Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að tillögu til þingsályktunar um forvarnaáætlun gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni meðal barna og ungmenna, fyrir árin 2026-2030

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að tillögu til þingsályktunar um forvarnaáætlun gegn kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni meðal barna og ungmenna, fyrir árin 2026-2030

 

26 janúar 2026

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á öll fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Samningurinn var lögfestur í desember sl.  með lögum nr. 80/2025 og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.

Í samningnum eru mörg ákvæði, sem hafa mikla þýðingu m.t.t. þeirra áætlunardraga sem hér eru til umsagnar, s.s. í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar meginreglur, 5. gr. sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun7. gr. sem hefur yfirskriftina Fötluð börn og 16. gr. sem hefur yfirskriftina Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum.

Í 4. gr. samningsins segir m.a.:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
         c)          að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, ...

Og í 3. mgr. 4. gr. samningsins segir:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Með vísan til þess, sem að framan er rakið og þeirrar staðreyndar, sem allar rannsóknir staðfesta, að fötluð börn og ungmenni eru sérstaklega berskjölduð fyrir ofbeldi og áreitni af öllu tagi, þ.m.t. kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi og áreitni, vilja Landsamtökin þroskahjálp á þessu stigi koma eftirfarandi ábendingum, tillögum og athugasemdum á framfæri við dómsmálaráðuneytið en áskilja sér rétt til að frekara samráðs við ráðuneytið og eftir atvikum við þingnefnd og Alþingi á síðari stigum.   

Þroskahjálp telur mjög brýnt að sjónarmið fatlaðra barna og ungmenna séu skýrt samþætt í öllum þáttum áætlunarinnar, bæði í forvörnum, fræðslu og viðbragðsferlum. Mögulega þarf að skrifa félags- og húsnæðismálaráðuneytið inn í ályktunina og fela því ábyrgð á því að allar aðgerðir taki mið af hagsmunum og réttindum fatlaðra barna til jafns við önnur börn.

  1. Fötluð börn og ungmenni

Þroskahjálp leggur sérstaka áherslu á að allar aðgerðir innan forvarnaáætlunarinnar séu aðgengilegar fötluðum börnum og ungmennum og taki mið af ólíkum aðstæðum og þörfum þeirra. Rannsóknir og reynsla sýna að fötluð börn og ungmenni eru í aukinni hættu á að verða fyrir kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni og eru oft jaðarsett þegar kemur að forvörnum, upplýsingum og úrræðum.

Aðgengi að fræðslu: Fræðsluefni, námskeið og forvarnaverkefni í skólum, frístundastarfi og á stafrænum vettvangi verður að vera aðgengilegt öllum fötluðum börnum og ungmennum, þar með talið börnum og ungmennum með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir.

Aðgengileg miðlun: Tryggja þarf að fræðsluefni sé aðgengilegt á mismunandi formum, svo sem með textun, táknmáli, á auðlesnu máli og í myndrænu efni, eftir þörfum.

2. Stafrænt ofbeldi og fötluð börn og ungmenni

Í tillögunni er m.a. fjallað um stafrænt kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni gegn börnum og ungmennum. Þroskahjálp telur mjög mikilvægt að þar sé sérstaklega horft til stöðu fatlaðra barna og ungmenna, sem geta verið í sérstakri áhættu vegna minni stafrænnar færni, skorts á aðgengilegum upplýsingum og/eða vegna fötlunar sinnar.

Sértækar leiðbeiningar til foreldra, forsjáraðila og fagfólks þurfa að taka mið af mismunandi forsendum fatlaðra barna og ungmenna til að greina ofbeldi, setja mörk og leita aðstoðar.

Nauðsynlegt er að starfsfólk í skóla-, frístunda- og tómstundastarfi fái markvissa fræðslu og þjálfun í að greina og bregðast við stafrænu ofbeldi og áreitni gagnvart fötluðum börnum og ungmennum.

3. Innleiðing og framkvæmd

Þroskahjálp fagnar því að gert sé ráð fyrir samhæfðri innleiðingu, stýrihópi og mælikvörðum til eftirfylgdar. Samtökin leggja þó ríka áherslu á að fulltrúar samtaka sem vinna sérstaklega að réttindum fatlaðra barna og ungmenna  taki virkan þátt í samráði og eftirfylgd með framkvæmd áætlunarinnar.

4. Tillögur Þroskahjálpar

Þroskahjálp leggur til eftirfarandi úrbætur á tillögunni:

Skýrari umfjöllun um fötluð börn og ungmenni: Að í öllum köflum áætlunarinnar verði skýrt hvernig tekið er tillit til stöðu, réttinda, hagsmuna og þarfa fatlaðra barna og ungmenna.

Kerfisbundið aðgengi: Að settar verði skýrar kröfur um aðgengi í allri fræðslu og forvarnaefni sem unnið er á grundvelli áætlunarinnar.

Mælikvarðar og gagnasöfnun: Að þróaðir verði mælikvarðar sem gera mögulegt að meta sérstaklega árangur forvarna og aðgerða gagnvart fötluðum börnum og ungmennum.

 

Virðingarfyllst.

Guðmundur Ármann Pétursson, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér