Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um samþætt sérfræðimat.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um samþætt sérfræðimat.

12. ágúst 2025

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og frumvarp um lögfestingu samningsins hefur verið til meðferðar á Alþingi og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans. Í 28. gr. samningsins er mælt fyrir um skyldu ríkja til  að  tryggja fötluðu fólki viðunandi lífskjör og félagslega vernd.

Landsamtökin Þroskahjálp fagna þeim breytingum, sem gerðar hafa verið á örorku- og endurhæfingarkerfinu og taka munu gildi 1. september nk. og þeim áformum að kerfið verði einfaldað og þannig gert notendavænna fyrir fatlað fólk og aðstandendur þess.

Í reglugerðardrögunum um samþætt sérfræðimat er gert ráð fyrir að Tryggingastofnun skuli „leggja einstaklingsbundið og heildrænt mat á áhrif heilsu, fötlunar, færni og aðstæðna umsækjanda, svo sem persónulegra, félagslegra og umhverfislegra, á getu hans til virkni á vinnumarkaði á grundvelli fyrirliggjandi gagna.“ Þetta eru breytingar til batnaðar frá núgildandi kerfi þar sem byggt er á læknisfræðilegum forsendum.

Samtökin leggja áherslu á að Tryggingastofnun geti vikið frá skilyrði um að niðurstaða samþætts sérfræðimats liggi fyrir áður en ákvörðun er tekin um greiðslu örorkulífeyris sé slíkt mat bersýnilega óþarft að mati stofnunarinnar. Sá hópur sem hér er einkum horft til eru fötluð eða langveik ungmenni sem Tryggingastofun hefur greitt umönnunargreiðslur vegna.

Einnig er mjög mikilvægt að mælt skuli fyrir um að samþætta sérfræðimati skuli endurskoðað svo oft sem þurfa þykir en þó aldrei sjaldnar en á árs fresti.

Landssamtökin þroskahjálp lýsa miklum vilja til virks og náins samráðs við félags- og húsnæðismálaráðuneytið við það mikilvæga verkefni sem hér er til umsagnar og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér