Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um íþrótta- og æskulýðsstarf (hlutverk samskiptaráðgjafa, öflun upplýsinga o.fl.), 597. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um íþrótta- og æskulýðsstarf (hlutverk samskiptaráðgjafa, öflun upplýsinga o.fl.), 597. mál

          7. mars 2023

 

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi það.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er nýlega hafin af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans.

Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar. Í samningnum er lögð sérstök áhersla á skyldur ríkja til að tryggja fötluðum börnum sömu réttindi og tækifæri og önnur börn hafa og nægilegan stuðning og vernd til að það geti orðið að veruleika.

30. gr. samningsins hefur yfirskriftina Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi. Þar segir m.a.:

Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, til þess að:
         a)          hvetja til og efla þátttöku fatlaðs fólks, eins og frekast er unnt, í almennu íþróttastarfi á öllum stigum,
         b)          tryggja fötluðu fólki tækifæri til þess að skipuleggja, þróa og taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi fyrir fatlað fólk og stuðla í því skyni að framboði á viðeigandi leiðsögn, þjálfun og úrræðum til jafns við aðra,
         c)          tryggja fötluðu fólki aðgang að stöðum þar sem íþrótta- og tómstundastarf fer fram og að ferðamannastöðum,
         d)          tryggja fötluðum börnum jafnt aðgengi á við önnur börn til þátttöku í leikjum, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi, þar á meðal innan skólakerfisins,
         e)          tryggja fötluðu fólki aðgang að þjónustu þeirra sem annast skipulagningu tómstundastarfs, ferðamennsku. frístunda- og íþróttastarfs.

 

Samtökin telja starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs mjög mikilvægt m.t.t. framangreindra réttinda, tækifæra og verndar fatlaðs fólks og vilja sérstaklega benda á að huga þarf sérstaklega að þörfum og reynslu fatlaðra barna og iðkenda. Mikilvægt er að skýra og efla starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs tryggja að einstaklingar og félög fái ráðgjöf án endurgjalds.

Rannsóknir sýna með óumdeilanlegum hætti að fatlað fólk er í mun meiri hættu á því að verða fyrir hvers kyns áreiti og ofbeldi og því er mjög brýnt er að í meðferð slíkra mála, þar á meðal hjá samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, sé sérstaklega hugað að aðstæðum, þörfum og réttindum fatlaðs fólks. Í 16. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum er því kveða á um margvíslegar ráðstafanir til að tryggja vernd fatlaðs fólks af ofbeldi af öllu tagi. 

Þá vilja Landssamtökin Þroskahjálp koma á framfæri mikilvægi þess að þau samtök og félög sem falla undir lög þessi séu upplýst og meðvituð um þá auknu hættu á ofbeldi sem fatlað fólk er í, hvernig hún birtist og viðeigandi viðbrögð við því. Ekki má gera ráð fyrir því í slíkum málum að hefðbundin eða almenn ferli séu við hæfi þar sem fatlað fólk gæti þarfnast og á þá rétt á sértækum stuðningi við úrlausn máls. Til dæmis hvað varðar samskipti, framsetningu efnis og úrvinnslu.

Samtökin árétta sérstaklega mikilvægi þess að í þeim tilvikum sem mál til meðferðar hjá samskiptaráðgjafa varða fatlað fólk eigi aðkomu að meðferð og úrlausn mála aðili sem hefur sérþekkingu og skilning á aðstæðum og þörfum fatlaðs fólk svo hagsmunir viðkomandi séu tryggðir.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri í málefnum fatlaðra barna og ungmenna

 

Nálgast má lagafrumvarpið sem umsögnin á við hér