Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (almenn skráningarskylda leigusamninga og breyting leigufjárhæðar), 108. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994 (almenn skráningarskylda leigusamninga og breyting leigufjárhæðar), 108. mál

 

3. október 2025

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Samtökin reka óhagnaðardrifinn húsbyggingasjóð, sem byggir og kaupir íbúðir sem eru leigðar fötluðu fólki. Tilgangur og markmið sjóðsins er að greiða fyrir að fatlað fólk eigi kost á hentugu húsnæði fyrir leigugjald sem það ræður við. Samtökin eiga nú og reka um 90 íbúðir á nokkrum stöðum á landinu, sem leigðar eru fötluðu fólki samkvæmt ákvörðun viðkomandi sveitarfélaga.

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrri að  hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við velferðarnefnd.

Réttindi fatlaðs fólks til friðhelgi einkalífs, að lifa sjálfstæðu lífi og að velja sér búsetu eru tryggð í ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og með íslenskum lögum. Í 9. gr. laga 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, segir: 

Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu.

Og í ákvæði II til bráðabirgða í lögunum segir:

Fötluðu fólki sem býr nú á stofnunum eða herbergjasambýlum skulu bjóðast aðrir búsetukostir samkvæmt lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim í samræmi við 9. gr.

Lagalegur réttur fatlaðs fólks til þess að hið opinbera tryggi uppbyggingu nægilegs og fullnægjandi húsnæðis fyrir þennan hóp er því mjög skýr, ótvíræður og ríkur. Þrátt fyrir það er staðan í húsnæðismálum fatlaðs fólks algjörlega óásættanleg og óforsvaranleg. Í skýrslu starfshóps um heildarendurskoðun laga nr. 38/2018, frá apríl 2022, kom fram að 486 einstaklingur voru þá á biðlistum eftir sértækri búsetu fyrir fatlað fólk. Samkvæmt áfangaskýrslu II, starfshóps um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga í þjónustu við fatlað fólk, sem skilað var í september 2024 var fjöldinn á þeim biðlistum 452. Allmörg þeirra sem eru á þessum biðlistum hafa verið þar mjög lengi, sem sést ágætlega á meðalaldri þeirra sem eru á biðlistum, en hann er 35 ár. Enn býr fjöldi fatlaðs fólks á herbergjasambýlum, 15 árum eftir að stjórnvöld sjálf settu sér markmið um að loka þess háttar búsetuúrræðum og þá búa um 50 fatlaðir einstaklingar undir 60 ára aldri á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða.

Staða fatlaðs fólks á almennum leigumarkaði er mjög erfið. Samkvæmt niðurstöðu rannsóknar Vörðu rannsóknastofnunar vinnumarkaðarins um stöðu fatlaðs fólks á Íslandi, sem kom út í desember 2023 leigja 20,5% fatlaðs fólks íbúð á almennum leigumarkaði. 25% leigjenda í þeim hópi á erfitt með að ná endum saman og 43% á mjög erfitt með að ná endum saman.

 

Landssamtökin Þroskahjálp styðja markmið frumvarpsins, sem hér er til umsagnar um að stuðla að aukinni langtímaleigu, fyrirsjáanleika um breytingar á leigufjárhæð, betri upplýsingum um leigumarkaðinn og aukið gagnsæi um upplýsingar í leigusamningum.

Samtökin lýsa miklum áhuga og vilja til náins og virks samráðs við félags- og hússnæðismálaráðuneytið, velferðarnefnd og Alþingi um þau brýnu og mikilvægu mál, sem hér fjallað um og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings Sameinuðu Þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.