Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998 (hlutdeildarlán, 306. mál
11. desember 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Samtökin reka óhagnaðardrifinn húsbyggingasjóð, sem byggir og kaupir íbúðir sem eru leigðar fötluðu fólki. Markmið sjóðsins er að greiða fyrir að sveitarfélög standi betur og fyrr við lagalegar skuldbindingar sínar um að sjá fötluðu fólki fyrir hentugu húsnæði fyrir leigugjald, sem það ræður við. Húsbyggingasjóður á nú og rekur um 100 íbúðir á nokkrum stöðum á landinu, sem leigðar eru fötluðu fólki samkvæmt ákvörðun viðkomandi sveitarfélaga.
Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Samningurinn hefur nú verið lögfestur, sbr. lög nr. 80/2025 og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.
Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa augljóslega mikla þýðingu í sambandi við það mál sem hér er til umfjöllunar, s.s. í 19. og 28. gr. samningsins.
í 19. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu, hljóðar svo:
Aðildarríki samnings þessa viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi að fullu njóta þessa réttar og fullrar aðildar og þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:
a) að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima í tilteknu búsetuformi, ...
Og í 28. grein samningsins, sem hefur yfirskriftina Viðunandi lifskjör og félagsleg vernd, segir:
1. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar.
2. Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar á grundvelli fötlunar og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika, þar á meðal ráðstafanir: ... d) til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera, ...
Landssamtökin Þroskahjálp taka heils hugar undir það, sem fram kemur í umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um frumvarpið, dags. 10. desember 2025 og skora á velferðarnefnd og Alþingi að gera breytingar á frumvarpinu til samræmis við þær tillögur sem þar eru gerðar.
Virðingarfyllst.
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Þórarinn Snorri Sigurgeirsson, skrifstofustjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.