Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum (barnaníðsefni, atriði sem hafa áhrif á refsihæð, hatursorðræða, mismunun sökum fötlunar)

Landssamtökin Þroskahjálp fagna þeim breytingum sem eru í frumvarpinu á almennum hegningarlögum sem hafa m.a. það mikilvæga markmið að veita fötluðu fólki sömu refsivernd og öðrum hópum sem vitað er og viðurkennt og sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að eru sérstaklega berksjaldaðir gagnvart hatursorðræðu og hatursglæpum.

Samtökin hvetja þó dómsmálaráðuneytið til að að taka eftirfarandi sérstaklega til skoðunar.  

2. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„Við 1. mgr. 180. gr. laganna, bætist: Sama á við ef neitun byggist á fötlun manns án þess að nægar ástæður séu fyrir hendi er réttlæta hana.“ (Undirstr. Þroskahj.)

 

Sá fyrirvari sem er í 2. gr. frumvarpsins og er undirstrikaður hér að ofan á ekki við aðra hópa sem njóta verndar 180. gr. almennra hegningarlaga (þjóðerni, litarháttur, kynþáttur, trúarbrögð, kynhneigð eða kynvitund). Hér er því um mismunun á grundvelli fötlunar að ræða.

 

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að tryggja fötluðu fólki þau réttindi og þá vernd sem samningurinn kveður á um. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir um það: „Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.“

Við mat á því hvort ofannefnd mismunun í 2. gr. frumvarpsins stenst kröfur sem leiða af samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks þarf, að mati samtakanna, m.a. að líta til eftirfarandi greina og ákvæða í samningnum.

Vernd fatlaðs fólk gegn mismunun af öllu tagi er meginþáttur í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, eins og er sérstaklega áréttað í 5. gr. samningsins.

 

5. gr.
Jafnrétti og bann við mismunun.

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt án nokkurrar mismununar. 
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og skilvirka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa. 
 

4. gr.
Almennar skuldbindingar.

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 
    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til: 
          a)      að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika, 
          b)      að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...

 

16. gr.
Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, einnig með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna. 
     2.      Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er, einnig með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess, ásamt þeim sem annast það, viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með því að veita upplýsingar og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að sú þjónusta sem veitir vernd taki mið af kyni, aldri og fötlun. 
     3.      Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi virkt eftirlit með allri aðstöðu og áætlunum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki. 
     4.      Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að stuðla að líkamlegum, vitsmunalegum og sálrænum bata, endurhæfingu og félagslegri enduraðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í ein­hverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og enduraðlögun skulu fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, reisn og sjálfræði viðkomandi einstaklings, þar sem tillit er tekið til sérþarfa hans miðað við kyn og aldur. 
     5.      Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, einnig löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til þess að tryggt sé að unnt sé að staðreyna og rannsaka misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við. 

 

13. gr.
Aðgangur að réttarvörslukerfinu.

     1.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarvörslukerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum mála­rekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum. 
     2.      Í því skyni að stuðla að því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarvörslu­kerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir það fólk sem starfar á sviði réttarvörslu, einnig fyrir lögreglumenn og starfsfólk fangelsa. 



Landssamtökin Þroskahjálp telja mjög mikilvægt, eins og að framan segir, að vandlega verði skoðað hvort sú mismunun sem felst í fyrrnefndum fyrirvara í 2. gr. frumvarpsins samræmist skyldum sem á íslenska ríkinu hvíla samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og lýsa áhuga og vilja til samráðs við dómsmálaráðuneytið um það. Í því sambandi vísa samtökin til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ sem hljóðar svo:

„Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.“

 

Landssamtökin Þroskahjálp áskilja sér rétt til að koma fleiri ábendingum á framfæri varðandi frumvarpið á síðari stigum, þ.m.t. þegar Alþingi hefur frumvarpið til meðferðar. 

 

Virðingarfyllst.

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar.

 

Frumvarp og umsagnir má nálgast hér.