Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um heilbrigðisþjónustu (hækkun almenns frítekjumarks ellilífeyris o.fl.), 269. mál
5. desember 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Samningurinn hefur nú verið lögfestur, sbr. lög nr. 80/2025 og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.
Í 28. gr. samningsins hefur yfirskriftina Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd segir m.a.:
Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks og fjölskyldna þess til viðunandi lífskjara, þar á meðal viðunandi fæðis, klæða og húsnæðis, og til sífellt batnandi lífsskilyrða og skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja og stuðla að því að þessi réttur verði að veruleika án mismununar á grundvelli fötlunar.
Samtökin lýsa stuðningi við það ákvæði frumvarpins að bundið verði í lög að aldursviðbót á lífeyri örorkulífeyristaka haldist ævilangt.
Markmið stjórnvalda hlýtur þó að vera að hækka lífeyri fatlaðs fólks verulega til að leiðrétta það mikla óréttlæti, sem hefur viðgengist og leitt hefur til fátæktar og mjög skertra tækifæra fatlaðs fólks til sjálfstæðs lífs og virkrar þátttöku í samfélaginu, án mismununar og aðgreiningar, sem er eru meginmarkmið samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.
Landssamtökin Þroskahjálp leggja sérstaka áherslu að mjög brýnt er að bæta kjör þess fólks, sem vegna fötlunar sinnar og/eða mjög lítilla eða engra tækifæra á vinnumarkaði, verður að láta örorkubætur duga fyrir allri framfærslu sinni öll sín fullorðinsár. Við endurskoðun á örorkulífeyriskerfi almannatrygginga með lögum nr. 104/2024 var þessi hópur skilinn eftir. Mjög brýnt er aðríkisstjórninog Alþingi bregðist við því mikla óréttlæti.
Samtökin hvetja velferðarnefnd til að fara gaumgæfilega yfir athugsemdir og ábendingar sem fram koma í umsögn ÖBÍ réttindasamtaka, dags. 24. október 2025, um drög að frumvarpi því sem hér er til umsagnar þegar það var í samráðsgátt (Mál nr. S-208/2025).
Þá styðja samtökin kröfu, sem fram kemur í umsögn Landssambands eldri borgara (LEB) um frumvarpið, dags. 2. desember 2025, varðandi hækkun frítekjumarksins.
Virðingarfyllst.
Guðmundur Ármann Pétursson, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.