Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um menningarstefnu

Reykjavík, 2. apríl 2021

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að menningarstefna fyrir Ísland hafi verið lögð fram til samráðs en samtökin harma að ekki sé rætt um fatlað fólk, réttindi þess og framlag þess til blómlegs menningarlífs á Íslandi. Samtökin treysta jafnframt á að stefnunni verði fylgt eftir með metnaðarfullum aðgerðum til að auka þátttöku og aðgengi fatlaðs fólks að menningu.

Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að fylgja ákvæðum hans. Í samninginum er fjallað nokkuð ítarlega um rétt fólks til þess að njóta og vera menningarlífs.

 

Menningarleg réttindi fatlaðs þátttakendur fólks

Þau ríki sem eiga aðild að samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks viðurkenna mikilvægi aðgengis, m.a. að hinu menningarlega umhverfi og viðurkenna mikilvægt framlag sitt til þess að draga úr félagslega erfiðri stöðu fatlaðs fólks og stuðla að þátttöku þess, m.a. á vettvangi menningarmála. (1)

Í 30. grein samningsins er fjallað um þátttöku, m.a. í menningarlífi. Þar kemur m.a. fram að aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til þess að taka þátt í menningarlífi til jafns við aðra og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fatlað fólk njóti aðgengis að menningarefni, kvikmyndum, leikhúsi og öðrum menningarviðburðum á aðgengilegu formi. Það sama á við um aðgengi að stöðum þar sem menningarefni er flutt eða þjónusta á sviði menningar fer fram, t.d. í leikhúsum, söfnum, kvikmyndahúsum, bókasöfnum, ferðamannastöðum og, eftir því sem við verður komið, við minnisvarða og staði sem eru mikilvægir í þjóðmenningarlegu tilliti. (2)

Menning og fjölbreytileiki

Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks kveður á um að aðildarríki skuli gera ráðstafanir til þess að „fatlað fólk fái tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna og vitsmunalega getu, ekki einvörðungu í eigin þágu heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið.”(3) Á Íslandi hefur fatlað fólk verið fámennur en áberandi þátttakendur í menningarlífinu, á sviði tónlistar, hönnunar, myndlistar, leiklistar, kvikmyndagerðar o.fl. og mikilvægt að framlag þeirra sé metið og jaðarsetning innan menningarheimsins viðurkennd. Þá hefur Hátíðin List án landamæra, sem Landssamtökin Þroskahjálp eiga aðild að, sem og listnámsbraut Myndlistarskólans í Reykjavík fyrir fólk sem hefur lokið starfsbraut, sannað mikilvægi sitt. Mikilvægt er að tryggja að fatlað fólk hafi sömu tækifæri og aðrir til að stunda listnám, m.a. við fjölmargar deildir Listaháskóla Íslands.

Landssamtökin Þroskahjálp harma að ekki sé fjallað um fatlað fólk undir Markmiði II. Fjölbreytt og opið menningarlíf. Fatlað fólk er jaðarsettur hópur innan listheimsins þegar kemur að þátttöku og tækifæra til áhorfs, og hafa þeir fötluðu listamenn sem þó hafa komist í sviðsljósið og orðið þekktir fyrir hugmyndaauðgi sína og vinnu orðið fyrir fordómum.(4) Þá telja samtökin telja heppilegra að notað sé hugtakið fötlun, til viðbótar við eða í stað „líkamlegrar getu“, þar sem núverandi texti innifelur t.d. ekki hóp fólks með þroskahömlun, taugafjölbreytileika og skyldar fatlanir.(5)

Upplýsingar og fræðsla

Fatlað fólk á rétt á upplýsingum sem það skilur og er þeim aðgengilegt, það getur t.d. verið með hljóðupptökum, blindraleti, táknmáli, auðskildu máli eða annars konar samskiptaleiða.(6) Samtökin sakna þess að fjallað sé um þennan rétt í kaflanum Markmið V. Fræðsla og menningarlæsi.(7) Upplýsingar eru ein megin forsenda þátttöku í lýðræðislegu samfélagi.

Hugverkaréttur

Samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks ber aðildarríkjunum að: „gera viðeigandi ráðstafanir, samkvæmt reglum þjóðaréttar, til þess að tryggja að í lögum, sem vernda hugverkarétt, séu ekki ákvæði sem koma á ósann gjarnan hátt, eða með einhverjum þeim hætti sem hefur mismunun í för með sér, í veg fyrir að fatlað fólk hafi aðgang að menningarefni.“(8) Ekki er minnst á þennan mikilsverða rétt í kafla um höfundarrétt.(9) Landssamtökin Þroskahjálp hvetja til þess að þessi réttur verði áréttaður í stefnunni.

Tölfræði

Fjallað er um skyldu stjórnvalda til þess að afla og miðla tölfræði- og rannsóknargögnum í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Þau gögn skal nota til þess að móta og framfylgja stefnus vo mögulegt sé fyrir aðildarríki að framkvæma þær skyldur sem samningurinn kveður á um.(10) Það er afar mikilvægt að mennta- og menningarmálaráðuneytið afli gagna til þess að meta stöðu fatlaðs fólks í menningarlífinu, m.t.t. styrkveitinga, útskrifaðra nema úr háskólum á sviði menningar, verðlauna o.fl.

 

Tilvísanir

  1. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, formálsorð, v) og y).
  2. Sama, 30. gr., 1. a), b) og c).
  3. Sama, 30. gr., 2.
  4. Menningarstefna Íslands 2021-2030, drög til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. 2021, bls. 5.
  5. Sama, bls. 5.
  6. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 21, gr.; Sama, 9. gr., 1 og 2.
  7. Menningarstefna Íslands, bls. 8.
  8. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 30. gr., 3.
  9. Menningarstefna Íslands, bls. 7.
  10. Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 31. gr, 1.

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér