Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp um breytingu á lögum um grunnskóla, nr. 91/2008 (símar og snjalltæki)
9. október 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Landssamtökin Þroskahjálp fagna áformum um að samræma reglur um notkun síma, snjalltækja og samfélagsmiðla í grunnskólum og einnig því að tekin hafi verið til greina áhersla og ábending samtakanna um að taka skuli tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðra barna, þar sem margir fatlaðir nemendur nýta síma, snjalltæki eða tæknilausnir sem hjálpartæki við nám.
Samtökin vilja jafnframt árétta mikilvægi þess að kenna fötluðum nemendum á tækni og hvernig hægt er að nýta sér tæknina í námi. Hröð tækniþróun og miklar framfarir hafa verið hvað varðar ýmis forrit sem nýtast fötluðum börnum í námi og mjög mikilvægt er að fötluð börn fái viðeigandi þjálfun og kennslu sem miðast við þarfir og aðstæður hvers og eins. Þetta er sérstaklega mikilvægt í ljósi þess skorts sem er á kennsluefni fyrir nemendur sem þurfa aðlagað og einstaklingsmiðað námsefni.
Einnig vilja samtökin benda á að tölvukostur grunnskóla á landinu öllu er mjög mismunandi og því sitja alls ekki allir nemendur við sama borð hvað varðar aðgengi að tækni, sem og kennslu í tæknilæsi og þjálfun í gagnrýnni hugsun varðandi tækni og nýtingu hennar.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Katarzyna Beata Kubiś, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér