Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að frumvarpi til laga um breytingar á sveitarstjórnarlögum og lögum um tekjustofna sveitarfélaga.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja benda á eftirfarandi atriði, sjónarmið og rök sem að þeirra mati hafa þýðingu varðandi frumvarpið og óska eftir að til þeirra verði litið við meðferð þess hjá ráðuneyti og Alþingi.

Vandséð er að fámenn sveitarfélög hafi burði og aðstæður til að bjóða upp á margbreytilega og stundum mjög sérhæfða þjónustu sem þeim ber að gera samkvæmt lögum og reglum um þjónustu við fatlað fólk.

Mjög mikilvægt er að sveitarfélög hafi yfir að ráða fjölbreyttum þjónustuúrræðum og nauðsynlegri sérþekkingu í málaflokknum til þess að geta sinnt margbreytilegri þjónustu við fatlað fólk. Faglegur viðbúnaður þarf að vera til staðar svo að unnt sé að mæta þeim þjónustuþörfum sem fyrir hendi eru með tiltölulega skömmum fyrirvara, svo sem vegna fæðingar fatlaðs barns eða flutnings fatlaðs einstaklings í sveitarfélag.

Þá er nauðsynlegt að líta til þess að í lögum um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, eins og þau eru eftir síðustu breytingar sem gerðar voru á þeim, eru mikilvæg nýmæli sem styrkja rök fyrir nauðsyn þess að sveitarfélög séu nægilega fjölmenn og burðug. Þar má nefna ákvæði um skyldur til að hafa starfsfólk með tiltekna fagmenntun. Fullt tilefni til að hafa af því áhyggjur að það kunni að vera erfitt fyrir fámenn sveitarfélög að hafa starfsfólk í þjónustu sinni sem býr yfir fullnægjandi og sérhæfðri menntun og þekkingu sem nauðsynleg er og krafa er gerð um í nefndum lögum.

Þá má í þessu sambandi einnig nefna ákvæði um notendaráð og notendasamráð og um þjónustuteymi með fullnægjandi sérfræðiþekkingu. Augljóst er að til að geta uppfyllt þessi skilyrði og skyldur sem af þeim leiða svo vel sé er afar æskilegt að sveitarfélög séu ekki of fámenn.

Og síðast en ekki síst. Þegar sveitarfélög eru mjög mörg og misburðug verður en örðugra en nú er fyrir ríkið að standa við þá lagalegu skyldu sína að tryggja jafnræði og samræmi milli búsetusvæða fatlaðs fólks. Í því sambandi verður að líta til þess að það er alvarlegt brot gegn mannréttindum ef íbúum landsins er mismunað á grundvelli búsetu hvað varðar þjónustu þar sem í húfi eru mjög miklir hagsmunir og réttindi þeirra sem hlut eiga og mjög oft er þjónustan forsenda þess að þeir sem á henni þurfa að halda fái notið mikilsverðra mannréttinda í skilningi laga. Einnig verður í þessu sambandi að líta til þess að ósamræmi og/eða ójafnræði á milli búsetusvæða að þessu leyti vegur einnig mjög alvarlega að tækifærum fatlaðs fólks til að flytjast á milli svæða og mest að tækifærum þeirra sem hafa miklar þjónustuþarfir vegna fötlunar sinnar og eru því mest háðir þjónustunni. Rétturinn til að ráða búsetu sinni er mannréttindi í skilningi stjórnarskrár og mannréttindasamninga sem íslenska ríkið hefur fullgilt. Eftir því sem „þjónustueiningarnar“ verða fleiri eykst hætta á ósamræmi milli þeirra eðli máls samkvæmt.

Nálgast má málið sem umsögnin á við hér