Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um húsnæðisáætlanir sveitarfélaga.

1. gr. reglugerðardraganna segir m.a. varðandi gerð húsnæðisáætlana og mat og greiningar sem skal gera til að byggja þær áætlanir á: 

Þá skal meta þörf fyrir húsnæði til að mæta þörfum einstakra hópa s.s. fatlaðs fólks, aldraðra, tekju- og eignaminni og námsmanna, auk húsnæðisþörf á almennum markaði. (Undirstr. Þroskahjálpar)

 Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða öll ákvæði hans og framfylgja þeim á öllum þeim sviðum sem samningurinn nær til. 

Í 3. mgr. 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar meginreglur segir um skyldur stjórnvalda til samráðs við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess:

 Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

 Í samningi SÞ eru mörg ákvæði sem lúta að rétti fatlaðs fólks til sjálfstæðs og eðlilegs lífs, án aðgreiningar og skyldu stjórnvalda til að gera það sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að því. Samningurinn leggur því mikla áherslu á skyldu stjórnvalda til að gera fötluðu fólki kleift til að eignast heimili. Bein ákvæði varðandi það er m.a. að finna í 19. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu. Þar segir:

  Aðildarríkin að samningi þessum viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í sam­félaginu og til að eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi njóta þessa réttar til fulls og til þess að stuðla að fullri aðild að og þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja: 
     a)      að fatlað fólk hafi tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir,
 (Undirstr. Þroskahjálpar)
...

 

Í 28. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd, segir:

 

     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara því til handa, einnig til viðunandi fæðis og klæða og fullnægjandi húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar vegna fötlunar. 
     2.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til félagslegrar verndar og til þess að njóta þess réttar án mismununar vegna fötlunar og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika, einnig ráðstafanir: 
...
       d)      til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að húsnæðiskerfi á vegum hins opinbera, 
 ... (Undirstr. Þroskahjálpar)

9. gr. laga nr. 38/20018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, hefur yfirskriftina Búseta og hljóðar svo:


     Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu. Um húsnæði fyrir fatlað fólk gilda ákvæði skipulags- og byggingarlaga, lög um húsnæðismál og lög um almennar íbúðir, eftir því sem við á. 
     Fatlað fólk á rétt á því að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra. Óheimilt er að binda þjónustu við fatlað fólk því skilyrði að það búi í tilteknu búsetuformi. 
     Ráðherra setur reglugerð um sérstök húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk, m.a. um fjölda samliggjandi íbúða, einkarými, viðbótarrými vegna fötlunar og sameiginleg rými.

1. gr. laga 38/2018 hefur yfirskriftina Markmið. Þar segir í 3. mgr.:

Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. hagsmunasamtök þess, hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þess. (Undirstr. Þroskahjálpar)

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið telja Landssamtökin Þroskahjálp augljóst að sú skylda hvílir á íslenskar ríkinu samkvæmt lögum og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið hefur fullgilt að tryggja með fullnægjandi og skýrum reglum að sveitarfélög hafi náið samráð við fatlað fólk við mat, greiningar og áætlanir í húsnæðismálum sem varða fatlað fólk. Samtökin skora því á velferaðrráðuneytið að setja skýrt ákvæði í þessa reglugerð varðandi þá skyldu sveitarfélaga.