Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um breytingu á lögum nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili
16. september 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Varðandi þau áform sem hér eru til umsagnar árétta samtökin sérstaklega skyldur íslenska ríkisins samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur, stjórnarfrumvarp um lögfestingu samningsins var til meðferðar á síðasta þingi og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans. í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa mikla þýðingu m.t.t. þess sem fjallað er um í áformunum.
Í formálsorðum samningsins segir:
Ríki, sem eiga aðild að samningi þessum viðurkenna að sem fatlaðar konur og stúlkur eru oft í meiri hættu, innan heimilis sem utan, á að verða fyrir ofbeldi, skaða eða misþyrmingum, vanrækslu eða hirðuleysi, illri meðferð eða misnotkun í gróðaskyni,
4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ...
Við undirbúning gerð og setningu þeirra laga, sem hér eru til umsagnar, verða stjórnvöld að gæta sérstaklega að skyldum, sem á þeim hvíla samkvæmt 5., 13. og 16. gr.samningsins.
5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og er svohljóðandi:
1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
4. Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa.
Í samningnum er viðeigandi aðlögun skilgreind svo: Viðeigandi aðlögun merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.
13. gr.samningsins hefur yfirskriftina Aðgangur að réttinum. Þar segir:
1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum til jafns við aðra, meðal annars með aðlögun málsmeðferðar og aðlögun með tilliti til aldurs í því skyni að greiða fyrir árangursríkri þátttöku þess, beinni eða óbeinni, þar á meðal sem vitni, í allri málsmeðferð, þ.m.t. á rannsóknarstigi eða öðrum fyrri stigum máls.
2. Í því skyni að tryggja fötluðu fólki árangursríkan aðgang að réttinum skulu aðildarríkin efla viðeigandi þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, þar á meðal lögreglu og starfsfólk fangelsa.
Og 16. gr.samningsins, sem hefur yfirskriftina Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, er sérstaklega mikilvæg m.t.t. þeirra áforma sem hér eru til umsagnar. Greinin hljóðar svo:
1. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, þar á meðal kynbundnum hliðum þessa.
2. Aðildarríkin skulu einnig gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir hvers konar misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar, þar á meðal með því að tryggja fötluðu fólki og fjölskyldum þess og umönnunaraðilum viðeigandi aðstoð og stuðning, sem tekur mið af kyni og aldri, meðal annars með upplýsingagjöf og fræðslu um hvernig beri að forðast, átta sig á og tilkynna um misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar. Aðildarríkin skulu tryggja að við þá þjónustu þar sem vernd er veitt sé tekið mið af kyni, aldri og fötlun.
3. Í því skyni að koma í veg fyrir misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar í hvaða mynd sem er skulu aðildarríkin tryggja að óháð yfirvöld hafi árangursríkt eftirlit með allri aðstöðu og áætlunum sem er ætlað að þjóna fötluðu fólki.
4. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að efla líkamlegan, vitsmunalegan og sálrænan bata, endurhæfingu og félagslega enduraðlögun fatlaðs fólks, sem verður þolendur misnotkunar í gróðaskyni, ofbeldis eða misþyrminga í einhverri mynd, meðal annars með því að bjóða fram þjónustu sem veitir vernd. Slíkur bati og enduraðlögun skulu fara fram í umhverfi sem stuðlar að bættri heilsu, velferð, sjálfsvirðingu, reisn og sjálfræði viðkomandi einstaklings, þar sem tillit skal tekið til kyn- og aldursbundinna þarfa.
5. Aðildarríkin skulu taka upp árangursríka löggjöf og stefnu, þar á meðal löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til að tryggja að misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki verði greindar, rannsakaðar og eftir atvikum ákært vegna þeirra.
Landssamtökin Þroskahjálphjálp leggja ríka áherslu á að þess verði sérstaklega vel gætt við undirbúning, gerð, setningu og framkvæmd þeirra áforma um þá lagasetningu, sem hér er til umfjöllunar, sem og eftirlit með framfylgd þeirra laga að taka fullt tillit til ákvæða samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, eins og íslenska ríkinu er skylt að gera, sbr. 4. gr. samningsins sem vitnað er til að framan. Samtökin lýsa miklum áhuga og vilja til náins og virks samráðs við dómsmálaráðuneytið við það mikilvæga verkefni og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samningsins, sem hljóðar svo:
Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.
Virðingarfyllst.
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér