlað fólk sem verði fyrir ofbeldi tilkynni það ekki og óttist að því verði ekki trúað. Í grundvallaratriðum staðfestir skýrslan að fatlaðir þolendur ofbeldis njóta ekki þeirrar verndar sem þeir eiga rétt á og minni verndar en ófatlað fólk. Allt bendir þetta því til þess að lítið hafi verið aðhafst til þess að verða við tilmælum kvennaréttarnefndarinnar frá 2016 hvað varðar ofbeldisbrot gegn fötluðum konum.

Landssamtökin Þroskahjálp benda á að mannréttindarsamningar, sem stjórnvöld hafa undirgengist og þar með skuldbundið sig til að framfylgja, eru hver öðrum tengdir. Þetta á meðal annars við um samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og samning um afnám allrar mismununar gegn konum.

Íslensk stjórnvöld fullgiltu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbundu sig þar með til að framfylgja honum á öllum sviðum, taka mið af honum í allri stefnumótun og reglugerðum sem tala inn í veruleika fatlaðs fólks og samþætta öðrum mannréttindasamningum, þar á með samningi um afnám allrar mismununar gegn konum. Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sérstaklega fjallað um “erfiða stöðu fatlaðs fólks sem sætir margþættri eða síaukinni mismunun vegna kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðlegs, þjóðernislegs eða félagslegs uppruna eða frumbyggja-uppruna, eigna, ætternis, aldurs eða annarar stöðu.” Þá er áréttað að fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, að verða þolendur ofbeldis, áverka, misþyrminga, vanræsklu eða hirðuleysis, illrar meðferðar eða misneytingar.” Skýrsla Ríkislögreglustjóra sem áður er vitnað í bendir til þess að Ísland sé ekki undanskilið þessari hættu.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er fjallað sérstaklega um konur í 6. grein, en þar segir:  

1. Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur verða fyrir fjölþættri mismunun og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til  jafns við aðra.

 2. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fullu þróun, framgang og valdeflingu kvenna í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og grundvallarfrelsis sem samningur þessi kveður á um.

16. greinin fjallar um frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum:

1. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, þar á meðal kynbundnum hliðum þessa.

 2. Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir hvers konar misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar, þar á meðal með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess og umönnunaraðilum viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með upplýsingagjöf og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að við þá þjónustu þar sem vernd er veitt sé tekið mið af kyni, aldri og fötlun.

 3. Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi árangursríkt eftirlit með allri aðstöðu og áætlunum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki.

 4. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að efla líkamlegan, vitsmunalegan og sálrænan bata, endurhæfingu og félagslega enduraðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í einhverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og enduraðlögun skulu fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, reisn og sjálfræði viðkomandi einstaklings, þar sem tillit skal tekið til kyn- og aldursbundinna þarfa.

 5. Aðildarríkin skulu taka upp árangursríka löggjöf og stefnu, þar á meðal löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til að tryggja að misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki verði greindar, rannsakaðar og eftir atvikum ákært vegna þeirra.

 Vísbendingar eru um, m.a. í skýrslu Ríkislögreglustjóra frá janúar 2021, að íslenskum stjórnvöldum hafi ekki tekist nógu vel að uppfylla þær skyldur samningsins Sameinuðu þjóðanna sem tíundaðar eru hér að ofan né heldur að bregðast við ábendingu kvennaráttanefndarinnar um innleiðingu landsáætlunar um aukna mannréttindavernd til handa fötluðum konum og stúlkum. Það eru því eindregin tilmæli Landssamtakanna Þroskahjálpar að málefni fatlaðra kvenna verði gerð ítarleg skil í skýrslu til kvennanefndarinnar og skilmerkilega gert grein fyrir því hvernig á að bæta á úr þeim brotalömum sem ræddar eru í þessari umsögn.

Samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks ber stjórnvöldum skýr og rík skylda til þess að hafa samráð við fatlað fólk eða hagsmunasamtök sem vinna með fötluðu fólki um öll mál sem varða hagsmuni þess. Í fjórðu grein samningsins sem ber yfirskirftina Almennar skuldbindingar, segir:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja og áhuga til samstarfs og samráðs við gerð skýrslu íslenskra stjórnvalda um alþjóðasamning um afnám allrar mismununar gagnvart konum.

 Virðingarfyllst.

 Anna Lára Steindal, verkefnstjóri hjá Þroskahjálp í málefnum fatlaðs fólks af erlendum uppruna og fatlaðra barna og ungmenna

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

Nálgast má þingsályktun sem umsögnin á við hér