Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2026.
2 .október 2025
Inngangur
Þessi umsögn fjallar um fjárlagafrumvarp fyrir árið 2026 út frá sjónarhóli mannréttinda fatlaðs fólks og þjónustu fyrir fatlað fólk. Fjallað er um fjárframlög til málaflokksins, þróun verkefna og hvort réttindum fatlaðs fólks sé gert fullnægjandi skil. Mikilvægt er að styðja vel við málaflokkinn nú þegar lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) er framundan. Það veldur Þroskahjálp vonbrigðum að ekkert er fjallað um mikilvægi þess að fjárfesta í innviðum í málaflokki fatlaðs fólks, sem brýn og mikil nauðsyn er að gera. Markmið um aðhald í ríkisfjármálum má ekki vera á kostnað mannréttinda – hvorki fatlaðs fólks né annarra.
Fjárframlög og forgangsröðun málaflokksins
Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir hækkun útgjalda til örorku- og fötlunarmála. Þessi hækkun skýrist að mestu af nýju örorkulífeyriskerfi sem tók gildi 1. september 2025. Ljóst er að breyting á örokulífeyriskerfinu leiðir til lítillar hækkunar fyrir þá sem þurfa að lifa á örorkugreiðslum einum saman alla ævi. Þroskahjálp ítrekar mikilvægi þess að hækka grunn-örorkulífeyri sem allra fyrst.
Þó jákvæð skref hafi verið stigin með breytingu á örorkulífeyriskerfinu telur Þroskahjálp afar brýnt að endurskoða fjárlög með það í huga að uppfylla þau réttindi fatlaðs fólks sem stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að virða. Þá er einnig mikilvægt að fjármagna verkefni samhliða lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það veldur Þroskahjálp því óneitanlega vonbrigðum hversu rýr kaflinn um málefni fatlaðs fólks (27.20) er í fjárlagafrumvarpinu, er þar er aðeins vikið nokkrum orðum að verkefnum í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem eru vissulega mikilvæg en hvergi nærri nægjanleg til að leysa úr brýnum áskorunum sem koma í veg fyrir að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafns við aðra. Heildarfjárheimild til málefna fatlaðs fólks samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2026 er 83,2 m. kr og gerð er aðhaldskrafa upp á 1,6 m.kr. sem fellur á framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Þetta er lækkun um 38.7% frá fjárlögum 2025. Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við lækkun og aðhaldskröfu á sama tíma og áætlað er að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Hér á eftir eru ábendingar Þroskahjálpar um verkefni sem brýnt er að fjármagna þegar í stað:
Þjónusta við fötluð börn og ungmenni
Staða þjónustu við fötluð börn og börn sem bíða eftir greiningu er mikið áhyggjuefni. Hundruð barna bíða eftir greiningu og þjónustu. Eftirfarandi eru dæmi um tölur um fjölda á biðlista (uppfærðar tölur af vef Umboðsmanns barna frá 3. mars. 2025) https://www.barn.is/barnasattmalinn/bid-eftir-thjonustu/upplysingar-um-bid-eftir-thjonustu-1
Geðheilsumiðstöð barna – 2093 börn á biðlista
Ráðgjafa- og greiningarstöð – 644 börn á biðlista
Heyrna og talmeinastöð – 132 börn á biðlista
Talmeinafræðingar – 3701 börn á biðlista
Fjárlagafrumvarpið 2026 tryggir ekki sérstaklega fjármuni til að eyða biðlistum eftir greiningum og þjónustu fyrir fötluð börn . Þetta er verulegur ágalli í ljósi þess að:
· snemmtæk íhlutun er grundvallarskilyrði farsællar menntunar og lífsgæða fatlaðra barna,
· skortur á snemmtækri þjónustu er líklegur til að leiða til aukinna útgjalda í öðrum kerfum (félagsþjónusta, barnavernd, heilbrigðisþjónustu).
Afar brýnt er að þær stofnanir sem að þjónusta fötluð börn og ungmenni fái mun meira fjármagn til að vinna á löngum biðlistum og veita þessum viðkvæma hópi barna þá þjónustu sem hann á rétt á.
Gert er ráð fyrir að Ráðgjafa- og greiningastöðin fái 878.1 m. kr. í fjárlögum fyrir árið 2026 sem er 53.3 m.kr meira en árið 2025. Af þeirri upphæð má reikna með að ríflega 30 m.kr. fari í að halda í við 4% verðbólgu. Til að vinna löngum biðlistum eftir greiningu og þjónustu er afar brýnt að auka fjármagn til muna.
Aðgengi fatlaðs fólks að geðheilbrigðisþjónustu
Staða fatlaðs fólks (barna og fullorðinna) með þroskahömlun, einhverfu og skyldar fatlanir hvað varðar aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu á Íslandi er mikið áhyggjuefni og hefur verið gagnrýnt af hagsmunasamtökum, fagfólki, fræðasamfélagi og opinberum eftirlitsaðilum. Fólk með þroskahömlun eða einhverfu sem glímir við geðrænan vanda á mjög erfitt með að fá viðeigandi þjónustu innan hefðbundinnar geðheilbrigðisþjónustu og fá sérhæfð úrræði eru í boði. Engin áform eru í fjárlagafrumvarpi 2026 um að tryggja fjármagn til sérhæfðra úrræða og þverfaglegra teyma fyrir þennan hóp.
Inngildandi menntun á öllum skólastigum
Menntun er einn af lykilþáttum mannréttinda fatlaðs fólks. Það er áhyggjuefni að æ oftar heyrist sú skoðun að hverfa eigi frá stefnunni um skóla án aðgreiningar, sem er ekki valkostur í ljósi þess að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem kveður skýrt á um skólastarf án aðgreiningar þar sem stuðningsþörf allra nemenda er mætt, verður senn lögfestur á Íslandi. Það er áhyggjuefni að hvergi er fjallað um skóla án aðgreiningar eða hvernig á að tryggja að skólakerfið mæti þörfum allra barna og tryggi þann stuðning og þjónustu sem börn eiga rétt á.
Fjárlög þurfa að tryggja nægt fjármagn til kennslu, stuðnings og viðeigandi úrræða á öllum skólastigum og stórauka þarf samtal og samstarf um inngildandi skólastarf. Á sama tíma og kallað er eftir meira fjármagni og stuðningi er gert ráð fyrir lækkun fjárframlaga til reksturs á leikskóla- og grunnskólastig fyrir árið 2026, 69 m.kr minna en fyrir árið 2025.
Samtökin fagna áformum um að gera háskólastarf meira inngildandi en leggja áherslu á að því verkefni fylgi fjármagn og markviss áætlun sem unnin er í samvinnu við hagsmunasamtök fatlaðs fólks.
Húsnæðismál fatlaðs fólks
Samkvæmt skýrslu sem félags- og húsnæðismálaráðuneytið lét gera árið 2024 voru fjögurhundurð og fimmtíu einstaklingar á biðlista eftir viðeigandi búsetu. Mikilvægt er að stjórnvöld geri kostnaðarmetna áætlun um hvernig leysa á úr húsnæðisvanda fatlaðs fólks í samráði við hagsmunasamtök og aðra hagaðila. Með því að gera slíka áætlun má koma í veg fyrir að málaflokkurinn hverfi inn í almenna húsnæðisliði fjárlaga og tryggja að raunhæf umbótaverkefni verði sett í framkvæmd.
Atvinnuþátttaka fatlaðs fólks
Nýja örorkulífeyriskerfinu er ætlað að bæta afkomu og hvetja til atvinnuþátttöku. Fjárlög þurfa að tryggja stuðningsaðgerðir, endurhæfingu, menntun og hvata fyrir atvinnurekendur, svo fleiri fatlaðir einstaklingar geti tekið þátt á vinnumarkaði. Þá er brýnt að fara í skipulagt samráð við hagsmunasamtök og vinnumarkaðinn um fjölgun starfa, ekki síst hlutastarfa, fyrir fatlað fólk.
Mikilvægt er að gæta jafnræðis í stuðning við fatlað fólk á vinnumarkaði hvort sem viðkomandi er á örorku eða hluta-örorku.
Stafrænt aðgengi
Í fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2026 er fjallað um ýmis stafræn verkefni og þjónustulausnir stjórnvalda (s.s. stafrænt pósthólf, „Mínar síður“, rafræna þjónusta í heilbrigðis- og menntakerfi o.fl.). Hins vegar er ekki fjallað sérstaklega um þarfir og hagsmuni fatlaðs fólks þegar kemur að stafrænu aðgengi þrátt fyrir að stafrænar hindranir sem fatlað fólk stendur frammi fyrir séu þekktar og hagsmunasamtök fatlaðs fólks hafi í mörg ár átt í samtali við stjórnvöld um þær miklu áskoranir sem því fylgja. Þar á meðal alvarlegar afleiðingar þess að sumt fatlað fólk fær ekki úthlutað rafrænum skilríkjum og hefur því verulega skert aðgengi að mikilvægum upplýsingum og þjónustu. Þá hafa bæði umboðsmaður Alþingis og Persónuvernd gert athugasemdir við þá mismunun sem felst í ójöfnu aðgengi að rafrænum skilríkjum. Það veldur því vonbrigðum að ekki sé vikið að þessu mikilvæga verkefni, sem krefst samstarfs þvert á ráðuneyti og stofnanir ríkisins og mikilvægt er að vinna í nánu samstarfi við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess.
Mannréttindastofnun Íslands
Á vormánuðum 2025 tók Mannréttindastofnun Íslands til starfa sem var mikið heillaskref að mati Þroskahjálpar. Það vekur þó áhyggjur hversu naumt fjármagn stofnunni er skammtað miðað við gríðarlega víðfemt hlutverk sem henni er ætlað að sinna. M.a. hefur stofnunin tekið við rekstri réttindagæslunnar og hefur það hlutverk að hafa eftirlit með framfylgd mannréttinda fatlaðs fólks, auk fjölda annarra verkefna á sviði mannréttindamála. Árið 2024, sem var síðast heila árið sem Réttindagæsla fyrir fatlað fólk starfaði með hefbundnum hætti undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, gerði frumvarp til fjárlaga ráð fyrir 136 m.kr framlagi. Í áætlunum fyrir réttindagæsluna 2025–2026 er gert ráð fyrir fjárþörf upp á ríflega 180 m.kr.
Heildarfjármagn sem fjárlagafrumvarp 2026 gerir ráð fyrir í rekstur Mannréttindastofnunar er 265.7 m.kr. Að mati Þroskahjálpar er mikilvægt að skýra mun betur hvaða fjármagn Réttindagæslan mun hafa til ráðstöfunar til að sinna verkefnum sínum sem metið hefur verið á ríflega 180 milljónir, sem er tæplega 70% af því heildarfjármagni sem Mannréttindastofnun er úthlutað.
Íþrótta- og æskulýðsmál
Í kafla um íþrótta- og æskulýðsmál er ekki fjallað um aðgengi fatlaðra barna að íþróttum og tómstundum eða settar fram aðgerðir til að bregðast við því að aðeins 4% fatlaðra barna stunda íþróttir samkvæmt úttekt verkefnisstjóra verkefnisins Allir með! sem hefur það að markmiði að fjölga tækifærum fatlaðra barna til íþróttaiðkunar. Ljóst er að stórátak þarf til að jafna aðgengi barna að íþróttastarfi og miður að ekki sé gert ráð fyrir framlögum til þess í fjarmálaáætlun.
Fræðsla og vitundarvakning innan stofnana ríkisins
Lögfesting samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks kallar á markvissa fræðslu fyrir opinbera starfsmenn og vitundarvakningu um samninginn og réttindi fatlaðs fólks í samfélaginu. Fjárlög þurfa að gera ráð fyrir fjármagni í fræðsluátak og stuðningi við hagsmunasamtök fatlaðs fólks sem gegna mikilvægu hlutverki í því verkefni.
Samráð og stuðningur við hagsmunasamtök fatlaðs fólks
Í framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks 2024 – 2026 er fjallað ítarlega um skyldu stjórnvalda til samráðs við hagsmunasamtök fatlaðs fólks á grundvelli samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þrátt fyrir að fjöldi aðgerða í áætluninni kalli á umtalsvert vinnuframlag af þeirra hálfu, m.a. við verkefni sem tilgreind eru í fjármálaáætlun, er hvergi fjallað um styrki til heildarsamtaka fatlaðs fólks í áætluninni. Mikilvægt er að stjórnvöld styðji fjárhagslega við heildarsamtök fatlaðs fólks til að gera þeim mögulegt að veita lögbundið samráð, sem aftur gerir stjórnvöldum mögulegt að standa við skulbindingar um samráð. Gera þarf ráð fyrir fjárhagslegum stuðningi utan hefðbundinna velferðarstyrkja eða styrkjum af safnaliðum í ljósi þess sérstaka hlutverks sem heildarsamtök fatlaðs fólks gegna gagnvart stjórnvöldum. Leiðrétta þarf ójafnræði í fjárhagsstuðningi við heildarsamtök fatlaðs fólks á Íslandi: Þroskahjálp hefur undanfarin ár fengið velferðarstyrk frá félags- og húsnæðismálaráðuneytinu sem samsvarar um 1% af því fjármagni sem sem ÖBÍ – réttindasamtök fá úthlutað í gegnum Íslenska getspá á ársgrundvelli. Þroskahjálp styður heilshugar við starf ÖBÍ en bendir á að samtökin vinna með réttindi og hagsmuni mismunandi hópa að leiðarljósi og er mismunun í fjárframlögum því í raun mismunun gagnvart fötluðu fólki. Brýnt er að tryggja Þroskahjálp hærra framlag til jafnræðis, ekki síst í ljósi þess að stjórnvöld gera sambærilegar kröfur um samstarf og samráð við bæði samtökin.
Samantekt og lokaorð
Þrátt fyrir aukin framlög til málefnasviðsins „Örorka og málefni fatlaðs fólks“ í fjárlögum 2026 vantar að skýrar aðgerðir séu fjármagnaðar í þágu réttinda fatlaðs fólks. Kjarni samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er sá að fatlað fólk á að njóta sömu mannréttinda og allir aðrir og að fjarlægja þurfi hindranir í samfélaginu svo fatlað fólk geti í raun og veru notið réttinda sinna og tækifæra. Þetta kallar á aðgerðir og vinnu af hálfu allra ráðuneyta og annarra hagaðila við stefnumótun, áætlanagerð og framkvæmd verkefna. Mannréttindi fatlaðs fólks þarf að samþætta í öll verkefni og fjárveitingar ríkisins. Einnig er forgangsmál að jafna fjárhagslegan stuðning við heildarsamtök fatlaðs fólks til að tryggja jafnt samráð við alla hópa fatlaðs fólks eða heildarsamtök sem koma fram fyrir þess hönd.
Þegar skortur á þjónustu við fatlað fólk (börn og fullorðna) viðgengst og réttindi þess eru ekki uppfyllt, hefur það keðjuverkandi áhrif:
- Löng bið eftir greiningu og skortur á stuðningi og þjónustu við börn kemur niður á innleiðingu skóla án aðgreiningar og veldur því að börn fá ekki þann stuðning í námi sem þau eiga rétt á.
- Skortur á aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með þroskahömlun, einhverfu og skyldar fatlanir veldur álagi á önnur stuðningskerfi, s.s. félagsþjónustu og barnavernd.
- Takmarkað aðgengi að menntun og vinnumarkaði skerðir lífsgæði og kemur í veg fyrir að fatlað fólk geti tekið virkan þátt í atvinnulífi og verkefnum samfélagsins.
- Skortur á viðeigandi húsnæði, lélegt aðgengi og skortur á aðgengilegum samgöngum leiðir til félagslegrar einangrunar og vinnur gegn réttinum til sjálfstæðs lífs.
- Skortur á stafrænu aðgengi að upplýsingum og þjónustu á aðgengilegu formi hindrar þátttöku í samfélaginu og skerðir lögbundna og í sumum tilfellum lífsnauðsynlega þjónustu,
- Skortur á fræðslu og vitundarvakningu um stöðu, þarfir og réttindi fatlaðs fólks í stjórnkerfinu gerir það að verkum að jafnvel þegar fjárveiting er til staðar, nýtist fjármagnið ekki alltaf til að tryggja jafnan aðgang og mannréttindi fatlaðs fólks.
Það er því ekki einungis réttlætismál að endurskoða fjármálaáætlun 2026 með mannréttindi fatlaðs fólks að leiðarljósi, heldur er það einnig efnahagslega hagkvæm ráðstöfun. Rannsóknir og reynsla sýna að þegar mannréttindi fatlaðs fólks eru virt og þeim tryggð sú þjónusta sem það á rétt á:
- minnkar álag a samfélagsleg kerfi, s.s. félagsþjónustu, réttindagæslu og barnavernd,
- aukast líkur á atvinnuþátttöku og framlegð til samfélagsins,
- eykst félagsleg virkni og þátttaka sem dregur úr einangrun og þörf fyrir félagslegan stuðning,
- nýtur samfélagið í heild ávinnings af fjölbreyttri þátttöku og hæfileikum fleiri einstaklinga.
Í ljósi nýlegra breytinga á örorkulífeyriskerfinu og fyrirliggjandi lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks leggur Þroskahjálp því ríka áherslu á að fjárlög 2026 verði ekki aðeins tæki til að fjármagna takmarkaða þjónustu, heldur einnig skýrt stefnumótandi skjal sem tryggir að öll ráðuneyti vinni markvisst að því að fjarlægja hindranir og skapa jöfn tækifæri í samfélaginu fyrir öll – líka fatlað fólk.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar.
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar.
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.