Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar frumvarp til laga um brottfall laga um Heyrnar- og talmeinastöð, nr. 42/2007, 238. mál
8. desember 2025
Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína og starfsemi á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur nú verið lögfestur, sbr. lög nr. 80/2025, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.
Landssamtökin Þroskahjálp taka heils hugar undir ábendingar og athugasemdir, sem fram koma í umsögn Kristjáns Sverrissonar, forstjóra Heyrnar- og talmeinastöðvar, um frumvarpið um nauðsyn þess að tryggja að fjárveitingar til framtíðar tryggi mönnun og aðstöðu, tæki og búnað og skora á velferðarnefnd að fara sérstaklega yfir það og fá upplýsingar frá fjárveitingarvaldinu um hvernig það verði tryggt. Samtökin hvetja nefndina einnig eindregið til að fara gaumgæfilega yfir þær áhyggjur og ábendingar, sem fram koma í umsögnum annarra fagaðila um frumvarpið.
Virðingarfyllst.
Guðmundur Ármann Pétursson, formaður Þroskahjálpar
Anna Lára Steindal, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar
Málið sem umsögnin fjallar um má finna hér.