Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um frumvarp til laga um brottfararstöð
5. ágúst 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.
Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og frumvarp um lögfestingu samningsins hefur verið til meðferðar á Alþingi og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.
Í samningnum er ýmis ákvæði sem hafa verulega þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umsagnar.
4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin,
c) að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð,
d) að aðhafast ekkert það sem fer í bága við samning þennan og sjá til þess að opinber yfirvöld og stofnanir vinni í samræmi við ákvæði hans, ... (Feitletr. Þroskahj.)
5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og hljóðar svo:
1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
4. Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. (Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)
7. gr. samningsins hefur yfirskriftina Fötluð börn. Þar segir:
1. Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn.
2. Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu.
3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll málefni er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefið tilhlýðilegt vægi í samræmi við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er viðeigandi tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika. (Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)
11. gr. samningsins hefur yfirskriftina Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð. Greinin er svohljóðandi:
Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir. (Feitletr. Þroskahj.)
13. gr. samningsins hefur yfirskriftina Aðgangur að réttinum. Þar segir:
1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum til jafns við aðra, meðal annars með að lögun málsmeðferðar og aðlögun með tilliti til aldurs í því skyni að greiða fyrir árangursríkri þátttöku þess, beinni eða óbeinni, þar á meðal sem vitni, í allri málsmeðferð, þ.m.t. á rannsóknarstigi eða öðrum fyrri stigum máls.
2. Í því skyni að tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum skulu aðildarríkin efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, þar á meðal lögreglu og starfsfólk fangelsa. (Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)
14. gr. samningsins hefur yfirskriftina Frelsi og öryggi einstaklingsins og hljóðar svo:
1. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk, til jafns við aðra:
a) njóti réttar til frelsis og persónulegs öryggis,
b) sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða geðþóttaákvörðunum og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.
2. Sé fatlað fólk svipt frelsi sínu á einhvern hátt skulu aðildarríkin tryggja að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og að meðferð þess samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun. Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)
Ekki þarf að hafa mörg orð um að frelsissvipting er mjög alvarlegt inngrip í afar mikilvæg mannréttindi og leiðir beint og óbeint til mikilla og margvíslega skerðinga á mörgum öðrum mikilsverðum mannréttindum. Samtökin telja því bráðnauðsynlegt að við undirbúning og samningu þess frumvarps, sem dómsmálaráðherra hefur áform um að leggja fram og hér eru til umsagnar, verði þess afar vel gætt að lögin og öll framkvæmd þeirra og eftirlit með þeirri framkvæmd verði í fullkomnu samræmi skuldbindingar íslenska ríkins samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem íslenska ríkið hefur undirgengist.
Þá er óhjákvæmilegt að árétta að mannúð og mannúðarsjónarmið verða, eðli máls samkvæmt, að hafa mjög mikið vægi við túlkun og beitingu mannréttindaákvæða laga og fjölþjóðasamninga, almennt og sérstaklega þegar mjög jaðarsett og berskjaldað fólk á hlut að máli og mjög mikilsverð réttindi og veigamiklir hagsmunir þess eru í húfi. Þetta á augljóslega við um fatlaða hælisleitendur og flóttafólk.
Landssamtökin Þroskahjálp telja mjög mikið skorta á að útlendingayfirvöld hafi gætt þessa nægilega vel við meðferð mála og ákvarðanir í málum fatlaðra hælisleitenda. Samtökin ítreka því eftirfarandi ályktun og áskorun til dómsmálaráðherra, sem samþykkt var á landsþingi samtakanna árið 2021:
Landsþing Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á stjórnvöld að innleiða verklag sem tryggir að tekið sé fullt tillit til fötlunar við meðferð mála fatlaðs flóttafólks og fatlaðra umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Með vísan til þess sem að framan er rakið leggja Landssamtökin Þroskahjálp mjög mikla áherslu á að þess verði sérstaklega vel gætt við undirbúning, gerð og framkvæmd þeirra áforma, sem hér eru til umsagnar, að taka fullt tillit til ákvæða samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, eins og íslenska ríkinu er skylt að gera, sbr. ákvæði 4. gr. samningsins, sem vísað er til að framan og lýsa samtökin miklum vilja til virks og náins samráðs við dómsmálaráðuneytið við það mikilvæga verkefni. Samtökin vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. (Feitletr. Þroskahj.)
Landssamtökin Þroskahjálp taka heils hugar undir það sem fram kemur í umsögn Unicef, dags. 29. júlí 2025, um þau áform sem hér eru til umsagnar.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér