Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um fyrirkomulag og framkvæmd samræmds námsmats í grunnskólum
26. janúar 2026
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á öll fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og / eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem var lögfestur í desember sl., sbr. lög nr. 80/2025, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Tækifæri til menntunar, án mismununar og / eða aðgreiningar og réttur til viðeigandi aðlögunar er grundvallarþáttur í samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 24. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Menntun og 5. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun.
Í 4. og 6. almennu athugasemdum (e. General Comments) nefndar samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks er fjallað um 24. og 5. gr. samningsins (sjá hlekki að neðan).
https://docs.un.org/en/CRPD/C/GC/4
https://docs.un.org/en/CRPD/C/GC/6
7. gr. samningsins hefur yfirskriftina Fötluð börn. Þar segir:
1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.
2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. ...
Landssamtökin Þrosakhjálp vísa til þess, sem að framan er rakið og taka mjög eindregið undir þær ábendingar og áhyggjur, sem lýst er í umsögn ÖBÍ réttindasamtaka, dags. 19. janúar 2025 og umsögnum annarra um reglugerðardrögin, að birting niðurstaðna eftir skólum og sveitarfélögum geti skapað hvata til að draga úr þátttöku fatlaðra barna í samræmdu námsmati og að undanþágum verði beitt í stað raunverulegrar viðeigandi aðlögunar.
Þá telja samtökin að birting niðurstaðna sé til þess fallin að ýta undir fordóma gagnvart jaðarsettum hópum fólks, sveitarfélögum, hverfum og skólum.
Landssamtökin Þroskahjálp taka einnig heils hugar undir aðrar athugasemdir og ábendingar í fyrrnefndri umsögn ÖBÍ réttindasamtaka um reglugerðardrögin.
Samtökin lýsa miklum áhuga og vilja til náins og virks samráðs við mennta- og barnamálaráðuneytið varðandi þau mál sem hér eru til umjöllunar og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sbr. lög nr. 80/2025, sem hljóðar svo:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst.
Guðmundur Ármann Pétursson, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.