Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til sóttvarnalaga, 80. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til sóttvarnalaga, 80. mál

 

1. október 2025

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur, stjórnafrumvarp um lögfestingu samningsins var til meðferðar á síðasta þingi og þá hefur stjórnarfrumvarp um lögfestingu samningsins verið lagt fram á yfirstandandi þingi og mælti félags- og húsnæðismálaráðherra fyrir því 22. september sl. og er frumvarpið nú til meðferðar í velferðarnefnd. Þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu samningsins.

Samtökin vilja sérstaklega vekja athygli heilbrigðisráðuneytisins, velferðarnefndar og Alþingis á eftirfarandi ákvæðum samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingarÞar segir:

1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
           Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

          a)       að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)       að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...
 

11. gr. samningsins  hefur yfirskriftina Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð. Greinin er svohljóðandi:

Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir. 

25. gr. hefur yfirskriftina Heilbrigði. Þar segir m.a.:


Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu, sem tekur mið af kyni, þar á meðal heilsutengdri endurhæfingu.

10. gr.samningsins hefuryfirskriftina Réttur til lífs og hjóðar svo:

 

Aðildarríkin árétta að sérhver manneskja eigi eðlislægan rétt til lífs og skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk fái notið hans á árangursríkan hátt til jafns við aðra.

 5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og er svohljóðandi:

  1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.


  2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 


     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 


     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. 

 

Í samningi SÞ er viðeigandi aðlögun skilgreind svo:

Viðeigandi aðlögun merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.

Ekki þarf að hafa mörg orð um að fatlað fólk er sérstaklega berskjaldað þegar hættuástand ríkir. Það kom t.a.m. mjög berlega í ljós í Covid faraldrinum hér á landi, eins og annars staðar í heiminum. Það er því alls ekki að ástæðulausu að í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks er lögð sérstök áhersla á skyldu ríkja til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, sbr. 11. gr. samningsins, þ.m.t. með setningu viðeigandi laga til að tryggja það. Landssamtökin Þroskahjálp telja ríka ástæðu til að ætla að við undirbúning og gerð þess frumvarps, sem hér er til umsagnar, hafi alls ekki verið litið til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks með fullnægjandi hætti og skuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Í því sambandi þarf augljóslega að líta sérstaklega til þess hvað megi læra af aðstæðum, þörfum og reynslu fatlaðs fólks í Covid 19 faraldrinum.

Með  vísan til þess sem að framan er rakið skora samtökin því á velferðarnefnd að fá upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu um hvernig ráðuneytið stóð að því. Í því sambandi vísa samtökin til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.