Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2026–2029
22. september 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Samtökin fagna því og styðja heils hugar að samþykkt verði aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks 2026-2029 en telja rétt og skylt og nauðsynlegt að þar verði sérstaklega litið til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks. Í því sambandi árétta samtökin sérstaklega skyldur íslenska ríkisins samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur, stjórnarfrumvarp um lögfestingu samningsins var til meðferðar á síðasta þingi og nú hefur félags- og húsnæðismálaráðherra lagt fram á Alþingi frumvarp um lögfestingu hans og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu samningnum.
4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:
a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð, ...
Í samningnum er lögð mikil áhersla á skyldur ríkja til að gera viðeigandi ráðstafanir til að verja fatlað fólk fyrir fjölþættri mismunun. Í formálsorðum samningsins segir:
Ríki, sem eiga aðild að samningi þessum,sem hafa áhyggjur af erfiðum aðstæðum fatlaðs fólks sem sætir fjölþættri eða aukinni mismunun á grundvelli kynþáttar, litarháttar, kynferðis, tungumáls, trúarbragða, stjórnmálaskoðana eða annarra skoðana, þjóðlegs, þjóðernis eða félagslegs uppruna eða frumbyggjauppruna, eigna, ætternis, aldurs eða annarrar stöðu. (Undirstr. Þroskahj.)
Rannsóknir sýna og sanna að hinsegin fatlað fólk verður fyrir meira ofbeldi og alls kyns áreiti en aðrir þjóðfélagshópar. Sjá í því sambandi á hlekkjum að neðan yfirlýsingu óháðra sérfræðinga Sameinuðu þjóðanna (UN Independent Expert on Protection Against Violence and Discrimination Based on Sexual Orientation and Gender Identity og UN SR on the Rights of Persons with Disabilities) og skýrslu, sem birtist á heimasíðu European Disability Forum (EDF) 8. desember 2023.
https://www.ohchr.org/sites/default/files/documents/issues/sexualorientation/statements/2023-10-24-joint-stm-SOGI-disabilities.pdf
https://www.edf-feph.org/report-lgbti-persons-with-disabilities-face-disproportionate-violence-harassment-barriers-to-healthcare/
í samningi SÞ um réttindi fatlað fólks eru ýmis ákvæði, sem hafa verulega þýðingu m.t.t. aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks og aðgerðaáætlunar í málefnum hinsegin fólks, s.s. í 5. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun, í 17. gr. sem hefur yfirskriftina Verndun friðhelgi einstaklingsins, í 16. gr. sem hefur yfirskriftina Frelsi frá misnotkun gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, í 22. gr. sem hefur yfirskriftina Virðing fyrir einkalífi, í 23. gr. sem hefur yfirskriftina Virðing fyrir heimili og fjölskyldu og í 25. gr. sem hefur yfirskriftina heilbrigði.
Með vísan til þess sem að framan er rakið beina Landssamtökin Þroskahjálphjálp þeim eindregnu tilmælum til dómsmálaráðuneytisins að fara gaumgæfilega yfir þau drög að aðgerðaáætlun til að tryggja að þar verði tekið nauðsynlegt og fullnægjandi tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda hinsegin fatlaðs fólks og ákvæða samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, eins og íslenska ríkinu er skylt að gera, sbr. 4. gr. samningsins sem vitnað er til að framan. Samtökin lýsa miklum áhuga og vilja til náins og virks samráðs við dómsmálaráðuneytið við það mikilvæga verkefni og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samningsins, sem hljóðar svo:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálp
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér