Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um útlendingamál.

Sameinuðu þjóðirnar hafa áætlað að u.þ.b. sjöundi hver einstaklingur sé með fötlun af einhverju tagi.[1] Þá er talið að fyrir hvern einstakling sem deyr af völdum vopnaðra átaka skaðist þrír einstaklingar þannig að það leiði til fötlunar þeirra.

Í 11. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið fullgilti sl. haust segir:

Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar að þjóðarétti, þar með talið alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja að fatlað fólk njóti verndar og öryggis þegar hættuástand ríkir, að meðtöldum vopnuðum átökum, neyðarástandi sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamförum. 

Þá segir í 13. gr. samningsins að ríki skuli tryggja að fatlað fólk nái rétti sínum til jafns við aðra meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.

Setning reglna varðandi málsmeðferð, undirbúning ákvarðana og ákvarðanatöku sem varðar mál hælisleitenda og flóttafólks fellur augljóslega undir þessar skyldur stjórnvalda.

Í 4. gr. samningsins  sem ber yfirskriftina „Almennar skuldbindingar“ segir:

1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og grundvallarfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 

Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til: 

a) að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að innleiða þau réttindi, sem eru viðurkennd með samningi þessum,

b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,

 

c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanir, 

d) að láta hjá líða að aðhafast nokkuð það sem fer í bága við samning þennan og sjá til þess að opinber yfirvöld og stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans, ... 

Landssamtökin Þrosjkahjálp leggja mjög mikla áherslu á að íslensk stjórnvöld gæti þess sérstaklega að reglur sem þau setja varðandi varðandi málsmeðferð, undirbúning ákvarðana og ákvarðanatöku sem varðar mál hælisleitenda og flóttafólks, þ.m.t. kvótaflóttafólks, taki mið af þessum skyldum sem þau hafa undirgengist með fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Í því sambandi þarf að líta til þess að fatlað fólk er afar berskjaldað við aðstæður sem leiða til að fólk flýr heimili sín og heimalönd og leitar hælis annars staðar. Reynslan sýnir að þegar fólk flýr t.a.m. stríðsátök er mikil hætta á að það sé hreinlega skilið eftir eða fari á mis við þá aðstoð sem veitt er flóttafólki. Vegna fötlunar sinnar á það erfiðara með að leita skjóls en annað fólk og þarf að þola ofbeldi og misnotkun af ýmsu tagi. Fatlað fólk, sem missir aðstandendur sína eða verður viðskila við þá á stríðstímum,  einangrast mjög oft og fær ekki lágmarksstuðning.

Þegar fatlað fólk nær, þrátt fyrir allar þær miklu hindranirnar sem mæta því, að flýja stríðshörmungar eða ofsóknir og leita skjóls í öðrum löndum fær það allt of oft lítinn eða engan stuðning. Og ekki nóg með það. Fatlað fólk þarf oft að takast á við mikla fordóma í samfélagnu sem það hefur leitað skjóls í því að það er talið minna virði en aðrir vegna fötlunarinnar og jafnvel er litið á það sem byrði sem samfélagið þarf helst að losna við.

Það er því mikil þörf á að vekja sérstaka athygli á að ríki þar sem flóttafólk leitar skjóls eru samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum skuldbundin til að taka sérstakt tillit til fatlaðs fólks, aðstæðna þess og þarfa fyrir sérstaka vernd og stuðning.

Þá vilja samtökin sérstaklega minna íslensk stjórnvöld á að þeim er skylt að veita börnum sérstaka vernd og stuðning samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið tekinn í íslensk lög. Í Barnasáttmálanum sem og í samningnum um réttindi fatlaðs fólks er mikil áhersla lögð á skyldu ríkja til að veita börnum sem eru á flótta góða go víðtæka vernd og til að taka sérstakt tillit til þarfa og aðstæðna fatlaðra barna og barna sem glíma við alvarleg veikindi og til að veita þeim viðeigandi stuðning.

Þessi skylda íslenskra stjórnvalda til að veita fötluðu fólki sem leitar skjóls hér á landi vernd og og viðeigandi stuðning  á við hvort sem um er að ræða flóttafólk sem hér leitar skjóls eða svokallað kvótaflóttafólk sem íslensk stjórnvöld í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir bjóða skjól hér á landi. Við allar ákvarðanir varðandi kvótaflóttafólk þarf að gæta þess sérstaklega að fötluðu fólk bjóðist sú vernd og nauðsynlegur stuðningur alls ekki síður en öðru flóttafólki.

Landssamtökin Þroskahjálp telja nauðsynlegt og skora á ráðuneytið að fara sérstaklega yfir ákvæði draga að reglugerð um útlendingamál til að tryggja að þau uppfylli vel og greinilega kröfur sem leiða af framangreindum skyldum þeirra samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og hafa þar til hliðsjónar þær staðreyndir og sjónarmið sem að framan er lýst. Samtökin hvetja einnig eindregið til til að það verði jafnframt gert hvað varðar Viðmiðunarreglur flóttamannanefndar um móttöku og aðstoð við hópa flóttafólks og Leiðbeinandi reglur fyrir sveitarfélög um móttökuþjónustu og aðstoð við félagslega þátttöku flóttafólks og aðrar reglur og leiðbeiningar sem stjórnvöld setja og gefa útog varðar hagsmuni og réttindi hælisleitenda og flóttafólks.

19. febrúar 2017,

Bryndís Snæbjörndsdóttir, formaður.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri.



[1] http://www.unhcr.org/people-with-disabilities.html